Er stjórnmálaferli Jónínu Bjartmarz lokið?

Jónína Bjartmarz Jónína Bjartmarz, fráfarandi umhverfisráðherra, fékk þungan skell í þingkosningunum um helgina er hún féll af þingi. Stjórnmálaferli hennar virðist lokið. Fall hennar kemur skömmu eftir margfrægt mál tengt veitingu ríkisborgararéttar til Luciu Celeste Molina Sierra, tengdadóttur hennar. Þá var Jónína í eldlínu mjög erfiðrar umræðu og reifst við Helga Seljan, frænda minn, í eftirminnilegu Kastljósviðtali. Allt til loka kosningabaráttunnar barðist hún fyrir því að fá afsökunarbeiðni frá Ríkisútvarpinu vegna umfjöllunar Kastljóss. Hún kom auðvitað ekki.

Jónína tók sæti á Alþingi 1. janúar 2000 þegar að Finnur Ingólfsson sagði af sér þingmennsku og ráðherraembætti, en Valgerður Sverrisdóttir tók við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu af Finni á sömu tímamótum. Jónína var lengi áberandi í nefndastarfi þingsins, lengst af sem varaformaður allsherjarnefndar og formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis. Jónína hlaut ekki ráðherrastól, mörgum að óvörum, í ráðherrauppstokkun vorið 2003 er Páll Pétursson hvarf úr félagsmálaráðuneytinu en þess í stað varð Árni Magnússon ráðherra, sem nýkjörinn þingmaður. Jónína varð loks ráðherra fyrir tæpu ári.

Það eru mikil tíðindi að Framsóknarflokkurinn hafi þurrkast út af þingi í Reykjavík. Ég man ekki hvað er langt síðan að Framsókn var þingmannslaus í Reykjavík síðast. Ef einhver veit það endilega komið með það, einhverra hluta vegna er ég ekki viss um það þó að allskonar tölur og pólitískar stúdíur séu í hausnum á mér oft á tíðum. Held að hann hafi verið þó með þingmann þar allavega samfellt síðan á sjöunda áratugnum. Man það þó ekki. Það er auðvitað rosalegt áfall fyrir flokkinn þar að ná ekki formanni Framsóknarflokksins inn sem öruggum þingmanni og fall Jónínu Bjartmarz er auðvitað táknrænt eftir allan ölduganginn á henni vegna sérstaklega þessa umdeilda máls.

Ég skrifaði hér fyrir nokkrum vikum er málið var sem mest í umræðu að kjósendur í Reykjavík suður myndu að lokum fella dóm yfir Jónínu og það yrði fróðlegt að sjá hver útkoma hennar yrði er hún færi fyrir kjósendur. Dómurinn varð giska skýr, þetta er þungur áfellisdómur yfir Jónínu og Framsóknarflokknum í Reykjavík yfir höfuð auðvitað. Þar tekur uppbyggingarstarf við. Þrír þingmenn féllu fyrir borð hjá flokknum. Þetta er auðvitað skelfileg staða fyrir flokk sem hefur vanist völdum og áhrifum nær samfellt í yfir þrjá áratugi og haft völd til að stjórna lykilmálum. Þetta er líka mikið áfall fyrir Björn Inga Hrafnsson, leiðtoga flokksins í borgarstjórn.

Framsóknarflokkurinn gengur í gegnum dimma dali þessa dagana. Skoðanakannanir voru dökkar og raunveruleikinn varð kuldalega líkur könnunum. Þetta eru þung örlög fyrir Framsóknarflokkinn. Í Reykjavík tekur uppbygging við. Stjórnmálaferli Jónínu Bjartmarz virðist lokið eftir sjö ára þingsetu og árs ráðherraferil. Hún hefur enga stöðu lengur í raun innan flokksins og er á útleið úr hringiðu stjórnmálanna.

Ráðherraferli Jónínu Bjartmarz lýkur með kuldalegum hætti og öllum ljóst að ekkert annað tekur við fyrir hana en að pakka niður á skrifstofunni í Skuggasundi og hugleiða næstu skref í öðrum veruleika en þeim pólitíska. Það verður fróðlegt að sjá hver næstu skref Jónínu Bjartmarz verða nú við þessi kuldalegu kaflaskil.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Hefði ráðherrann í upphafi komið fram og útskýrt tengsl sín og viðurkennt á hve gráu svæði mál þetta er gagnvart henni hefði útkoman ef til vill litið öðruvísi út en það var ekki gert.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 14.5.2007 kl. 02:26

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Ég er alls ekki viss um að þetta svokallaða Jónínumál hafi skipt öllu varðandi niðurstöðu Framsóknar í Reykjavík. Miklu frekar held ég að stuðningur við Íraksstríðið; virkjana-og stóriðjumál; klaufaleg formannaskipti og almennt trúverðugleiki flokksins hafi skipt mestu. Síðan held ég að útafskipting Jóhannesar Geirs í Landsvirkjun hafi skipt máli, og yfirlýsing Jóns Sig. um að það væri engum hollt að sitja lengi við völd hafi skipt máli. A.m.k. tóku kjósendur hann á orðinu og vilja skipta Framsókn út.

Guðmundur Örn Jónsson, 14.5.2007 kl. 09:31

3 identicon

Þetta er frábært!

Ég var búinn að gefa upp alla von og hélt að íslenskt lýðræði væri kynlaust og máttlítið afl. Jónína fúl og farin af þingi og hefði verið hægt að halda Árna úti með samstilltu átaki. Það tekst vonandi næst.

Einar Örn Ólafsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 10:22

4 identicon

Ég held að skilaboðin hefðu ekki getað verið skýrari, Jónína nær ekki kjöri (hvort sem um eina eða fleiri ástæður er að ræða). Svo nær formaðurinn sjálfur ekki kjöri ... og skilaboðin í heild eru skýr: út úr ríkisstjórn með Framsókn. Stjórnin heldur velli með færri atkvæði en stjórnarandstæðan ... ef ríkisstjórnarsamstarf heldur áfram óbreytt - þá verður ansi heitt í kolunum ansi lengi og blautar tuskur hendast framan í fólk reglulega ...

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 11:48

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Guðrún María: Tek undir þetta.

Guðmundur Örn: Þetta fór allt saman og endaði svona. Þetta Jónínumál varð Jónínu persónulega gríðarlega þungt í skauti og það skipti hiklaust máli sérstaklega í Reykjavík suður fyrir hana þegar að kjósendur voru í kjörklefanum og merktu við. Þetta mál hlýtur að hafa verið í huga margra, enda svo stutt frá mesta hitanum í því.

Einar Örn: Tek undir það. Góð skrif.

Doddi: Já, þetta voru skýr skilaboð í Reykjavík suður. Þau verða ekki sniðgengin eftir allan hasarinn sem varð um þetta mál fyrir nokkrum vikum.

Steingrímur: Jónína hefur enga stöðu lengur. Hún er fráfarandi ráðherra og mun fara að snúa sér að öðru. Hún er umboðslaus með öllu, annað en formaður Framsóknarflokksins sem hefur kjör sem flokksformaður af flokksþingi upp á vasann.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.5.2007 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband