Boris með fullnaðartök í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins

Boris Johnson gnæfir æ meir yfir leiðtogaslag Íhaldsflokksins eftir fjórðu umferð í kjörinu um næsta húsbónda í Downingstræti 10 í morgun - hefur nú hlotið meirihlutastuðning þingmanna, með tæp 100 atkvæði á næsta mann. Michael Gove komst nú uppfyrir Jeremy Hunt þó ekki muni nema tveimur atkvæðum. Í nokkrar vikur hefur blasað við að slagurinn um farmiðann við hlið Boris standi á milli Hunt og Gove. Fjórða umferðin boðar því engin stórtíðindi, enda var Sajid Javid ólíklegur til að komast framfyrir þá.

Eftir að Hunt mistókst að stinga félaga sína af í ráðherrahópnum í baráttunni um lykilstuðning andstæðra afla í flokknum til að stöðva Boris hefur maskínan í framboði hans hökt mjög og átt erfitt með að ráða við spunann til að efla stöðu Hunt og ná að smala á bakvið tjöldin svo ná megi nægilegu frumkvæði í baráttunni. Gove er rammklókur og hefur unnið fimlega við að fylkja liði Rory Stewart með sér. Þó hann nái nú öðru sætinu eru blikur á lofti um hvort hann nái stuðningsmönnum Sajid Javid nægilega í sitt lið.

Hunt-liðið reynir nú fyrir á lokasprettinum að vinna sér fylgi með því að vara við einvígi Boris Johnson og Michael Gove - sálfræðitryllinum á milli fjandvina sem eiga jú bæði pólitískra og persónulegra harma að hefna. Boris Johnson mun seint fyrirgefa svik Michael Gove sumarið 2016 í aðdraganda síðasta leiðtogakjörs þegar hann stakk Brexit-félaga sinn og skólabróður í bakið með kaldrifjuðum hætti með framboði sínu gegn honum. Boris hætti þá við hasarinn sem í uppsiglingu var - hefur þó síðan brýnt alla sína hnífa og safna liði í átökin sem nú standa, og það mjög fimlega í ráðandi stöðu.

Með þeirri stöðu hefur hann getað skipulagt hvaða egó lifa og deyja í átökunum. Hávær er orðrómurinn um að hann hafi lánað atkvæði til að velja úr hverjir detti út og á hvaða tímapunkti - mikið er skrafað um að slagurinn sé allur þaul- skipulagt pólitískt leikrit um hverjum best sé að mæta út á akrinum á meðal grasrótarinnar í flokknum. Boris Johnson vilji forðast sálfræði- stríð við Gove á þeim akri og frekar mæta Hunt í rólegri átökum sem betur sé við ráðið - vilji því losna við Gove nú síðdegis.

Úrslit lokaslagsins í þingflokknum munu svara þeirri spurningu hversu taktískt hafi verið unnið - bæði hversu nálægt stuðningi Theresu May í lokaumferðinni 2016 Boris fari (um 200 atkv.) og hversu hörð rimman verði næstu 30 daga í einvíginu. Þar vilji hann vera einn fulltrúi harðs Brexit og forðast óþarfa blóðugt sálfræðistríð með því að lána Hunt nokkur atkvæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Rétt hjá þér Stefán,þetta fer sennilega á þann veg, en ég sakna "magnaðan" aðila í djobbið, Boris er eins og Trumparinn í mörgu. Svo þurfum við bara að fá viðskiptasamninga við Breta þegar við losnum úr þessu EB.

Eyjólfur Jónsson, 20.6.2019 kl. 15:48

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þetta verður æsilegt endatafl og skiptir Ísland máli.

Helga Kristjánsdóttir, 20.6.2019 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband