Tony Blair segir af sér á morgun

Tony Blair Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, mun segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins á morgun og tilkynna um dagsetningu starfsloka sinna sem forsætisráðherra. Búist er við því að hann tilkynni pólitísk endalok sín formlega á blaðamannafundi í Sedgefield eftir hádegið á morgun. Tony Blair hefur verið þingmaður Sedgefield í 24 ár. Talið er að hann muni segja af sér sem þingmaður sama dag og hann lætur af embætti forsætisráðherra, sem mun leiða til aukakosninga í Sedgefield fyrir sumarlok.

Leiðtogaslagur hefst í Verkamannaflokknum með formlegri afsögn forsætisráðherrans af leiðtogastóli. Leiðtogaslagurinn mun skv. flokksreglum taka sjö vikur. Öruggt er orðið að Gordon Brown, fjármálaráðherra, verður næsti leiðtogi Verkamannaflokksins og tekur við forsætisráðherraembættinu í síðasta lagi í júlí. Ljóst er að enginn sitjandi ráðherra úr hinum svokallaða Blair-armi muni skora Brown á hólm. Tveir þingmenn flokksins úr vinstriarminum hafa talað um leiðtogaframboð og reynir á það innan nokkurra daga hvort þeir fari fram.

Tony Blair hefur verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins síðan í júlí 1994. Hann var kjörinn flokksleiðtogi í stað John Smith, sem varð bráðkvaddur 12. maí 1994, en Smith hafði tekið við leiðtogahlutverkinu af Neil Kinnock eftir hið óvænta og skaðlega tap flokksins í þingkosningunum 1992. Blair byggði New Labour til valda í breskum stjórnmálum, konseptið var jafnaðarmannaflokkur á miðjunni. Flokkurinn vann afgerandi og um leið sögulegan sigur í þingkosningum 1. maí 1997 og batt enda á átján ára stjórnartíð Íhaldsflokksins. Blair fagnaði áratug við völd fyrir aðeins rúmri viku, 2. maí sl.

Það verða þáttaskil með brotthvarfi Tony Blair úr breskum stjórnmálum. Hann hefur haft gríðarleg áhrif á litríkum stjórnmálaferli. Hann leiddi Verkamannaflokkinn til þriggja kosningasigra, allra mjög eftirminnilegra í breskum stjórnmálum - hann var dómínerandi leiðtogi jafnaðarmanna og framan af leiðarljós þeirra í allri Evrópu í raun. Sú stjarna hefur hnigið þó mjög eftir upphaf Íraksstríðsins. Blair hefur verið kraftaverkamaður í pólitík. Oft hefur hann staðið tæpt og alltaf komið standandi niður frá vondri stöðu.

En nú er komið að leiðarlokum. Nú fer sviðsljósið frá leiðtoganum sigursæla og dómínerandi stöðu hans yfir á leiðtogakjör í Verkamannaflokknum. Brátt verða svo húsbóndaskipti í Downingstræti 10. Baktjaldamaðurinn mikli, Gordon Brown, verður brátt einn valdamesti maður heims, lykilmaður á vettvangi stjórnmálanna. Enginn vafi er á því að hann tekur við af Blair, hann mun reyna að tryggja Verkamannaflokknum fjórða sigurinn, möguleikann á áframhaldandi völdum. Það eru spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband