Theresa May á leið í Downingstræti 10

Eftir fyrstu umferð í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins leikur enginn vafi á því að Theresa May er líklegasti eftirmaður David Cameron sem forsætisráðherra Bretlands og flokksleiðtogi. Hún hefur meirihlutaastuðning í þingflokknum, 100 atkvæða forskot á næsta frambjóðanda, og hlaut stuðning þeirra tveggja sem helltust úr lestinni með fæst atkvæði. May er því með pálmann í höndunum. 

Krafan um að hún taki við af Cameron strax í sumar í staðinn fyrir leiðtogaslag fram á haustið hlýtur að vera hávær eftir næstu umferð fái hún yfir 200 atkvæði eins og stefnir nú í. Framboð Michael Gove sem varð til að binda endi á framboð Boris Johnson hefur misheppnast og vopnin snúist allsvakalega í höndum hans og líklegt að hann detti út í næstu umferð.

Boris lék skákina feiknavel eftir svik Gove - hætti strax við framboð og skildi Gove eftir í svaðinu með Svarta Péturinn. Afhjúpaði klækjabrögð hans snilldarlega með þögninni. Svo lýsti Boris yfir stuðningi við Andreu Leadsom og markaði með því Leadsom sem helsta keppinaut May um embættið og eykur með því líkur á að Gove nái ekki í einvígið í póstkosningu, fari hún yfir höfuð fram þegar Gove er úr leik.

Eini möguleiki Gove á að ná í einvígið gegn Theresu May verður ef sumir stuðningsmenn May færa stuðning taktískt yfir á Gove til að henda Andreu Leadsom út úr slagnum og velja veikari keppinautinn. Skv. könnunum á Leadsom mun meiri möguleika en Gove í póstkosningunni. Stuðningsmenn May hafa neitað þessari taktík en fróðlegt verður að sjá niðurstöðu næstu umferðar sem fer fram á morgun.

Theresa May er að mínu mati vænn og góður kostur í Downingstræti 10, yrði öflugur forsætisráðherra. Þó hún lýsti yfir stuðningi við áframhaldandi veru Breta í ESB gerði hún það með vissum snilldarbrag, hún var ekki leiðandi í baráttunni og lét Cameron og George Osborne það eftir. Þeir féllu í baráttunni og hún situr eftir nær óumdeild og með yfirburðastöðu innan flokksins.

May verður önnur konan til að taka við valdataumunum í Downingstræti á eftir járnfrúnni Margaret Thatcher. May tók sæti á breska þinginu í kosningunum 1997 þegar Íhaldsflokkurinn galt afhroð og missti völdin eftir 18 ára valdasetu - í hópi þeirra sem endurreistu flokkinn aftur til valda og virðingar.

Hún hefur verið í lykilvaldahópi flokksins nær allan þingferil sinn - fyrsta konan til að vera formaður innri flokkskjarnans, tók sæti í skuggaráðuneytinu þegar árið 1999 og sat í því allt þar til flokkurinn komst til valda og hún varð innanríkisráðherra 2010. Enginn hefur setið lengur í innanríkisráðuneytinu sl. 150 ár en hún.

Hún er því traustur valkostur reynslu og festu - vel að embættinu komin. Íhaldsflokkurinn ætti að vera vel undirbúinn undir kosningar undir hennar stjórn verði kosið fyrir 2020.


mbl.is Theresa May sigraði í fyrstu umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband