Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún funda á Þingvöllum

Ingibjörg Sólrún og Geir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafa verið í sveitasælunni í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum í allan dag að mynda grunn að myndun nýrrar ríkisstjórnar flokkanna. Þar virðist vera unnið að krafti auk þess sem málefnanefndir hafa unnið ötullega að málefnavinnu stjórnarsáttmála sem er í burðarliðnum.

Fátt bendir til annars en að vel gangi og að stjórn flokkanna taki við völdum á næstu dögum. Það hefur þó verið mikil umræða uppi um það að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hafi ekki setið fyrsta stjórnarmyndunarfund flokkanna og margir spurt sig hreinlega að því hvort hann verði ráðherraefni hjá flokknum, sem vekur mikla athygli. Það hefur verið slegið á þær vangaveltur í dag enda situr Ágúst Ólafur fund formanna flokkanna á Þingvöllum ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Árna M. Mathiesen.

Miklar vangaveltur eru uppi um það hverjir verði ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það er ekki undrunarefni að farið sé að velta því fyrir sér, enda blasir við að flokkarnir muni að öllum líkindum ganga frá öllum helstu lausu endunum í stöðunni á næstu dögum. Megináhersla nú hlýtur að vera lögð á að flokkarnir nái málefnagrunni áður en farið verður að skipta ráðuneytum og embættum í stjórnarsamstarfinu. Það hefur farið vel á með flokkunum og fátt sem bendir til annars en að vel gangi saman með flokkunum. Eflaust eru þó alltaf einhver viðkvæm mál til staðar og fróðlegt að sjá lausnir í þeim málaflokkum.

Athyglisvert er að fundað sé á Þingvöllum, þó varla séu það stórtíðindi. Það er mikilvægt að formenn flokkanna og helstu samherjar þeirra geti fundað fjarri miklu sviðsljósi fjölmiðlanna og hafi kyrrð og ró yfir fundinum, sem er auðvitað vel til staðar í þeirri yndislegu stemmningu sem alla tíð hefur einkennt Þingvelli. Fyrir tólf árum mynduðu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson grunn að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Þingvöllum yfir páskahátíðina 1995. Nú yfir þessa helgina er grunnur nýs samstarfs á öðrum grunni lagður á sama stað.

Það verður fróðlegt að heyra meira um gang viðræðnanna og eflaust mun verða reynt að ná tali af formönnum væntanlegra stjórnarflokka í kvöldfréttatímum innan stundar og athyglisvert að heyra skoðanir þeirra á stöðu mála. Ef ég þekki íslenska fjölmiðlamenn rétt hafa þeir umkringt forsætisráðherrabústaðinn og bíða þess að fá viðbrögð eða meiri fréttir af stöðu stjórnarmyndunarviðræðnanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Þau eru líka að freista þess að fá annað nafn á stjórn sína en "Baugsstjórn" og hver láir þeim það.

Nú skal hún heita "Þingvalloastjórn".

Ekki amalegt ef það tekst!

Viðar Eggertsson, 19.5.2007 kl. 18:27

2 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Fréttastofa RÚV virðist hafa fengið fyrirmæli um þessa nafngift því að hún sló henni upp í fréttakynningu í kvöld.  Ég er hræddur um að "Baugsstjórnarnafnið" verði því lífsseigara sem menn reyna meira til að þvo það af.  Það er annars merkilegt að líta yfir hlutverk fréttastofu RÚV í þeim atburðum sem hafa gerst á undanförnum vikum.  Skömmu fyrir kosningar fór fréttamaður, ættaður úr Samfylkingunni af stað með "frétt" um þáverandi umhverfisráðherra og hélt henni áfram þótt frá upphafi væri ljóst að hún tengdist ekki ráðherranum á nokkurn hátt.    Framsóknarráðherrann, og flokkurhans bauð afhroð og flokkur fréttamannsins skreið undir sæng með íhaldinu.  Við búum í dásamlegu landi.

Hreiðar Eiríksson, 19.5.2007 kl. 19:38

3 Smámynd: Viðar Eggertsson

Var þessi fréttamaður, Helgi Seljan (heitir hann, ég bara nefni hann fyrst Hreiðar þorir það ekki), ekki í forystu einhvers grínframboðs á austurlandi, og fékk svo skyndilega frama í sveitastjórninni. Þetta grínframboð hét ekki þá Samfylkingin ef ég man rétt!

Viðar Eggertsson, 19.5.2007 kl. 19:48

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Viðar: Þingvallastjórn er gott nafn. Síðasta viðreisnarstjórn var mynduð í Viðey af Davíð Oddssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni. Það er viðeigandi að nú sitji menn yfir verkum á Þingvöllum. Finnst afar ómerkilegt af Framsóknarflokknum og forystumönnum hans að fara út úr þessari stjórn með uppnefningar af þessu tagi og þeim ekki til sóma. Þjóðin kaus þá út úr stjórninni, engir aðrir. Það hefur sannað sig vel síðustu daga að það hefði aldrei gengið að halda þessu samstarfi áfram upp á einn mann.

Hreiðar: Ertu að tala um Helga Seljan frænda minn? Það vill nú svo til að Helgi hefur ekki verið í Samfylkingunni um nokkuð skeið. Hann var þar mjög skamma stund flokksbundinn. Hann var kjörinn bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð fyrir Biðlistann, framboð ungs fólks, árið 2002 og það var ekki til flokkstengt framboð. Fram að því hafði Helgi ekki unnið í pólitík eða verið flokkspólitískt tengdur. Hann var í kosningastjórn fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar 2003 en lítil önnur hafa afskipti hans af þeim flokki verið. Þó að Helgi Seljan eldri, móðurbróðir minn, hafi árum saman verið þingmaður Alþýðubandalagsins, er Helgi frændi minn ekki í VG þó kannski standi það ættarhjarta hans nær. En hann er auðvitað ekki í pólitík. Hinsvegar þekki ég Helga vel, enda erum við nær jafngamlir og góðir vinir og get vel upplýst að ekki er hann í Samfylkingunni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.5.2007 kl. 20:06

5 identicon

Er ekki bara allt gott og frábært og æðislegt og geggað og fallegt og til hagsmuns?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 23:52

6 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Þingvallastjórn er gott nafn ef af þessari stjórnarmyndun verður.

Vilborg Valgarðsdóttir, 20.5.2007 kl. 00:04

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Voðalega ertu áhyggjufullur út af Ágústi Stebbi minn.....líður þér betur ef ég segi þér að hann var á Þingvöllum þó fjölmiðlar hafi misst af því ???

Jón Ingi Cæsarsson, 20.5.2007 kl. 00:17

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jónína: Ég held að þetta verði stjórn sem hafi gott umboð til verkanna. Það reynir allavega á þau sem þar vinna. Mér finnst mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í forystu og það verður í þeim efnum að tryggja sterka stjórn ekki veikburða stjórn með gæti dottið upp fyrir þá og þegar vegna tæps meirihluta.

Vilborg: Mjög gott svo sannarlega.

Jón Ingi: Það eru fleiri en ég sem velta þessu fyrir sér. Þetta er mjög áberandi. Annars er fyndið að sjá hversu viðkvæm þið eruð fyrir þessu. Ef allt er í lagi með stöðu Ágústs verður hann ráðherra. Hvað heldurðu með hann, verður Ágúst ráðherra?

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 00:26

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já Þingvallastjórn er gott nafn/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 20.5.2007 kl. 00:28

10 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Nei ég er ekkert viðkvæmur fyrir þessu...ég bara hafði áhyggjur af þér. Þú varst svo áhyggjufullur :-)

Ráðherra...veit það ekki...menn eru fyrst og fremst að einbeita sér að því að ná saman um málefni tel ég, enn sem komið er.

Jón Ingi Cæsarsson, 20.5.2007 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband