Skaðar Jónínumálið Framsóknarflokkinn?

Jónína Bjartmarz Það er vægt til orða tekið að könnun Gallups í gær hafi verið áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Eflaust spyrja sig einhverjir hvort að málið margfræga tengt veitingu ríkisborgararéttar til Luciu Celeste Molina Sierra, tengdadóttur Jónínu Bjartmarz, hafi skaðað flokkinn eða hverju öðru mögulega valdi. Ég veit að þessi könnun var mikið högg fyrir Framsóknarflokkinn þegar að aðeins örfáir sólarhringar lifa af kosningabaráttunni.

Könnunin var það vond að gangi eitthvað viðlíka eftir yrði flokkurinn að byggja sig upp nær frá grunni. Spjótin hafa vissulega staðið á Framsóknarflokknum úr mörgum áttum. Hinsvegar finn ég á þeim framsóknarmönnum sem ég þekki að þeir töldu að landið væri að rísa, sérstaklega hér í Norðaustri, botninum væri náð og nú myndi flokkurinn landa vænlegri, ekki ákjósanlegri en þolanlegri tveggja stafa prósentutölu.

Þessi könnun gerði nær út af við vænlega fylgismælingu en spurt er þó vissulega hvernig muni að lokum fara. Stóru tíðindin í gær eru þau að Framsókn horfist raunverulega í augu við það að þurrkast út á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það muni nú ekki gerast en möguleikinn á því er þó mun meira til staðar nú en fyrir fjórum árum. Lokasprettur Framsóknar í kosningabaráttunni 2003 var ævintýralega góður. Það stefnir þó ekkert í að það afrek verði endurtekið.

Á laugardag ráðast örlög Framsóknarflokksins, hvort að hann verði áfram flokkur valda og áhrifa eða fari í pólitíska endurhæfingu. Ekkert eitt mál hefur verið meira rætt síðustu dagana en Jónínumálið. Ekki veit ég hvort það sé ástæða þess að fylgið hrynur aftur af Framsóknarflokknum en ansi er það nú líklegt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Varla er það þetta eina einstaka mál sem útskýrir þessar hrakfarir eða afhroð flokksins.  Mál í þessarri katagoríu eru orðin nokkuð mörg þegar framsóknarflokkurin er annars vegar og hugsanlega er fólk orðið betur upplýst en áður.

Magnús Jónsson, 8.5.2007 kl. 11:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta skiptir máli til skamms tíma litið á kjördag. En málin eru orðin mörg og vandræðasagan á kjörtímabilinu er orðin löng og erfið. Forystuvandi er líka ástæða þess að einhverju marki.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.5.2007 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband