Guðni Ágústsson tekur við Framsóknarflokknum

Guðni ÁgústssonÞað kemur svo sannarlega ekki að óvörum að Guðni Ágústsson taki við formennsku í Framsóknarflokknum á örlagatímum í sögu hans. Hann hefur verið varaformaður flokksins í sex ár og verið ráðherra af hans hálfu í tæpan áratug - lykilforystumaður innan flokksins árum saman og hefur leikið stórt hlutverk í stjórnmálum. Við þau þáttaskil að Jón Sigurðsson missti stöðu sína í stjórnmálum voru forystuskipti óhjákvæmileg.

Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og flokksformaður, tilkynnti um þá ákvörðun að víkja úr forystu stjórnmála hefur verið talað um hvort að Guðni sem varaformaður í nokkur ár og forystumaður innan flokksins myndi sækjast eftir formennskunni. Sú ákvörðun Guðna fyrir tæpu ári að leggja ekki í formannsslaginn og sækjast eftir að verja varaformennskuna fyrir ásókn Jónínu Bjartmarz voru mikil pólitísk tíðindi. Guðni hefur verið þingmaður frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá 2001. Það eru því varla stórtíðindi að maður með hans bakgrunn í flokknum taki við flokknum þegar að honum vantar forystumann.

Guðni þarf að leiða Framsóknarflokkinn til uppbyggingarstarfs. Á morgun missir flokkurinn völdin og heldur í stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á 36 ára tímabili, frá árinu 1971 er Ólafur Jóhannesson leiddi flokkinn til forystu við fall viðreisnarstjórnarinnar. Guðni er mjög reyndur stjórnmálamaður og býr að þeirri reynslu. Reyndar má spyrja hvort að stolt Halldórs Ásgrímssonar, sem sett var ofar flokkshag á síðasta ári þegar að Guðni sýndi greinilegan áhuga á formennsku en var sparkaður niður með áberandi hætti, hafi ekki verið mjög dýrkeypt. En nú fær Guðni tækifærið mikla sem hann fékk ekki á síðasta ári.

Það er alveg rétt sem Jón Sigurðsson sagði í morgun er hann sagði af sér formennskunni að formaður Framsóknarflokksins í þeim raunveruleika sem fylgir þessari stjórnarandstöðuvist verður að vera alþingismaður, hann verður að hafa hlutverki að gegna. Annað er einfaldlega ekki í spilunum. Guðni hefur lengsta þingreynslu í flokknum, ásamt Valgerði Sverrisdóttur, en bæði komu inn á þing í kosningunum 1987. Nú verður það Guðna að taka við verkum í forystusveit. Hann býr að sterkum tengslum inn í flokkskjarna á landsbyggðinni og er þekktur stjórnmálamaður sem þarf ekki að kynna sig neitt.

Framundan eru þó eflaust einhverjir spennutímar innan Framsóknarflokksins. Nýr varaformaður verður kjörinn á miðstjórnarfundi í næsta mánuði, skv. fréttum. Enn er svo ekki ljóst hvort að Guðni fær mótframboð í formennskuna á næsta flokksþingi. Framsóknarflokkurinn er staddur í mikilli óvissu við þessi þáttaskil og verður athyglisvert að sjá hvernig honum gengur í stjórnarandstöðu á næstu árum og við að byggja sig upp til verka í nýjum veruleika.


mbl.is Guðni Ágústsson: Mín viðhorf eru þekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband