Valgerður gefur kost á sér til varaformennsku

Valgerður SverrisdóttirÞað kemur ekki á óvart að Valgerður Sverrisdóttir, leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, gefi kost á sér til varaformennsku í flokknum, nú þegar að Guðni Ágústsson er orðinn formaður Framsóknarflokksins. Valgerður vann mikinn varnarsigur hér í kjördæminu í kosningunum 12. maí sl, en hér hlaut flokkurinn þrjá þingmenn kjörna af sjö á landsvísu. Staða hennar innan flokksins hefur styrkst mjög og hún sækist nú eftir að leiða flokkinn með nýjum formanni í uppbyggingarstarfi hans.

Valgerður hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka. Valgerður er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Henni hefur alla tíð verið treyst fyrir lykilembættum innan Framsóknarflokksins: hún var fyrsta þingkona flokksins í marga áratugi og sú önnur, síðar þingflokksformaður og loks iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra í tæp átta ár. Hún hefur lengst íslenskra kvenna setið í ríkisstjórn.

Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson. Úrslit kosninganna 12. maí sl. eru með þeim hætti að byggja verður flokkinn upp frá landsbyggðinni í raun, enda varð afhroð flokksins mest í Reykjavík. Valgerður hefur verið þingmaður hér í tvo áratugi, frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt sigraði hún alla slagina. Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð).

Valgerður vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með glans fyrir kosningarnar 2003 og vann Jón Kristjánsson í drengilegri baráttu. Hún hefur því alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára. Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum.

Úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Eftir stóð Halldór Blöndal sigursæll sem leiðtogi kjördæmisins - það var gleðileg kosninganótt fyrir okkur en framsóknarmenn sátu eftir fúlir í gömlu lykilvígi. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Varnarsigur er rétta orðið yfir stöðuna eftir kosningarnar hér í Norðausturkjördæmi í vor. Flokknum var aldrei í raun spáð fleirum en tveim þingmönnum en tókst að halda sér stærri en Samfylkingin og VG og hljóta þriðja manninn, þvert á kannanir, sem höfðu flestar spáð annað hvort VG eða Samfylkingu þrem. Valgerður Sverrisdóttir er mikil kjarnakona. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér.

Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins í dag og ég tel blasa við að hún verði varaformaður.


mbl.is Valgerður: Tilbúin að takast á við varaformannsembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Það eru góð tíðindi fyrir Framsóknarmenn, að Valgerður Sverrisdóttir ætlar að gefa kost á sér sem varaformaður flokksins. Vonandi fær hún góða kosningu

í það embætti. Framsóknarmönnum er nauðsyn á að fá Valgerði til starfa í forystu flokksins og hún er auk þess ötull talsmaður landsbyggðarinnar.

Með kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 25.5.2007 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband