Ágúst Ólafur ekki ráðherra - Jóhanna á fornar slóðir

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og SamfylkingarSamfylkingin hefur nú samþykkt stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og valið ráðherra sína. Mikla athygli vekur að Ágúst Ólafur Ágústsson verður ekki ráðherra þrátt fyrir að vera varaformaður Samfylkingarinnar og hljóta þessi tíðindi að vera gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann. Það hafði vakið mikla athygli að hann var ekki með sömu vigt í stjórnarmyndunarviðræðum og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og staðfestist staða hans í þessu vali.

Það eru merkileg tíðindi að Jóhanna Sigurðardóttir snýr aftur í félagsmálaráðuneytið eftir þrettán ára fjarveru, en hún var ráðherra málaflokksins árin 1987-1994, er hún sagði skilið við Alþýðuflokkinn. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verður nú skipt upp og mun Björgvin G. Sigurðsson verða viðskiptaráðherra og Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, verður iðnaðarráðherra. Merkilegur hluti ráðherrakapalsins er svo auðvitað að mínu mati að Þórunn Sveinbjarnardóttir verður umhverfisráðherra, þrátt fyrir að vera þriðja á lista Samfylkingar í Kraganum og þau sem fyrir ofan hana eru sitja eftir.

Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, verður nú samgönguráðherra í stað Sturlu Böðvarssonar. Kristján er auðvitað þingmaður okkar hér og hinn vænsti maður. Hann verður eini ráðherra kjördæmisins allavega fyrst í stað. Það er auðvitað mjög afleitt að enginn ráðherra komi frá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu. En ég vil samt sérstaklega óska Kristjáni Möller til hamingju með ráðuneytið og vona að hann muni nú taka til við að efna öll þau fögru fyrirheit sem hann talaði um á mörgum sviðum. Fróðlegt verður reyndar hvort að hann stendur við stóru orðin sín og ríkisvæðir Vaðlaheiðargöngin eins og hann talaði um í vor.

Áfall Ágústs Ólafs er augljóslega mikið. Það hlýtur að gengisfella hann verulega sem stjórnmálamann og varaformann stjórnmálaflokksins að vera ekki einn af sex ráðherrum flokksins og fá t.d. Björgvin fyrir framan sig í dæmið. Þetta eru merkileg tíðindi og greinilegt að pælingar fólks um undarlega stöðu hans í stjórnarmyndunarviðræðum áttu fullkomlega rétt á sér og vel það. Hans staða er ekki beysin eftir þennan dóm sem þessi ráðherrakapall er fyrir hann

En hér er semsagt tillaga formanns Samfylkingarinnar um skipan embætta sem var samþykkt í kvöld:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Kristján L. Möller, samgönguráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokksformaður


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta voru auðsjáanlega vonbrigði fyrir Ágúst.  Á hinn bóginn er Samfylkingin í ákveðinni hættu nú þegar formaður hennar fer í utanríkisráðuneytið.  Það er ekki góður staður fyrir flokksformann því flokkurinn verður meira og minna stjórnlaus á meðan flokksformaðurinn er á fartinni út um allan heim, hún tekur gloppótt þátt í málefnastarfi o.s.frv.

Þetta er ekki gott og hefur farið illa með marga flokka, t.d. Framsókn þegar Halldór var í þessu embætti.  Samfylkingin þarf að vera meðvituð um þessa hættu og aðrir lykilmenn í flokknum þurfa meðvitað að taka að sér að standa vörð um flokkinn sem slíkan i fjarveru formanns.  Þar stendur varaformaðurinn klárlega fremstur og það er því nokkur léttir fyrir flokkinn sem slíkan að hann skuli ekki hafa verið gerður að ráðherra þótt það séu auðvitað vonbrigði fyrir hann persónulega.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 22.5.2007 kl. 22:51

2 Smámynd: Brynjólfur Bragason

Samfylkingin passar upp á að skiptingin sé í lagi.

Höfuðborg = 4 þingmenn (200 þ. íbúar) 

Landsbyggðin = 2 þingmenn (100 þ.íbúar)

Konur = 3

Karlar=3

Þetta er flott skipting varla hægt að gera þetta betur...

Brynjólfur Bragason, 22.5.2007 kl. 23:46

3 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Akkurat ekkert í þessum pistli þínum Stebbi....

Sveinn Arnarsson, 22.5.2007 kl. 23:47

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jón Arnar: Já, þetta er auðvitað áfall fyrir Ágúst Ólaf, líka fyrir unga jafnaðarmenn enda hefur hann verið mikill og áberandi fulltrúi þeirra.

Sigurður: Já, þetta voru vonbrigði fyrir hann og maður sá alveg á svipnum á honum í viðtalinu á Stöð 2 hversu vonsvikinn hann var. Getur ekki annað verið, enda er hann varaformaður þessa flokks og hefur ekki styrkleika til ráðherrasetu. Það verður fróðlegt hversu vel ISG gengur að sinna flokknum verandi utanríkisráðherra, þetta er mjög þungt ráðuneyti fyrir flokksformann, en samt hefð fyrir að einstaklingur með vigt flokksformanns sé þar.

Brynjólfur: Já, þau passa vel upp á skiptinguna, en samt eru þetta mikil tíðindi að Ágúst Ólafur sitji hjá auðvitað. Erfitt fyrir hann að vinna úr því.

Svenni: Skil þig ekki, ég er að segja mínar skoðanir á þessum ráðherrakapal. Botna ekki í svona kommentum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.5.2007 kl. 23:55

5 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ágúst Ólafur getur kannski orðið ráðherra þegar hann veður stór

Þóra Guðmundsdóttir, 22.5.2007 kl. 23:58

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þetta er rétt hjá þér Stefán með Ágúst Ólaf og raunar hefði Katrín Júlíusdóttir frekar átt tilkall til ráðherrastóls. Solla valdi vinkonu sína og kvennalistakonu og opinberaði þar með sinn persónulega klíkuskap.

Á sama hátt er Geir ekki mikið betri. Hann niðurlægir Sturlu Böðvarsson oddvita Sjálstæðismanna í Norðvesturkjördæmi með því að taka Einar K. Guðfinnsson framfyrir hann í ráðherravali. Á sama hátt storkar hann mörgum með því að halda Birni Bjarnasyni í ráðherraembætti (líklega bara í eitt ár eða svo) til að sýna andstæðingum flokksins að þeir skuli reyna aftur óþverrabrögð (að hans mati) á borð við það sem Jóhannes í Bónus framkvæmdi með auglýsingunni. Ég sé ráðherradóm Björns sem storkun við stöðu oddvita þíns kjördæmis Kristjáns Þór Júlíussonar. Þú nefnir það ekki einu orði! 

Haukur Nikulásson, 23.5.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband