Lúðvík kjörinn þingflokksformaður Samfylkingar

Lúðvík BergvinssonLúðvík Bergvinsson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, hefur verið kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Það vekur athygli í ljósi þess að á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar var gefið í skyn að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, yrði þingflokksformaður í kjölfar þess að hann var ekki valinn til ráðherrasetu fyrir flokkinn, þrátt fyrir stöðu sína innan flokksins. Reyndar gaf Ágúst Ólafur ekkert út á það í viðtölum um kvöldið.

Það hlýtur að vera eins og staðan er nú orðin að Ágúst Ólafur verði valinn sem formaður fjárlaganefndar Alþingis, eftir að hafa hvorki orðið ráðherra né þingflokksformaður í þessum kapal flokksins eftir stjórnarmyndunina. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir ungliða í UJ að Ágúst Ólafur skyldi ekki hafa verið valinn til ráðherrasetu fyrst að flokkurinn fékk sex ráðherrasæti. Reyndar ekki síður að Katrín Júlíusdóttir varð ekki fyrir valinu í ráðherrakapalnum.

Lúðvík Bergvinsson tapaði eins og flestir muna fyrir Ágúst Ólafi í varaformannskjöri á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005, sem mikið hefur verið um fjallað. Lúðvík hefur langa þingreynslu að baki, aðeins Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Ellert B. Schram hafa lengri þingreynslu en Lúðvík og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur verið jafnlengi og Lúðvík á þingi.

Hann var fyrst kjörinn á þing í kosningunum 1995 fyrir Alþýðuflokkinn og frá 1999 setið á Alþingi fyrir Samfylkinguna. Þannig að hann hefur talsverða reynslu svo sannarlega af þingstörfum og hefur því vigt til að takast á við formennsku þingflokksins í ljósi þess væntanlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband