Flokkur í vanda - undarleg greining Halldórs

Halldór Ásgrímsson Mitt í fjölmiðlaflóði síðustu daga um myndun ríkisstjórnar og greiningu á úrslitum alþingiskosninganna 12. maí sl. yfirsást mér merkilegt nokk Fréttablaðsviðtal við Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins. Þetta viðtal var það lítið áberandi að ég tók ekki eftir því fyrr en við ábendingu. Þar var leitað eftir viðbrögðum Halldórs á sögulegu afhroði Framsóknarflokksins í kosningunum og stöðu mála í ljósi stjórnarandstöðu flokksins og nýju stjórnarsamstarfi við lok tólf ára stjórnarsetu flokksins.

Það er mjög merkilegt að lesa stjórnmálaskýringu og greiningu Halldórs á stöðu mála fyrir Framsóknarflokkinn. Þar er fjallað um möguleg hliðaráhrif þess hvernig fór fyrir Framsóknarflokknum en skiljanlega er ekki vikið að stóru ástæðu þess að flokkurinn fór jafnilla og raun ber vitni. Stóra ástæðan er auðvitað hversu rosalega flokkurinn tærðist upp innan frá í innanflokkserjum undir lok valdaferils Halldórs Ásgrímssonar. Það var kannski fullmikil bjartsýni að halda að Halldór myndi hreinlega segja hreint út að þar lægi stóri vandi Framsóknarflokksins á undanförnum árum, en samt sem áður koma skýringar hans að stórum hluta að óvörum.

Vissulega náði Framsóknarflokkurinn miklum völdum og áhrifum á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar, kannski að margra mati alltof miklum völdum miðað við kjörfylgi, en samt sem áður fór þar valdamikill leiðtogi flokks með mikil áhrif. Um það deilir enginn. Það verður held ég ekki deilt um það að flokkurinn var skelfilega á sig kominn við lok formannsferils Halldórs - á þeirri stund sem hann sagði af sér við Þingvelli fyrir tæpu ári. Þar var hnípinn flokkur í vanda og framundan voru enn meiri vandræði á vegferðinni. Það var reyndar með ólíkindum að Halldór skyldi einfaldlega ekki segja af sér formennsku um leið og hann hætti sem forsætisráðherra til að hlífa Framsóknarflokknum við óþarfa væringum.

Þá hefði Guðni Ágústsson orðið formaður Framsóknarflokksins án kosningar, verandi varaformaður Framsóknarflokksins. Farinn var langur krókur til að forðast það, stolts Halldórs vegna, en ekki vegna flokkshags. Innan við ári eftir pólitísk endalok Halldórs er Guðni orðinn formaður, án kosningar, verandi varaformaður flokksins. Það fór að lokum svo að leitað var til höfðingjans frá Brúnastöðum um leiðsögn út úr vandræðunum. Þetta ár hefur verið Framsóknarflokknum erfitt. Það voru víðtækar raddir um það fyrir ári þegar að Halldór bognaði og hætti hvort að flokkurinn væri orðinn stjórntækur.

Ég held að það hafi staðið mjög tæpt þessa júnídaga að stjórnarsamstarfinu yrði slitið. Innri ólga innan flokksins var við það að lama samstarfið þegar að Halldór og Guðni, sem greinilega áttu samskipti í frostmarki um þá tíð og reyndar lengi áður, sömdu frið sín á milli. Þetta voru sorgleg endalok fyrir Halldór en umfram allt var þetta merki þess hve flokkurinn stóð illa. Það fór svo að afhroð flokksins, sem var sögulegt og afgerandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, varð ekki umflúið. Skýringar Halldórs á afhroðinu eru skondnar. Þar vantar eina skýringu og hina mest áberandi þeirra allra.

Uppbygging tekur við í elsta starfandi stjórnmálaflokki landsins. Þar er horft til framtíðar. Bændahöfðinginn Guðni er tekinn við þessum rótgróna landsbyggðarflokki og væntanlega mun Valgerður Sverrisdóttir vera við hlið hans sem varaformaður, einn af nánustu samstarfsmönnum Halldórs Ásgrímssonar á löngum stjórnmálaferli, - sá stjórnmálamaður sem mest talaði innan úr Halldórsarminum gegn því að Guðni yrði formaður Framsóknarflokksins sumarið 2006.

Nú stefnir allt í að Framsóknarflokkurinn verði týpískur félagshyggjuflokkur og muni byggja sig upp í stjórnarandstöðu sem vinstriskotið afl, eins og það var svo áberandi fyrir formannsferil Halldórs Ásgrímssonar. Ég held að við munum sjá mörg líkindi með Guðna og Steingrími Hermannssyni forðum daga sem byggði flokkinn sem breiðan félagshyggjuflokk sem talar frekar til vinstri en hægri. Sjáum allavega til hvernig þau reyna að töfra sig út úr samansöfnuðum áralöngum innri vanda og kergju.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband