Bjarni Benediktsson hættir í stjórnmálum

Mikil tímamót fylgja ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að gefa ekki kost á sér áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir sextán ára setu á formannsstóli, og hætta þingmennsku eftir 22 ár á Alþingi. Bjarni hefur verið yfirburðamaður í íslenskum stjórnmálum allan sinn pólitíska feril; öflugur þingmaður og nefndaformaður á lokaskeiði átján ára samfelldrar stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, sem formaður á átakatímum í stjórnarandstöðu eftir hrun áleiðis inn í ellefu og hálfs árs samfellda stjórnarsetu sem fjármálaráðherra í tæpan áratug, lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður, utanríkisráðherra um skeið og forsætisráðherra tvívegis í tæpt ár. Aðeins Geir H. Haarde hafði áður setið sem fjármála- utanríkis- og forsætisráðherra.

Bjarni hafði storminn í fangið allan sinn formannsferil, en stóð keikur og sterkur í gegnum hverja áskorun og hvert verkefni í blíðu og stríðu. Fáir íslenskir stjórnmálamenn hafa fengið erfiðari verkefni í fangið í stjórnmálasögu lýðveldisins og þurft að standa ölduna í senn lengur og betur en Bjarni Benediktsson sem hefur fylgt hverju verkefni eftir af miklum sóma. Umdeildur vissulega en ég tel að hann hafi notið stuðnings vel út fyrir flokkinn í krefjandi verkefnum og haft tiltrú til þeirra verka þrátt fyrir að oft hafi blásið hressilega á móti. Hann hefur verið dæmdur harkalega af andstæðingum sínum en styrkst við hverja raun og í raun átt mörg pólitísk líf í miklum og ólíkum öldudal.

Bjarni fékk sem fjármálaráðherra mörg krefjandi verkefni í fangið, endurreisnina eftir hrun og hverja áskorunina eftir aðra á veirutímum, gegnum náttúruhamfarir og efnahagskrísu á átakatímum á alþjóðavettvangi. Það er enginn vafi á því í mínum huga að sagan mun dæma Bjarna sem farsælan foringja á erfiðum tímum, reynsla hans og yfirburðaþekking reyndist vel á ráðherrastóli gegnum mikla örlagatíma þar sem skipti máli að hafa mann sem þorði að taka erfiðar ákvarðanir og ögra sjálfum sér með því að standa við stýrið í gegnum ólgusjó.

Því fylgdi mikil pólitísk djörfung fyrir Bjarna að gefa eftir forsæti í ríkisstjórn í tíð þriggja flokka stjórnar þvert yfir miðjuna þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var burðarás í farsælu samstarfi þriggja formanna sem voru samhentir í erfiðum verkefnum þrátt fyrir mikla ágjöf og krefjandi ákvarðanir sem fylgdi málamiðlunum. Bjarni tók forsætið í fangið í lok stjórnarsetunnar þrátt fyrir að mjög gæfi á bátinn og fylgdi henni eftir allt til enda þegar stjórnina þraut loks örendið og boðaði keikur til kosninga í stað þess að sitja áfram valdanna vegna þegar fyrir lá að samstarfinu væri í raun lokið. Engu að síður átti sú stjórn sögulega séð mjög langan og farsælan tíma, sat mun lengur en bjartsýnustu menn töldu í upphafi. Það er visst afrek sem vert er að halda til haga að leiðarlokum.

Eins og ég fór yfir í grein minni við stjórnarskiptin á vetrarsólstöðum fylgja mikil tækifæri því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að endurnýja pólitískt erindi sitt í stjórnarandstöðu, leita að nýju í ræturnar og finna hugsjónum sínum nýjan farveg við breyttar aðstæður. Það er eðlilegt við slíkar breytingar að þeim fylgi önnur þáttaskil með nýjum formanni í forystu stjórnarandstöðunnar, sem fær að stýra flokknum inn á ný mið og endurnýji styrk flokkskjarnans inn á við og út á við.

Ég mun sjá eftir Bjarna úr pólitísku starfi - það sannaðist rækilega í kosningabaráttunni að hann styrktist við hverja raun og stýrði flokknum í höfn í mun betri kosningu en kannanir gáfu lengst af til kynna og átti öflugan lokasprett við erfiðar aðstæður. En allt á sinn tíma og nú hefst nýr tími í aldarlangri sögu Sjálfstæðisflokksins. Það er nú í höndum flokksmanna að ákveða hver taki við formennsku við breyttar aðstæður, stýri flokknum inn á ný pólitísk mið.

Takk fyrir allt elsku Bjarni og gangi þér vel á nýjum vettvangi.


mbl.is Bjarni hættir á þingi og fer ekki í formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband