Nýr forseti - hugleiðing að loknu forsetakjöri

Ég vil óska nýjum forseta til hamingju með kjörið. Honum fylgja allar góðar óskir með vonum um farsæld honum og þjóðinni til heilla í önnum á forsetavakt. Embætti forseta Íslands er alltaf í mótun. Mikilvægt embætti þegar á reynir. Það sást vel á örlagatímum í forsetatíð Kristjáns Eldjárn og Ólafs Ragnars Grímssonar. Þjóðhöfðinginn þarf að skynja hjartslátt þjóðar, hafa sannfæringu, kraft og þor bæði á ljúfum stundum og þegar móti blæs.

Halla Tómasdóttir átti magnaða lokaviku í baráttunni og náði verðskuldað að vega að forskoti sigurvegarans sem átti dapran lokasprett og hefði örugglega tapað væri kosið t.d. að viku liðinni. Um leið sópaði hún fylgi til sín og var að sameina marga með sér, betur en aðrir. 

Er stoltur af Davíð og hafa stutt hann í þessari vegferð - einlægni hans og hreinlyndi kom vel fram í uppgjörinu við úrslitin. Nú vil ég gjarnan að hann skrifi ævisögu sína og geri upp við liðna tíð og skelli í smásagnabók og skáldsögu. Hann er snilldarpenni og einlægur í því sem hann skrifar og gerir. Sannur heiðursmaður sem ég met mikils.

Stóra lexían að loknu forsetakjöri er þó sú að gera verður breytingar á umgjörð kjörsins. Forsetaefni eiga að safna mun fleiri meðmælendum og njóta meira fjöldafylgis og um leið verðum við að tryggja að forseti sé kjörinn með meirihluta greiddra atkvæða, hvort sem kosið verður í tveimur umferðum eða tekin upp írska leiðin með fyrsta og öðru vali og talið þar til sigurvegarinn nær meirihlutastuðning. 

Viðtal við fráfarandi forseta var eitt af stærstu augnablikum kosningavökunnar. Það er ekki öfundsvert fyrir nýjan forseta að taka við af Ólafi Ragnari, sem hefur með mælsku sinni og forystuhæfileikum verið traustur á forsetavaktinni. Hann getur farið sáttur frá Bessastöðum eftir góða forsetatíð.

Ég kaus ekki Ólaf Ragnar árið 1996 en dáðist mjög sérstaklega af framgöngu Guðrúnar Katrínar sem var sannur sigurvegari þeirrar baráttu og var glæsileg forsetafrú meðan hennar naut við. Andlát hennar var reiðarslag fyrir þjóðina og Ólafur hélt áfram án hennar, bæði umdeildur og einlægur í sínum verkum, síðar með Dorrit sér við hlið, glæsileg og einlæg kona sem þjóðin varð skotin í. Ekki var auðvelt að feta í fótspor Guðrúnar en henni tókst það með sóma.

Var oft ósáttur við Ólaf en líka oft sáttur. Hann var traustur þjónn þjóðarinnar, byggði traust samband við fólkið í landinu og hélt tryggð við hinar dreifðu byggðir í öllum sínum verkum. Í síðustu kosningum sínum kaus ég hann - þar réði mestu hversu vel hann stóð sig í Icesave-málinu.

Þar stóð hann vaktina fyrir þjóðina þegar aðrir brugðust. Hann þorði að verja málstað þjóðarinnar, taka slaginn og snúa taflinu við. Framganga hans þar verður lengi í minnum höfð. Ég vona að nýr forseti höndli viðlíka aðstæður með slíkum sóma þegar á reynir. Við vonum öll það besta.

 

mbl.is Guðni verður yngsti forsetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband