Fær Valgerður keppni um varaformennskuna?

Valgerður Sverrisdóttir Ég er ekki í vafa um að Valgerður Sverrisdóttir verður kjörin varaformaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi þann 10. júní nk. og taki þar með stöðu í forystusveit flokksins. Til þess hefur hún stuðning víða að, að því er virðist. Hún er leiðtogi flokksins í lykilvígi sínu, þar sem flokkurinn hlaut mest fylgi í kosningunum 12. maí sl. Í Norðausturkjördæmi sitja þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins og hún vann nokkurn varnarsigur með því að halda flokknum stærri en VG og Samfylkingin eftir að hafa fengið vondar skoðanakannanir.

Það vakti athygli mína þegar að ég hlustaði á svæðisfréttir RÚVAK síðdegis í gær að þar talaði Gunnar Bragi Sveinsson, leiðtogi Framsóknarflokksins í Skagafirði, fyrir endurnýjun innan flokksins. Hann sagðist þar íhuga framboð til varaformennskunnar. Ég held að Gunnar Bragi sé sá fyrsti til þess sem hefur talað um mögulegt framboð til varaformennskunnar, utan auðvitað Valgerðar. Magnús Stefánsson, fyrrum félagsmálaráðherra, talaði jafnvel um að hann færi fram en hann hefur nú ákveðið að leggja ekki í það.

Það er auðvitað ljóst að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Valgerður Sverrisdóttir, varaformannsframbjóðandi, hafa bæði setið á Alþingi frá árinu 1987, eða í tvo áratugi. Þau hafa mikla reynslu fram að færa og kynnst bæði vist í stjórnarandstöðu sem og í stjórnarsamstarfi auðvitað. Það er auðvitað ljóst að nokkuð nýjir tímar eru framundan fyrir Framsókn, þar eru tímar uppbyggingar og uppstokkunar framundan í ljósi þess að flokkurinn varð fyrir afhroði á landsvísu þann 12. maí sl. Flokkurinn er nú kominn í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í tólf ár og aðeins í þriðja skiptið frá árinu 1971, er viðreisnarstjórnin féll.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að fulltrúar yngri kynslóða innan flokksins fara fram í varaformannskjörinu. Það er greinilegt ákall til staðar um uppstokkun skv. þessum fréttum og tali Gunnars Braga. Það er samt sem áður mjög ólíklegt að Valgerður tapi varaformannskjörinu, eftir sín áralöngu flokksstörf og hún hefur væntanlega stuðning víðsvegar til þess að taka við, sérstaklega í ljósi þess hve flokkurinn fékk góða kosningu á hennar svæði í ljósi afhroðs um allt land.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband