Líður að pólitískum lokum hjá Steingrími J?

Steingrímur J. Sigfússon Það eru ekki nema von að spurningar vakni um pólitíska framtíð Steingríms J. Sigfússonar eftir hinn mikla og áberandi afleik hans að loknum þingkosningum. Gremja hans sást vel í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra fyrir rúmri viku þar sem hann veittist harkalega að Samfylkingunni. Þar talaði súr og ósáttur leiðtogi sem var ósáttur við stöðuna og greinilega gat ekki með nokkru móti horft framhjá súrsætri tilverunni sinni.

Þrátt fyrir áratugi í pólitík klúðraði hann með mjög áberandi hætti stjórnarmyndunarmöguleikum flokks síns -  hann lagði líka í rúst möguleikana á vinstristjórn, stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðismönnum til mikillar gleði. Þann kaleik ber hann einn. Honum varð svo mikið um stöðuna sem skapaðist við stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að hann fór í sauðburð norður á Gunnarsstaði, kúplaði sig út og hugsaði sitt ráð.

Það er ekki furða að staða Steingríms J. sé í umfjöllun nú. Eftir 24 ár á þingi, þar af 21 ár í stjórnarandstöðu, er ekki furða að spurningar vakni um stöðu hans og framtíðarhlutverk í stjórnmálum. Það er ekki undrunarefni að orðrómur vakni um hvort hann muni leiða flokkinn í kosningum eftir fjögur ár. Fyrir nokkrum mánuðum stefndi í pólitíska stórsigra Steingríms J. og gullna tíma. Á skammri stund hefur staða hans veikst mjög áberandi.

Í pistli mínum þann 1. júní sl. skrifaði ég orðrétt: "Mér fannst líka áhugavert að hlusta á ræður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur. Ég tel að þetta séu framtíðarkonur í forystu flokksins og muni verða áberandi í stjórnmálum á komandi árum." og ennfremur: "Sú spurning hlýtur að vakna fyrr en síðar hvenær að forystuskipti verði hjá vinstri grænum eftir afleiki Steingríms J. upp á síðkastið."

Tel ég ekki undrunarefni að þessar spurningar og hugleiðingar vakni. Fari svo að Steingrímur J. hætti á tímabilinu yrði Björn Valur Gíslason þingmaður og Þuríður Backman yrði leiðtogi flokksins hér á svæðinu. Það yrðu tíðindi svo sannarlega og eiginlega er flokkurinn svo tengdur Steingrími að erfitt er um að spá hversu vel honum gangi án hans, sérstaklega hér, þar sem hann hefur dregið vagninn allt frá upphafi.

Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi Steingrímur J. verður í pólitík og hver framtíð VG sé á komandi árum, í stjórnarandstöðu. Eftir 24 ára pólitíska þátttöku og enn ein vonbrigðin er ekki furða heldur að hugsað sé um stöðu Steingríms J. Eftir um margt góðar kosningar fyrir hann, þó mjög súrsætar, stendur hann á áberandi krossgötum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Merkilegur pistill hjá þér Stefán. Fólki gengur misvel að skilja útsölumarkað pólitíkusa. Útsalan nær hámarki daginn eftir kosningar. Sumir pólitíkusar fara hins vegar ekki á útsölu, þeir eru antik og verðleggjast sem slíkir, Þ.e. kosningaloforðin fylgja með ef einhver vill kaupa þá. Skoðum aðeins kauðskapinn eftir síðustu kosningar. Ekki var fyrr búið að mynda nýja ríkisstjórn, en gullhringarnir tóku að hrynja af drottningunni sem leiddi Samfylkinguna gegnum kosningabaráttuna. Ef einhver stendur illa að vígi eftir afstaðnar kosningar, er það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem jós loforðum yfir væntanlega kjósendur og út á þau loforð fékk flokkur hennar ótalmörg atkvæði en samt ótrúlega fá miðað við að sá flokkur hefur verið í stjórnarandstöðu jafn lengi og flokkur Steingríms J sem hefur stöðugt verið að auka fylgi sitt frá stofnun. ISG. hefur á hinn bóginn tapað fylgi og ástæðan er einföld. Sífellt fleiri sjá gegnum blekkingarvefinn og við skulum spyrja að leikslokum 2011 Steingrímur verður að sjálfsögðu í forystu þá sem fyrr og mun vinna enn stærri sigur en í vor.

Þórbergur Torfason, 8.6.2007 kl. 14:01

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein að vanda/en Steingrímur er ekki að hætta því trúi eg ekki að óreindu/þessi mistök sem þu bendir á, hafa hent margan manninn i henni póltík,og þeir komið til baka,sjáðu Jóhönnu,minn tími mun koma,svo held eg lika að Steingrímur geti sagt/það væri sjónarsfitir af Steingrími/ekki erum við flokksbræður, en svona hefi af honum oft mjög gaman/Halli gamli XD

Haraldur Haraldsson, 8.6.2007 kl. 14:16

3 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þið eruð flínkir sjálfsstæðismenn að snúa við staðreyndum. Það veit það hvert mannsbarn sem fylgist með pólitíkinni en enginn möguleiki var á vinstri stjórn eftir kosningarnar. Það hafa framsóknarmenn sjálfir staðfest. Hinsvegar þjónar þessi málflutningur um afleiki Steingríms ISG ágætlega. Foringja stóra jafnaðarmannaflokksins sem byrjaður var að svíkja kosningaloforðin áður en nýja stjórnin tók við völdum.

Sigurður Sveinsson, 8.6.2007 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband