Nauðgunarleikur fjarlægður

Það er ánægjulegt að nauðgunartölvuleikurinn margumræddi hefur verið fjarlægður af torrent.is á meðan á rannsókn lögreglunnar stendur. Það var nauðsynlegt að kanna þetta mál og þetta gat varla endað öðruvísi meðan að óvissa málsins stóð en þessi "leikur" færi út af vefnum. Enda tel ég að þeir sem eru skráðir fyrir þessum vef hafi áttað sig á alvöru málsins og ekki viljað bera þungann af málinu mikið lengur í stöðunni.

Mér finnst nú frekar kostulegt að það standi að leikurinn sé bannaður yngri en 18 ára, enda getur í raun og veru hver sem er hlaðið honum niður. Það er ekkert sem stöðvar þann sem endar á vefnum að sækja leikinn. Það er því frekar lítið hald í svona aldursmörkum sem ekkert þýða í raun neitt, enda er engin trygging fyrir því að sá sem endar á þessari síðu hafi náð þessum aldri. Svona aldurstakmörk virka frekar hlægileg þegar að engin mörk eru.

Þetta mál hefur vakið umræðu á því hvort að herða verði mörk á netinu og taka þau mál til endurskoðunar. Ég tel að það verði að skýra lagaleg mörk á þessum málum til muna, vafinn virðist vera einum of mikill. Með því er ég þó ekki að hvetja til þess að setja netheimana alla í einhver ógnvænleg höft, en ég tel óvissuna með mál þar einum of mikla og það verður að taka á henni með áberandi hætti.

mbl.is Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég hef ekki fjarlægt neina athugasemd eftir þig Jón Frímann.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.5.2007 kl. 12:23

2 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég er sammála þessum pælingum þínum Stefán. Það sem kemur mér mest á óvart í þessarri umræðu er hvað margir sem eru að verja þennann "leik" eru að verja hann í nafni frelsis. Allir vilja frelsi til athafna en flestir eru með ákveðna siðfræðisvitund sem virðist vera skortur á hjá mörgum í þessarri umræðu.

Einn aðili spurði "Ef þú ætiir að velja á milli þess að vera nauðgað eða myrt hvort mundir þú velja". Lítur fólk virkilega ekki á nauðgun sem alvarlegann glæp? Nauðgun er mannsmorð og þó fólk deyji ekki bókstaflega er sálin drepin og það er ekkert skárra. Ég held að fólk ætti að kynna sér afleiðingar kynferðisglæpa áður en það veður áfram í að verja einhvað ímyndað frelsi sem þeir telji að felist í takmarkalausu aðgengi að þessum viðbjóði.

Það er heldur engin rök að það geri ekkert gagn að fjarlægja leikinn út af því að fólk geti nálgast hann annars staðar. Því erfiðari sem það er gert því betra og einnig gæti umræðan sem fylgir þessum málum gert gott.

Ég var mjög ánægður að einn helsti talsmaður frelsis, Guðlaugur Þór skyldi fordæma þetta mál. Það sýnir skynsemi. Margir talsmenn hins svokallaðs frelsi á netinu eru að skemma málstað sinn með þessari umræðu finnst mér. Veður áfram án þess að spá í undirrótinni að umræðunni sem er að fólk finnist það í lagi að hver sem er hafi aðgang að þessum viðbjóði!

Kristján Kristjánsson, 26.5.2007 kl. 12:50

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Klárlega hárrétt ákvörðun að loka leiknum. Óþolandi skoðun að aldrei megi banna neitt, stundum þarf hreinlega að kippa í taumana þegar frelsis krafan verður svo mikil að allt, hversu ógeðslegt sem það er, á að vera leyft. Svona viðbjóðslega hluti á einfaldlega að gera eins óaðgengilega og hægt er. Ég er ekki ein af þeim sem skoða svona en treysti dómgreind þeirra sem vildu banna þetta.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.5.2007 kl. 12:55

4 Smámynd: Þarfagreinir

Ekki alveg rétt hjá þér að hver sem er hafi getað nálgast leikinn í gegnum torrent.is, Stefán ... ég og fleiri höfum verið að reyna að útskýra að það er lokað samfélag sem rúmlega 18.000 manns hafa nú í dag aðgang að ... og lágmarksaldurinn þarna er 15 ár ... ekki alveg 18, en þó eru þetta einhver mörk.

Ég fagna því líka að stjórnendurnir hafi ákveðið að fjarlægja leikinn, en ekki get ég slegist í hóp þeirra sem telja það einhvern meiri háttar sigur fyrir siðferðið, nema þá auðvitað í táknrænum skilningi. 

Þarfagreinir, 26.5.2007 kl. 15:58

5 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ég tel mjög hæpið að hægt sé að setja miklar lagalegar hömlur á svona fyrirbæri þar sem netið er landamæralaust og því fullkomin óvissa um það hvar og hvernig á að sækja fólk til saka.

Það þýðir að frelsið er allsráðandi.

Frelsi fylgja mikil réttindi en miklum réttindum fylgir líka mikil ábyrgð.

Í dag er allt leyft nema að löggan komi og stöðvi það.  Á netinu er engin lögga sem kemur og stöðvar hluti.  Því er það alfarið á ábyrgð þeirra sem halda úti vefjum að stjórna því efni sem þeir hafa áhuga á að birta inni á vefjunum.  Ábyrgðin er alfarið þeirra.  Það er mikilvægt að samfélagið í kringum þá sendi skýr skilaboð um það hvað sé ásættanlegt og hvað sé óásættanlegt.  Þegar fólk er farið að leika sér að því í frístundum sínum að nauðga öðru fólki þá er augljóslega eitthvað að.

Ég fagna því að stjórnendur viðkomandi síðu tóku afstöðu í þessu máli.  Við erum öll enn að læra á frelsið og þá ábyrgð sem því fylgir.  Ég vona að stjórnendur viðkomandi vefjar læri af þessu, dragi línu fyrir hvað þeir vilja standa og spyrji sig í hvernig samfélagi þeir vilja búa.

Ps. Það er hins vegar allt önnur umræða (en samt sem áður hluti af sömu umræðu) hvort okkur finnst eðlilegt að sjá lífið murkað úr fólki í sjónvarpi, bíói, í tölvuleikjum og víðar.  Er sama hvort þú drepur riddarann í skák, hvort þú drepur karlinn eða kerlinguna í tölvuleiknum eða horfir á þrjú hundruð manns drepin í bíó?  Ég hreinlega veit það ekki.  Hvað finnst ykkur?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 26.5.2007 kl. 17:15

6 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Mér finnst afar sorglegt hvað margir sjallar detta á sömu línu og VG í þessum málum.

Og virðast halda það, að internetið sé bara eins og videóleigan í hverfinu, að ef að eitthvað myndband, leikur eða annað sé bannað á Íslandi, þá sé útilokað að nálgast það ef að menn hafa áhuga.

þetta fer að verða jafn fíflalegt og þegar menn héldu að fíkniefni gætu ekki borist til landsins af því að landið er eyja !!

Ég held að við Sjallar ættum að einbeita okkur að því að gagnrýna Moggann fyrir að hafa nefnt nafnið á þessum leik og hvar hægt væri að sækja hann. Því ef nafnið hefði ekki komið fram, þá hefði ekki orðið 600% aukning í því, hvað sóttu hann margir.

Það er Mogginn sem er gjörsamlega óábyrgur í þessu máli. En það hefur auðvitað ekki verið vani okkar Sjalla  að skamma Moggann of mikið, þegar kemur að fréttaflutningi. En nú er alveg kominn tími á það. 

Ef ég héldi úti blaði, þá gæti ég auðveldlega bent fólki á linka þar sem fólk er myrt, nauðgað og misþyrmt. Ég myndi bara aldrei gera það, einfaldlega vegna þess, að það á ekki að þvinga svona hlutum uppá fólk.

Afhverju ætli það sé sótt svona mikið að þessari síðu torrent.is ...... þeir geta hvenær sem er breytt hýsingunni frá Íslandi til Rússlands.  t.d. Istorrent.ru og hreinlega tileinkað sér eins viðbjóðslegt efni og þeim langar, og algjörlega utan íslenskra laga með hýsingu. 

Menn finna það sem þeir vilja finna á netinu, alveg sama hvað það er. Ástæðulaust að vera að auglýsa slæma hluti eins og þennan leik.

En þessi leikur sem og aðrir eru 100% löglegir í sínum heimalöndum eins og flestum öðrum. 

En reynum að missa okkur ekki alveg í Vinstri-Öfga-Upphlaupi.

Þetta fer að minna á klámráðstefnuna sem halda átti hér í vor. Hversu mörgum konum var bjargað frá mansali og börnum frá misnotkun, vegna þess að þessi ráðstefna var blásin af ??

Eru konur í miðbæ Reykjavíkur öruggari einar á heimleið af djammi, vegna þess að þessi leikur hefur verið tekinn af íslensku síðunni, en er aðgengilegur á 1000 öðrum síðum ? 

Ingólfur Þór Guðmundsson, 27.5.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband