Snörp, vönduð og lífleg leiðtogaumræða á Stöð 2

Leiðtogar á Stöð 2 Bestu leiðtogaumræður kosningabaráttunnar til þessa voru í kvöld á Stöð 2; allt í senn snörp, vönduð og lífleg umræða. Allt sem hægt er að hugsa sér. Það var slegið þar á nýja strengi og leiðtogarnir þurftu að standa sig svo sannarlega til að standa heilir í gegnum þáttinn. Sumir slógu í gegn en aðrir voru flatir. Það var engin dauð stund í gegnum þáttinn, hann var brotinn upp með skemmtilegum og nýstárlegum hætti - mjög flott.

Mér fannst Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bera af í þessum þætti. Geir er að taka kosningabaráttuna með traustu yfirbragði, spilar sig safe, enda getur hann gert það, hann hefur langan stjórnmálaferil að baki og hefur traust yfirbragð manns með mikla þekkingu á málum og hefur flokkinn sterkan að baki sér. Ingibjörgu Sólrúnu hafa verið mislagðar hendur víða eftir að hún missti fótanna í borgarstjórastólnum fyrir fjórum árum og komst ekki á þing en hún hefur verið að styrkjast eftir landsfund Samfylkingarinnar.

Áberandi verstir í kvöld miðað við hina voru Jón Sigurðsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. Er þá ekki þar með sagt að þeir hafi verið afleitir. Þeir voru einfaldlega ekki að glansa í gegnum kvöldið. Mér finnst Jón enn vera of embættismannalegur. Hann hefur reyndar lagast mikið í gegnum kosningabaráttuna. Það vantaði þó sóknarkraftinn, þorstann í að slá flugur til að ná því breakthrough-i sem flokkinn og hann vantar. Kannanir sýna misvísandi stöðu en enn vantar eitthvað hjá Jóni. Guðjón Arnar er eins og hann er, hann sló ekki margar flugur í jafnréttisumræðunni.

Umhverfispostularnir sjálfskipuðu Steingrímur J. og Ómar eru þá enn eftir. Mér finnst Steingrímur J. leiftrandi mælskur og skemmtilegur. Seint verð ég sammála sem hann segir en mér finnst hann mjög kraftmikill í sínum skoðunum og það er ekkert hik á honum. Hann er eins og Geir vintage-stjórnmálamaður; reyndur, traustur og ákveðinn. Hann hefur mikla reynslu fram að færa og það skilar sér. Ómar er nýr í bransanum en fullur eldmóðs, kannski á tíðum of miklum. Samt stundum gaman af honum. Við sem ólumst upp við barnaplötur hans eigum erfitt með að gagnrýna hann, en hann er samt ekki stjórnmálamaður í huga mér.

Það sem var mest áhugavert í þessum þætti var one-on-one spjallið milli leiðtoga og spyrils. Mjög flott hjá Stöð 2. Fimm mínútur gefnar - spurningaflóð sett á og leiðtoginn kominn under heat. Hef oft séð svona session erlendis, þetta er snarpt, flott og lifandi spjall. Þarna reynir á leiðtogann alla leið. Mér fannst leiðtogarnir flestir vera bestir í einmitt þessum hluta. Ómar kom mun betur út þarna en í spjallinu. Þessar fimm mínútur gáfu áhorfandanum næringarríkari og betri svör í þankann um hvað ætti að kjósa en fuglabjargstalið þar sem allir vilja tala ofan í næsta mann.

Semsagt; skemmtilegt kvöld á Stöð 2. Flottar umræður, sem skiluðu sér vel til áhorfandans. Mjög glæsilegt prógramm þarna á ferðinni. Stöð 2 getur verið stolt af umbúnaði sínum utan um kosningaumfjöllunina. Það stefnir flest í að Stöð 2 taki RÚV í grafíkinni. Gríðarlega flott og greinilega sett upp að breskri fyrirmynd. Þeir eru frábærir í þessum bransa tjallarnir, sást mjög vel t.d. um daginn á kosningavöku Sky og BBC vegna byggðakosninganna um daginn.

Það var áhugavert að fá enn eina könnun. Hún sýnir okkur enn einar vísbendingarnar í stöðuna. Les það helst út úr henni að möguleikinn á vinstristjórn hefur aukist. Það er samt allt opið í stöðunni og spennan að verða ansi óbærileg vegna helgarinnar. Þetta munu verða líflegar kosningar þar sem úrslit ráðast jafnvel ekki fyrr en undir morgun með lykilstöðu. Helst verður horft á hvort að stjórnin sé feig eður ei. Kannanir gefa misvísandi myndir af því sem er að gerast. Það verður spurt að leikslokum.

En enn og aftur hrós til Stöðvar 2. Líst vel á það sem þeir eru að gera og finnst umfjöllun þeirra utan um kosningarnar mjög vönduð og vel gerð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Helgi tók sig á og gagnrýndi bæði til hægri og vinstri, leyfði mönnum að ljúka máli sínu. Hann hefur greinilega fengið einhverja "viðvörun" og er það af hinu góða.

Þættinum var líka stjórnað af reynsluríkum fréttamanni ,(Hjaltadóttir man ekki nafnið) já þátturinn var góður.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 10.5.2007 kl. 02:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband