Síðasti ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks Það eru þáttaskil í íslenskum stjórnmálum í dag. Fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks situr nú á sínum síðasta fundi á ríkisráðsfundi á Bessastöðum og lætur nú af völdum eftir tólf ára samfellda setu. Þar munu sjö ráðherrar hljóta lausn frá ráðherradómi. Framsóknarflokkurinn fer nú í stjórnarandstöðu og heldur til algjörrar uppstokkunar.

Á ríkisráðsfundi kl. 14:00 í dag tekur ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við völdum. Það verður mikil uppstokkun samhliða því. Fimm einstaklingar sem aldrei hafa gegnt ráðherraembætti taka við í ráðuneytum sínum í dag. Samfylkingin, sem í sjö ára sögu sinni, hefur aldrei tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi skráir nýjan part í sögu sína í dag með því að verða hluti af ríkisstjórn. Flokkarnir hafa aðeins átt með sér eitt samstarf áður, en þeir mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar í júní 2006.

Þó hafa tveir verðandi ráðherrar áður verið ráðherrar á Viðeyjarstjórnarárunum; Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í þrennum ríkisstjórnum 1987-1994, og Össur Skarphéðinsson, sem var umhverfisráðherra seinni hluti Viðeyjarstjórnartímans 1993-1995, en það var mjög umdeilt innan Alþýðuflokksins þegar að hann varð ráðherra þá og var tekinn framyfir Rannveigu Guðmundsdóttur, en hún varð þó ráðherra ári síðar þegar að Guðmundur Árni Stefánsson hrökklaðist úr ríkisstjórn vegna frægra hneykslismála. Ennfremur voru deilur þegar að Össur var tekinn framyfir Rannveigu sem þingflokksformaður.

Það eru þáttaskil hjá Framsóknarflokknum í dag. Jón Sigurðsson, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Jónína Bjartmarz og Magnús Stefánsson láta nú af ráðherraembætti. Jón og Jónína yfirgefa stjórnmálin samhliða þessu, en Jón sagði af sér formennsku í Framsóknarflokknum í gær og Jónína náði ekki kjöri í kosningum frekar en Jón. Guðni Ágústsson hefur verið ráðherra lengst framsóknarmanna nú, frá vorinu 1999, og Valgerður Sverrisdóttir hefur verið ráðherra frá því á gamlársdag 1999. Siv Friðleifsdóttir var ráðherra 1999-2004 og frá 2006. Sturla Böðvarsson yfirgefur nú ríkisstjórn eftir átta ára setu, eins og Guðni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Björgvin G. Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kristján L. Möller verða ráðherrar í fyrsta skipti í dag. Þau eru misreynd í stjórnmálum auðvitað. Ingibjörg Sólrún hefur auðvitað lengsta pólitíska reynslu af þeim eftir að hafa verið borgarfulltrúi árum saman, verið borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003 og alþingismaður Kvennalista 1991-1994. Hún stóð reyndar nærri ráðherraembætti vorið 1991 en rætt var um tíma það vor að Kvennalistinn styrkti vinstristjórnina, en Ingibjörg Sólrún leiddi þá viðræður fyrir hönd Kvennalistans. Svo fór ekki - Jón Baldvin og Davíð héldu til Viðeyjar.

Það er vissulega merkileg tilhugsun að löngu skeiði ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs, Halldórs og Geirs sé nú lokið. Þar felast stærstu þáttaskil dagsins í dag. Þegar að saga þeirra stjórna verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun hennar eflaust verða minnst fyrir góðan árangur og nokkuð farsæla forystu. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma.

mbl.is Síðasti ríkisráðsfundur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband