Stefnir í kjör Valgerðar - tímamót í Framsókn

Valgerður Sverrisdóttir Nýr varaformaður Framsóknarflokksins verður kjörinn í dag. Öruggt má telja að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum utanríkisráðherra, verði kjörin. Fari svo markar það tímamót í sögu Framsóknarflokksins, enda yrði Valgerður fyrsta konan í æðstu forystuembætti Framsóknarflokksins í 90 ára sögu hans, utan ritaraembættis.

Kona hefur aldrei áður verið kjörin formaður eða varaformaður, en Siv Friðleifsdóttir hefur ein kvenna til þessa gefið kost á sér til þessara embætta. Hún tapaði varaformannskjöri fyrir Finni Ingólfssyni árið 1998 og formannskjöri fyrir Jóni Sigurðssyni árið 2006.

Valgerður Sverrisdóttir hefur setið lengst allra kvenna hérlendis í ríkisstjórn. Valgerður sat í ríkisstjórn í yfir 2.700 daga, eða í tæplega sjö og hálft ár: hún varð fyrst kvenna iðnaðar- og viðskiptaráðherra árið 1999 og utanríkisráðherra árið 2006.

Valgerður hefur setið á Alþingi frá kosningunum 1987 og hefur verið áhrifakona innan Framsóknarflokksins nær allan þann tíma. Þrátt fyrir að hún hafi verið lykilmanneskja í forystunni í raun allt frá árinu 1999 og leitt flokk sinn til kosningasigra hefur hún aldrei fyrr verið kjörin beint til forystu.

Það má telja stórmerkilegt að hún hafi ekki farið fram til formennsku fyrir ári þegar að Halldór Ásgrímsson dró sig í hlé og líklegt má telja að flokknum hafi vegnað betur undir hennar forystu. Það verður fróðlegt að fylgjast með uppbyggingu flokksins, en þar blasa mörg verkefni við forystunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Brúnastaða prinsinn og Lómatjarna drottningin verða án efa góðir kandídatar til að taka við valda sprota framsóknar.

Jens Sigurjónsson, 10.6.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband