Kristján Þór telur stuðning við Íraksstríðið mistök

Kristján Þór JúlíussonKristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ítrekaði þá skoðun sína á framboðsfundi á Akureyri í kvöld að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu sem formenn stjórnarflokkanna gert mistök með aðild Íslands að innrásinni í Írak árið 2003. Þessi skoðun Kristjáns Þórs er ekki ný. Hann kom henni vel á framfæri í aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í nóvember 2006. Vakti afgerandi afstaða hans í málinu mikla athygli langt út fyrir kjördæmið.

Það var rætt um Íraksmálið í kvöld á þessum fundi. Eftir fjögurra ára átök í Írak er erfitt að halda því fram að árangur hafi náðst þar, nema þá verulega takmarkaður. Það er vissulega sorglegt. Sjálfur tel ég og hef gert um nokkuð skeið að þessi stuðningur hafi verið mistök, en á grundvelli þess sem þá lá fyrir mögulega ekki. Það er alveg ljóst að gögnin sem Bandaríkjamenn birtu á þessum tíma héldu ekki vatni og það er og verður alla tíð metið stóralvarlegt mál.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, var afgerandi fulltrúi ríkisstjórnarinnar á framboðsfundinum á Akureyri í kvöld, enda er Kristján Þór ekki enn orðinn þingmaður og hans staða er því mun opnari en Valgerðar sem var þingflokksformaður Framsóknarflokksins 1995-1999 og verið ráðherra í lykilmálaflokkum frá 1999. Hún er mun tengdari málinu sem ráðherra á þeim tíma og Íraksstríðið hófst. Valgerður gekk ekki eins langt og Kristján Þór en fór samt nærri því að meta stuðninginn mistök þó orðalagið væri hóflegra.

Ákvörðun um það sem gerðist í ríkisstjórn og meðal formanna stjórnarflokkanna vorið 2003 flokkast undir sagnfræði nú orðið. Það er bara þannig. Það sem þar var ákveðið verður ekki aftur tekið. Það er mjög athyglisvert að heyra umræðu um þetta nú og sérstaklega afgerandi ummæli forystumanna innan stjórnarflokkanna. Þar er mismikið hik þó á mönnum í eldlínu stjórnmálanna.

Kristján Þór Júlíusson hefur væntanlega gengið lengst sjálfstæðismanna í að tala gegn ákvörðunum þessa vors, í aðdraganda þingkosninganna 2003 og hefur ekki hikað við að taka afstöðu gegn flokkslínum, jafnvel á málum sem hafa verið umdeild. Það sýnir styrk hans sem leiðtoga á lokaspretti kosningabaráttunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voru bara stjórnarflokkarnir með þennan fund??? Eða eru þetta skilaboð til okkar, bloggvinanna og vinkvenna þinna, að ekkert áhugavert hafi verið hægt að finna hjá hinum??? Eins og ég segi: BARA forvitin - ég var ekki þarna

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 01:58

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég fjallaði um fundinn í færslunni á undan þessari. Þetta var opinn stjórnmálafundur allra framboða í Norðausturkjördæmi hér á Akureyri í kvöld. Þetta er eini sameiginlegi framboðsfundurinn hér á Akureyri fyrir þessar kosningar. Hinsvegar er öllum ljóst að allir flokkar nema stjórnarflokkarnir voru á móti því að styðja innrásina.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.5.2007 kl. 02:01

3 Smámynd: Dunni

Það er löngu ljóst að Kristján Þór er mjög frambærilegur stjórnmálamaður. Það hefur hann sýnt með verkum sínum. Hann er líka einn af sára fáum sjálfstæðismönnum sem ekki hefur verið "já-dúkka" Davíðs Oddsonar fyrrum flokksformanns. Þess vegna nýtur Kristján virðingar pólitískra andstæðinga nánast hvar í flokki sem þeir standa.

En hvers vegna Davíð og Halldór tóku ákvörðunina um að fylgja B & B í Íraksstríðinu mun sagan segja okkur síðar. Það er alveg ljóst að þeir ljúga að þjóðinni þegar þeir segja að það hafi verið réttlætanlegt í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir. Blix hinn sænski, sem rannsakaði vopnaástandið í Írak hafði marg lýst því yfir að engin kjarnorku eða efnavopn af því tagi sem Bush blaðraði um, væru að finna í Írak. Skoðun hans naut fylgi lang flestra ríkja í SÞ. Sagan sýnir nú þegar að Blix hafði rétt fyrir sér en George Bush laug vísvitandi að þingi sínu, þjóð sinni og heimsbyggðinni allri.

Af hverju völdu Davíð og Halldór að trúa George Bush? Því getur íslenska þjóðin velt fyrir sér.

Dunni, 8.5.2007 kl. 05:53

4 identicon

Það er alltaf gleðiefni þegar stjórnmálamenn á uppleið þora þegar aðrir þegja. Held að hægt sé að segja að allur þorri landsmanna sé nú á þeirri skoðun að stuðningur við þessa innrás hafi verið regin mistök. Þeir sem viðurkenna mistök eru menn af meiri. Stundum hafa manni fallist hendur yfir afstöðu margra stjórnmálamanna þegar kemur að vondum málum sem þeir verja með kjafti og klóm. Ég veit ekki hvort hægt er að nefna þetta hollustu við flokk eða stefnu en þegar augljóslega er gengið gegn betri vitund þá verður orðið meðvirkni ofarlega í huga. Góðir stjórnendur eru hins vegar opnir fyrir gagnrýni og fljótir til að leiðrétta mistök sín. Slíkt gerist því miður allt of sjaldan í íslenskri pólitík. Held að nú séum við að sjá upphafið af nýrri og sjálfstæðari kynslóð.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 08:58

5 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Sæll Stefán.

Það er gott að sjá að þið sjálfstæðismenn í NA getið viðurkennt mistök forystunnar. Hins vegar virðist þið einir um þessa skoðun innan ykkar flokks. Valhöll hefur mér vitanlega ekki gefið neitt út um þetta mál sem skoða mætti sem iðrun. Enda hvers vegna ættu þeir að gera það? Kjósendur sjálfstæðisflokksins virðast samkvæmt könnunum vera himinlifandi með þessa ákvörðun. Kjósendur framsóknar virðast hins vegar vera ósáttir.

Nú hefur bandaríkjaforseti unnið leynt og ljóst að áætlun um innrás í Íran. Ef sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér, mun hann þá ekki styðja þau áform ef af verða?

Jóhannes Freyr Stefánsson, 8.5.2007 kl. 11:01

6 Smámynd: Lafðin

Ekki alveg eins og Kristján Þór sé fyrstur til að koma með slíkar yfirlýsingar. 

"...Í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær fjallaði Jón um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrás bandaríkjamanna í Írak. Jón sagði að ákvarðanirnar hafi byggst á röngum upplýsingum. Forsendur hafi verið rangar og ákvörðunarferlinu ábótavant. Ákvarðanirnar voru því rangar eða mistök, sagði Jón. Hann bætti við að listi um staðfastar þjóðir hafi verið einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar. Loks sagði Jón að ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni beri ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd alþingis." (úr frétt Rúv 26. nóv.2006) 

Lafðin, 8.5.2007 kl. 12:11

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Dunni: Tek undir orð þín um Kristján Þór og flest annað líka. Góðar hugleiðingar.

Jóhann: Tek undir þetta.

Kristinn: Ég hef alla tíð borið virðingu fyrir baráttu þinni og því að segja þínar skoðanir hreint út. Það er heiðarlegt og gott. Hafi menn skoðun eiga þeir að tjá hana og gera það hreint út.

Jóhannes: Það er mjög heiðarlegt að segja sínar skoðanir. Það gerir Kristján Þór. Sjálfur er ég algjörlega andvígur innrás í Íran og hef skrifað um það hér.

Lafðin: Kristján Þór kom fyrr með þessa yfirlýsingu en Jón Sigurðsson gerði. Hann sagði þetta fyrst í nóvemberbyrjun 2006 í prófkjörsbaráttunni í Norðausturkjördæmi, m.a. í Fréttablaðsviðtali.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.5.2007 kl. 12:27

8 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Ég vil taka það fram Stefán að ég er ekki að gagnrýna þig eða þínar skoðanir, heldur flokksins þíns. Þú virkar í mínum huga sem eins konar samviska Flokksins.

Reyndar held ég að þú sért sósíaldemókrati inn við beinið.

Lafðin, ég vil minna á að frá því að Jón lýsti þessu yfir hefur hann verið að reyna að draga í land með þetta. Hann hefur m.a. sagt að það sé enginn undirritaður listi til, og látið þar með að því liggja að málið sé léttvægara en almenningur kann að halda...

Jóhannes Freyr Stefánsson, 8.5.2007 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband