Vangaveltur um pólitíska stöðu Kristjáns Þórs

Kristján Þór Júlíusson Mikið hefur verið rætt og ritað um pólitíska stöðu Kristjáns Þórs Júlíussonar eftir að hann varð hvorki ráðherra né nefndaformaður af hálfu Sjálfstæðisflokksins eftir þingkosningarnar 12. maí sl. Það vakti mikla athygli að hann sem kjördæmaleiðtogi hjá flokknum hefði ekki stöðu til þess og eðlilega hefur verið bent á það hve afleit sú staða sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi og hver skilaboð flokksforystunnar til flokksmanna hér eiginlega séu.

Kristján Þór fær þó vissulega mikilvægan sess sem varaformaður fjárlaganefndar en staða hans hlýtur þó að hafa veikst við að hafa ekki sterkari stöðu til lykilhlutverks í flokksforystunni. Kristján Þór mun halda áfram verkum sínum í bæjarpólitíkinni meðfram þingmennsku eftir þessa niðurstöðu innan þingflokksins. Það sést klárlega af því að Kristján Þór var endurkjörinn forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar þann 5. júní sl. til eins árs. Áður hafði Kristján Þór fengið kjör sem forseti þann 9. janúar í stað Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, er hún varð bæjarstjóri í hans stað.

Það er ekki undrunarefni að hann sitji áfram í bæjarstjórn og gegni sínum verkum þar út kjörtímabilið fyrst hann fær ekki veigameiri hlutverk í landsmálunum en raun ber vitni. Fyrst og fremst eru skilaboð flokksforystunnar til Kristjáns Þórs að því er virðist að þingmenn Sjálfstæðisflokksins fái ekki lykilhlutverk í upphafi fyrsta kjörtímabils. Þessi skilaboð verða mjög áberandi þegar um er að ræða mann eins og Kristján Þór, sem verið hefur áberandi í pólitík í yfir tvo áratugi og leiddi flokkinn til sögulegs sigurs í þingkosningum í kjördæmi sem aldrei hefur verið lykilvígi Sjálfstæðisflokksins. Það er erfitt að halda því fram að hann sé pólitískur nýliði en hann er samt sem áður flokkaður sem slíkur af forystu flokksins.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að sjálfstæðismenn á Akureyri eru ósáttir við þessa niðurstöðu flokksforystunnar. Persónulega tel ég það áfall fyrir okkur að leiðtoga flokksins eftir slíkan sigur séu ekki færð öflugari verkefni en raun ber vitni. Það er ljóst af stöðu mála undanfarinna daga að Kristján Þór ætlar sér að vinna áfram á bæði vettvangi sveitarstjórnarmála og landsmála. Hann mun klára kjörtímabil sitt sem bæjarfulltrúi hér og verður forseti bæjarstjórnar áfram, er forystumaður bæjarstjórnar í verkum sínum eftir sem áður.

Það blasir merkileg staða við Sjálfstæðisflokknum á Akureyri á næstu árum. Eftir tvö ár verður leiðtogi Samfylkingarinnar á Akureyri bæjarstjóri hér í samstarfi við okkur sjálfstæðismenn. Árið fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar hefur flokkurinn því hvorki embætti bæjarstjóra né ráðherrasæti, að óbreyttu. Það er afleit staða og vekur okkur öll hér til umhugsunar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik !

Hví tekur þú ekki á þig rögg, fyrir hönd Eyfirðinga og endurreisir gamla Íhaldsflokkinn ? Sjáðu nú til, Stefán; ríkisstjórnin núverandi (sem flestar fyrri, reyndar) er sérhagsmuna klíka fyrir Reykjavík og nágrenni.

Dæmin sýna verkin : Er ''vegurinn'' um Öxafjarðarheiði ekki klassískur hestvagna slóði, í stíl 18. aldar samgangna ? Hefi reyndar ei komið, í Þingeyjarsýslur og Múlasýslurnar, enda á ég ekkert erindi þangað. Kann bezt við mig, á vesturhvelinu.

Dæmi II : Þórunn; umhverfisráð frú foragtar Kjalveg, sem og hinar sjálfsögðu hvalveiðar okkar.

Dæmi III : Tvöföldun Vesturlands vegar, sem og Suðurlands er ekki enn hafin. Vegamála stjóri dregur fætur þar, sem víðar.

Dæmi IV : Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir geipa yfir ágæti Reykjavíkur stjórnar, við Reyðfirðinga og nærsveitamenn, við vígslu Fjarðaáls, án þess; að sjálfsögðu, að geta þess, að spekúlantar úr Reykjavík og nágrenni fleyti rjómann, af þeirri framkvæmd, en ekki heimamenn.

Dæmi V : Bankaráð Seðlabanka Íslands skammtar sjálfu sér, og stjórum sínum rífleg laun, á nokkurra missera fresti. Landsins innbyggjurum, mér og þér ''kemur það ekkert við''.

Gæti lengi talið enn, Stefán Friðrik; eða.... hvaða glýja er þetta, sem steypist yfir þig, sem margan góðan drenginn annan, og góðar konur, að kjósa þennan blekkinga flokk; Sjálfstæðisflokkinn, kosningar eftir kosningar ? Er ekki tímabært, að Íslendingar opni augun, fyrir ósómanum ?

Með beztu kveðjum, í Norðuramt / Óskar Helgi Helgason      

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 01:47

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin Óskar Helgi og góðar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.6.2007 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband