Spenna á lokasprettinum - fellur ríkisstjórnin?

Könnun (11. maí 2007)Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir alþingiskosningarnar á morgun er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallin. Sjálfstæðisflokkurinn og VG bæta við sig fylgi á lokasprettinum en Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Frjálslyndir falla milli daga. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 38,4% og hlyti flokkurinn 25 alþingismenn, þrem fleirum en í kosningunum 2003.

Framsóknarflokkurinn stefnir í verstu kosningaúrslitin í 90 ára sögu sinni á morgun ef marka má könnunina. Þar virðist fátt geta gerst á lokasprettinum sem afstýrir skaðlegu fylgishrapi flokksins. Fylgið mælist aðeins 10,3% í dag og flokkurinn hefur aðeins sex þingmenn í hendi við þetta, myndi tapa sex þingsætum, sem er helmingur þingflokksins sem komst inn í alþingiskosningunum 2003. Samfylkingin mælist í dag með 25,8% og hefur 17 þingsæti, þrem færri en í kosningunum 2003. VG mælist í dag með 17,6% og 11 þingsæti, myndi bæta við sig sex þingsætum frá kosningunum 2003.

Frjálslyndi flokkurinn mælist með slétt 6% í dag og fjögur þingsæti, jafnmikið og hann fékk í alþingiskosningunum 2003. Íslandshreyfingin hefur ekki náð neinu flugi í raðkönnunum Gallups í gegnum vikuna og það gerist ekki heldur í síðustu skoðanakönnuninni fyrir kosningarnar. Fylgið í dag fellur í fyrsta skipti undir 2% múrinn og mælist 1,9% og þar er því auðvitað enginn þingmaður á blaði. Það hlýtur að teljast pólitískt kraftaverk nái flokkurinn þingmanni eftir sorgarsögu í könnunum undanfarnar vikur. Kannanirnar hafa verið athyglisverðar í gegnum vikuna; miklar sveiflur og athyglisverðar pælingar hafa vaknað í kjölfar þeirra.

Ef raðkönnunum Gallups er staflað upp verður úr því stórt úrtak og mjög öflug skoðanakönnun per se. Í samtalningu allra kannanna fimm mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 38,9% og 25 þingmenn, Framsóknarflokkurinn hefur 11% og 7 þingmenn, Samfylkingin mælist með 25,6% og 17 þingmenn, VG hefur slétt 16% og 10 þingmenn og Frjálslyndi flokkurinn mælist með 6,3% og 4 þingmenn. Í samtalningunni er Íslandshreyfingin með 2,2% og engan þingmann sem fyrr. Síðasti þingmaðurinn til að ná inn myndi vera skv. þessu 17. þingmaður Samfylkingar og næstur inn væri 26. þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Samkvæmt uppstöflun raðkannana heldur stjórnin semsagt með naumasta hætti. Í gegnum tíðina hafa uppstaflaðar raðkannanir Gallups vikuna fyrir kjördag verið næstar kosningaúrslitum. Svo var að mig minnir bæði 1999 og 2003, og að ég held líka árið 1995. Þannig að þetta gefur sterkar vísbendingar um morgundaginn. Það stefnir í örlagadag í stjórnmálum á morgun. Stjórnin er mjög tæp og virðist á fallanda fæti eftir tólf ára setu og erfitt að spá í hvað gerist. Kannanir hafa rokkað fram og til baka alla vikuna og öllum ljóst að nú stefnir í eina mest spennandi kosninganótt íslenskrar stjórnmálasögu. Gangi kannanir eftir verður jafnt á munum.

Kosningabaráttunni lýkur innan skamms með lokaumræðum stjórnmálaleiðtoganna sex hjá Ríkissjónvarpinu. Kannanir hafa sýnt það að kosningarnar á morgun verði spennandi. Nú er hinsvegar tími skoðanakannanna í alþingiskosningunum 2007 liðinn. Þær hafa sýnt hvað geti gerst. Á morgun eru það kjósendur sem greiða atkvæði og fella sinn dóm. Hann verður í sviðsljósinu frá kl. 22:00 er kjörstaðir loka og tölurnar streyma inn og örlögin ráðast.

Þetta verður spennuþrungin pólitísk helgi og áhugavert að spá í spilin frá og með fyrstu tölum og þar til að úrslitin liggja fyrir. Þá tekur við að mynda stjórn. Falli ríkisstjórnin eins og könnun Gallups sýnir í dag að mögulega getur gerst taka við spennandi stjórnarmyndunarviðræður. Þannig að það eru svo sannarlega spennandi pólitískir tímar sem eru í sjónmáli nú þegar að kosningabaráttunni er að ljúka.


mbl.is Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Það verður spennandi að sjá útkomuna á morgun. Ég held samt að það verði ekki sama stjórnin áfram hvort sem stjórnin nái 31 eða 33 mönnum. Ég hef heldur ekki trú að að stjórnarandstöðuflokkarnir nái að mynda stjórn með þessum þingmannafjölda.

Ég spáði fyrir löngu síðan að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi næstu ríkisstjórn og það verður spennandi að sjá hvort það verði. Ef ekki þá verður það Sjálfstæðisflokkur og VG. Önnur stjórnarmynstur eru of veik finnst mér. Það verður örugglega niðursveifla á næsta kjörtímabili og ég held að næsta stjórn þurfi öruggann meirihluta til að verða starfshæf.

En maður mætir brosandi á kjörstað á morgun og fylgist spenntur með kosningaúrslitum

Ég ætla annaðhvort að kjósa Samfó eða VG

Kristján Kristjánsson, 11.5.2007 kl. 20:03

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er ekki marktækur munur á þessum tveimur fylkingum.Er hættur að spá,læt öðrum það eftir.Hvernig sem þetta allt fer,verður spennan mikil  og vonandi helst hún fram eftir nóttu.Vonandi verður breyting á ríkisstjórninni,það er slæmt fyrir lýðræðið og stjórnsýsluna ,að samfelld stjórn sömu flokka verði  í 16 ár í stjórn.Ég taldi vera kominn tími á stjórnarskipti í borginni,þar stóðum við frammi fyrir 16 ára stjórn R-listans.Stjórnarskipti á átta ára fresti væri ágætt.Það eru lítil rök í mínum huga,að flokkar endurnýji sig það mikið,að það þurfi ekki að skipta um stjórn.Stjórnarstefna flokkanna breytist lítið og þess vegna þarf að skipta um flokka í ríkisstjórn.

Kristján Pétursson, 11.5.2007 kl. 21:31

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Kristján K: Sammála mörgu í hugleiðingum þínum. Þetta verður mjög spennandi og áhugaverð kosninganótt framundan eftir sólarhring. Hef lengi talið stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins í kortunum félli þessi stjórn og það verður fróðlegt að sjá hvort að það taki við.

Kristján P: Já, þetta er í járnum og mikil spenna yfir stöðunni. Spennandi 30 tímar framundan í íslenskum stjórnmálum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.5.2007 kl. 02:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband