Kvennabylgja fylgir Theresu May í Downingstræti 10

Theresa May fetar í dag í fótspor Margaret Thatcher sem önnur konan á forsætisráðherrastóli í Bretlandi. Hún verður þrettándi forsætisráðherrann í valdatíð Elísabetar II Englandsdrottningar, sem hefur ríkt frá árinu 1952. Eins og ég rakti um daginn var ég viss um að hún yrði forsætisráðherra þegar Boris Johnson féll frá leiðtogaframboði eftir atlögu Michael Gove. Aðeins hún og Boris höfðu þann styrk og myndugleik sem þurfti til að taka við af David Cameron.

Hef áður á þessum vettvangi rakið feril May sem er stórglæsilegur bæði innan Íhaldsflokksins sem og í stjórnmálastarfi almennt. Hún er vel að starfinu komin og líkleg til að verða öflugur leiðtogi hægrimanna í Bretlandi hvort sem kosið verður á næstu mánuðum eða 2020 sitji hún út fullt kjörtímabil. Verkamannaflokkurinn er í algjörri upplausn pólitískt innan og utan valdakjarnans í Westminster og ekki líklegt að hann verði mikil ógn í bráð.

Þegar Margaret Thatcher varð forsætisráðherra í maí 1979 var hún eini kvenkyns ráðherrann og innkoma hennar í leiðtogahlutverk innan Íhaldsflokksins og síðar í Downingstræti 10 söguleg í ljósi karlaveldisins í breskum stjórnmálum. Hún bauð karllægu valdakerfi byrginn og hafði sigur, sem var meiriháttar pólitískt afrek á þeim tímum. Thatcher var hörkutól og mjög leitt að hún náði ekki að lifa þennan dag að kona tæki að nýju við valdataumum í Bretlandi.

Afrek hennar var mikið og segir margt að þegar hún hætti 1990 þótti mörgum ósennilegt að kona næði aftur embættinu næstu hálfu öldina jafnvel. Árin urðu 26 þar til kona kom aftur sem forsætisráðherra í Downingstrætið og segir reyndar margt um sögulegt afrekið núna að báðir lokavalkostir hægrimanna um forsætisráðherraembættið voru konur.

Theresa May verður forsætisráðherra á öðrum, breyttum og betri tímum en Margaret Thatcher forðum daga. Nýr forsætisráðherra mun eflaust setja sitt mark á embættið og koma með aðrar konur með sér í lykilembætti nú, eitthvað sem hefði verið óhugsandi árið 1979 þegar einu valkostir Thatcher í lykilstöður voru einmitt allt karlmenn.

May er hörkutól í pólitísku starfi og mun láta til sín taka, þekkt fyrir að vera sönn kjarnakona sem fer eigin leiðir alls óhrædd. Nú verður kona forsætisráðherra í Bretlandi, kona er kanslari í Þýskalandi og mjög líklegt að Hillary Clinton verði bráðlega forseti Bandaríkjanna fyrst kvenna.

Þetta eru sannarlega áhugaverðir tímar í pólitísku starfi og verður gaman að fylgjast með þeim, sérstaklega Theresu May er hún fetar fyrstu skrefin í nýju embætti og mun setja mark sitt á þau strax með ráðherravalinu. Hún verður töff í sínu hlutverki.


mbl.is Hverjir verða í ríkisstjórn May?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband