Finnur vill kynslóðaskipti í forystu Framsóknar

Finnur Ingólfsson Finnur Ingólfsson, fyrrum ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, tjáir þá skoðun sína í viðtali í Viðskiptablaðinu að kynslóðaskipta sé þörf í forystu flokksins. Þessi ummæli verða vart túlkuð öðruvísi en sem skot á Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, sem tók við flokknum eftir afhroðið í kosningunum fyrir mánuði og er Jón Sigurðsson, eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli, vék af stóli eftir að hafa misst hlutverk sitt í stjórnmálum.

Það er afar fátt sem bendir til þess að kynslóðaskipti verði á forystu Framsóknarflokksins á næstunni. Formaður flokksins er þingmaður til tveggja áratuga og þrautreyndur pólitíkus á valdatíma flokksins. Auk þess bendir allt til þess að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum utanríkisráðherra, verði kjörin varaformaður flokksins á miðstjórnarfundi á sunnudag, en velja þarf eftirmann Guðna Ágústssonar á þeim stóli í ljósi afsagnar Jóns Sigurðssonar. Valgerður hefur setið á þingi jafnlengi og flokksformaðurinn Guðni Ágústsson. Forystan verður því skipuð fólki sömu kynslóðar og Halldór Ásgrímsson.

Það vakti reyndar mikla athygli þegar að eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli var valinn á flokksþingi í ágúst 2006 að þar hlaut kjör maður sem var eldri en Halldór sjálfur. Jón Sigurðsson er enda meira en ári eldri en Halldór. Það var frægt eftir að Halldór hrökklaðist frá í júníbyrjun 2006 að Valgerður Sverrisdóttir sagði í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 að Guðni Ágústsosn kæmi ekki til greina sem formaður því að hann væri of gamall. Samt sem áður fór það svo að Jón, sem er þrem árum eldri en Guðni varð formaður, og Guðni varð svo sjálfkrafa eftirmaður hans, enda kjörinn varaformaður á flokksþinginu fyrir tæpu ári, rétt eins og áður. Það verður því vissulega skondið ef forystan verður samanfléttuð af Guðna og Valgerði.

Finnur lét þessar skoðanir ekki í ljósi fyrir ári er Jón Sigurðsson keppti um formennskuna við Siv Friðleifsdóttur. Þær hafa varla hentað þá, en eru vissulega sett í samhengi eftir afhroðið. Það er svosem varla furða að þær komi þó fram núna. Flokkurinn er valdalaus í landsstjórninni og afhroðið fyrir mánuði var þungt og gerði út af við stjórnmálaferil eftirmanns Halldórs Ásgrímssonar. Það má reyndar ekki gleyma að Finnur var tvívegis nefndur sem krónprins Halldórs. Fyrst á árunum 1995-1999 meðan að hann var iðnaðar- og viðskiptaráðherra og síðar í fyrrasumar við afsögn Halldórs. Í fyrra skiptið endaði Finnur í Seðlabankanum og gafst upp á stjórnmálunum en í hið seinna vildi hann ekki heyja slag um formennskuna.

Það er greinilega að hefjast enn ein atburðarásin í Framsóknarflokknum. Formaðurinn er varla nýtekinn við en farið er að grafa undan honum og reyna að spinna vettvang þess að ný þáttaskil verði. Það er þó erfitt að sjá hvernig þau geta orðið að þessu sinni. Þingflokkur Framsóknarflokksins er mjög roskinn. Aðeins tveir þingmenn flokksins eru yngri en 45 ára og þeir sem þar eru fyrir hafa flestir verið lengi í stjórnmálum. Nýliðun er lítil. Formaðurinn hefur nýtekið við og nýr varaformaður virðist ætla að vera gamalreyndur jaxl frá Halldórsarminum.

Það er öllum ljóst sem fylgjast með stjórnmálum að Framsóknarflokkurinn er mjög lemstraður. Varla mun þetta viðtal og spuni Finns efla samstöðuna innan þessa elsta stjórnmálaflokks landsins, sem gengur í gegnum dimma dali þessar björtu sumarvikur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Frammararnir eru doldið að missa sig greyin. Annars verð ég í bænum fram í næstu viku. Ætla á Dalvík á morgun og kem á sunnud. Verð svo í strætinu mán-mið og skoða fólkið og kíki til doksa. Ferlega gott að vera hérna.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.6.2007 kl. 18:18

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Fyrst eyðileggur Finnur Ingólfsson Framsóknarflokkinn og svo hann ætlar hann að koma og segja öðrum til. Merkilegt.

María Kristjánsdóttir, 8.6.2007 kl. 18:29

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Hversvegna fór Valgerður ekki í þennan slag við Guðna síðast - hennar tími var þá - nú er kominn tími á nýtt fólk ef á að hefja þessa blessuðu endurreisn - fyrir framsókn væri sterkur leikur að velja Björn Inga en ég held það verði ekki.

Óðinn Þórisson, 8.6.2007 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband