Afgerandi umboð Boris - pólitískar áskoranir nýs leiðtoga

Boris Johnson fékk afgerandi umboð í leiðtogaslag breska Íhaldsflokksins, rúma tvo þriðju af atkvæðum almennra flokksmanna í baráttunni við Jeremy Hunt utanríkisráðherra. Sigur Boris var augljós frá upphafi - honum tókst jú fimlega að ná ráðandi stöðu í þingflokknum og reyndist eftirleikurinn auðveldur, enda búinn að vinna vel í baklandinu, stóð af sér bæði pólitíska storma og atlögu að einkalífinu án þess að blikna.

Húsbóndavaldið í Downingstræti 10 verður mikil áskorun fyrir Boris. Verkefnið að ljúka bæði við Brexit og ná tiltrú þjóðarinnar, sem Theresu May reyndist alveg ofviða eftir að hafa fipast veðmálið sitt mikla - mistekist að halda hreinum þingmeirihluta 2017, verður fjarri því auðvelt enda undir mikilli pressu bæði útávið og innávið. Harðir andstæðingar Boris hafa nú boðað röð afsagna ráðherra til að reyna veikja afgerandi umboð Boris og boðskap hans um hart Brexit. Valdatafl fylkinga heldur því áfram.

Boris hefur tiltrú almennra flokksmanna og byr í könnunum í farteskinu - getur því bæði hótað kosningum, sótt nýtt umboð út á akurinn, og beitt svipunni af krafti komist hann fimlega í gegnum sumarið og haustið. 100 fyrstu dagar nýs leiðtoga, hveitibrauðsdagarnir frægu, verða mælistika á styrk, kænsku og úthald Boris við verkefnið framundan og hversu öflugur hann reynist í þinginu. Þar er meirihlutinn bæði óljós og brothættur - bæði við að ná hörðu Brexit í gegn og ná ráðandi stöðu í erfiðu valdatafli.

Óumflýjanlegt er því að Boris verði að sækja sér nýtt umboð landsmanna en ekki sitja lengi í veikri þingstöðu sem reyndist Theresu May banvænn pólitískur kaleikur - leiðin fram að kosningum verður þó löng og ströng, enda munu þeir sem valdið misstu í flokknum við endalok May nú reyna að veikja umboð hans í bakvarðasveit þingsins og brýna hnífa sína.

Nú reynir því á Boris, hvort hann standi undir væntingum eða falli í sama pytt og forverinn. Næstu 100 dagar verða því ansi áhugaverð pólitísk refskák.


mbl.is Boris Johnson næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Pytturinn sem May datt í var laun háll. Boris hefur brodda í tungutaki sínu og trúmennsku til að verja þjóð sína. 

Helga Kristjánsdóttir, 23.7.2019 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband