Gert upp við úrslit kosninga á Akureyri

Blendnar tilfinningar fylgja úrslitum sveitarstjórnarkosninganna fyrir okkur sjálfstæðismenn. Víða nær Sjálfstæðisflokkurinn varnarsigrum og bæta við sig en á alltof mörgum stöðum dalar fylgið, af ýmsum ólíkum ástæðum. Áfram er Sjálfstæðisflokkurinn forystuafl í sveitarstjórnarmálum og verður lykilafl til framfara og uppbyggingar.

Hér á Akureyri missum við sjálfstæðismenn heil fimm prósentustig og þriðji maðurinn fer fyrir borð sem er þungur skellur. Í annað skiptið í sögu bæjarstjórnarkosninga hér hljótum við tvo menn kjörna, það eru heil 80 ár síðan það gerðist fyrst og þá klofnaði flokkurinn. Aðrir þættir ráða för að þessu sinni, innansveitarkrónika af ólíku tagi sem verður okkur erfið. Auk þess er öllum ljóst að samstarf allra framboða síðustu 20 mánuði kjörtímabilsins voru afdrifarík mistök einkum fyrir okkur sjálfstæðismenn eftir áratug í minnihluta.

Tólf ár eru síðan Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hlaut aðeins einn mann kjörinn og 1220 atkvæði sem var harkalegur skellur sem langan tíma tók að yfirstíga. Það var lærdómsrík barátta og lexía fyrir okkur sem þreyjuðum þorrann og héldum áfram í flokksstarfinu við gjörólíkar aðstæður með einn mann í bæjarstjórn og ekki með nefndarmann í öllum nefndum. Þá var þetta röff flokksstarf en herti okkur fram á veginn. Það er kaldhæðnislegt en engu að síður heiðarlegt mat að félagsstarfið hafi aldrei verið gróskumeira og skemmtilegra en þá. Ég minn­ist tím­ans eft­ir tapið með hlýju, þar var sam­an komið fólk sem vildi reisa flokkinn við og efla bæði fé­lags­starfið og vina­bönd­in.

Kosningabaráttan 2014 var einstaklega upplífgandi og hressandi, við snerum til baka og bættum við okkur tveimur mönnum og fengum þrjá nýja bæjarfulltrúa, ólíka vissulega en mjög vinnusama og með víðtæka reynslu á ólíkum vettvangi. Við tókum slaginn gegn þrengingu Glerárgötu og bættum við okkur. Það var þó fjári súrt að við komumst ekki í meirihluta, pólitísk hrossakaup fyrir kosningar stóðu þrátt fyrir að við tvöfölduðum fylgið. Í kosningum 2018 urðum við of værukær og misstum fylgið eftir góðar kannanir, vonir um fjórða manninn. Í staðinn héldum við okkar fulltrúafjölda en misstum þrjú prósent.

Allar forsendur voru fyrir því að bæta við fylgið í bæjarstjórnarkosningum 2022, væntingar um að ná forystustöðu í bæjarmálunum og vonandi bæta við okkur prósentum og mönnum. Haustið 2020 skall hér á undarleg stemmning þegar öll framboð fóru í eina sæng og hófu samstarf. Það varð umdeilt í okkar röðum. Ég sem formaður Málfundafélagsins Sleipnis var fullur efasemda og tjáði þær á fundi fulltrúaráðs en ákvað samt sem áður að treysta mati bæjarfulltrúa. Það hafa reynst afdrifarík mistök enda varð þetta samstarf feigðarflan allavega fyrir okkur, þó vissulega hafi eitt og annað farið á betri veg. Ég sé eftir því að hafa ekki skrifað gegn þessu og styðja þetta þess í stað í og með gegnum þögnina.

Við sátum eftir með Svarta Pétur í fjölda mála. Skipulagsmálin reyndust okkur erfið, umdeild skipulagsmál þrengdu stöðu okkar í kosningabaráttunni og það reyndist algjört glapræði að hefja innheimtu bílastæðagjalda í miðbænum korteri fyrir kosningar á vafasömum forsendum, sem fældi frá okkur marga einkum eldra fólk. Eitt og annað hefur vel tekist í málaflokkum okkar sem við leiddum á þessum 20 mánuðum en neikvæða hliðin varð ofan á í almenningsumræðunni.

Það er þungt högg að sitja eftir með tvo menn í annað skiptið í sögu bæjarstjórnarkosninga á Akureyri, hið fyrsta í heil 80 ár og verður áskorun. Nú reynir á hvort við náum saman með L-lista og Framsóknarflokki, það eru allar forsendur til að það gæti orðið góður meirihluti ef rétt er að verki staðið og vel samið. Það eru þó vonbrigði að við munum ekki verða sterkasta aflið í slíkum meirihluta og við stöndum veikari en áður.

Engu að síður verðum við sjálfstæðismenn að læra af þessu fylgistapi, gera betur og vinna þannig að við náum betur til bæjarbúa. Það er verk að vinna bæði innan og utan flokksstarfsins næsta kjörtímabil.


mbl.is Lokatölur komnar á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband