Guðni gerir upp hið liðna - Framsókn fer til vinstri

Guðni Ágústsson Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, horfði fram á veginn til vinstrilitaðrar framtíðar í flokknum og gerði upp hið liðna um leið í ræðu á miðstjórnarfundi sem nú stendur á Grand Hótel eftir hádegið. Þar gert upp við tólf ára stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og afhroðið í kosningunum 12. maí. Nýr varaformaður flokksins verður kjörinn síðdegis og bendir flest til þess, eins og fyrr kom hér fram í dag, að Valgerður Sverrisdóttir hljóti kjör.

Það er ljóst af ræðu Guðna að hann ætlar að leiða flokkinn til nýrra tíma, leiða hann í aðrar áttir en forverar hans, Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson, gerðu í formannstíð sinni. Horft er mjög ákveðið til vinstri í þeim efnum. Hann talaði mjög ákveðið í þá átt að samstaða flokksmanna hefði brostið og ennfremur gerði hann Íraksmálið að umtalsefni, mál sem hefur verið eins og mara á sál flokksins allt frá sumrinu 2003 og gerði að mjög áberandi leyti út af við pólitískan styrkleika Halldórs Ásgrímssonar í forsætisráðherratíð hans og fylgdi flokknum áfram eftir þó að Halldór yfirgæfi hið pólitíska svið, enda gerði Halldór ekki upp við málið í kveðjuræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins í ágúst 2006.

Guðni fór mjög ákveðið inn á öll helstu veikleikasviðin sem leiddu til kosningaósigursins í vor. Sagði hann að Framsóknarflokkurinn hefði tapað kosningunum og þar sé aðeins við flokkinn sjálfan að sakast. Þarna kveður við nýjan tón hjá Guðna og meiri sjálfsrýni fólgin í þessum orðum en áður hefur verið á þessu vori. Þarna er horfið af braut alls tals um Baug og undarlegan orðaflaum um að eitt blað á vegum þeirra hafi markað stærstu þáttaskil flokksins í kosningunum, þegar að vel er vitað að innri sundrung og átök voru stærsta ástæða afhroðsins. Guðni þorir að gera upp veiku hliðarnar og um leið að horfa til nýrra tíma, hvernig hann geti gert þennan flokk að sínum við þessar vondu aðstæður.

Það hefur aldrei farið leynt að Guðni féll ekki í kramið hjá svokölluðum Halldórsarmi, nánasta samstarfsmannahópnum í valdatíð Halldórs Ásgrímssonar. Þegar kom að pólitískum endalokum Halldórs vildi Guðni ekki fara með honum og gerði tilraun til að taka flokkinn yfir. Þær tilraunir mætti harðri andspyrnu Halldórsarmsins sem tefldi Jóni Sigurðssyni fram til ráðherrasetu og síðar formennsku, þó að hann væri eldri en Halldór Ásgrímsson. Guðni hélt þó sínum áhrifum er á hólminn kom og varð formaður án mótspyrnu við afsögn forverans, sem missti pólitískt hlutverk sitt og vettvang í landsmálum og var illsætt eftir að mistakast að komast á þing.

Guðni Ágústsson hefði eflaust viljað taka við Framsóknarflokknum við gleðilegri aðstæður en þær sem blasa við nú. Framsóknarflokkurinn er illa farinn eftir vondan kosningaósigur og þar er algjör endurhæfing á öllum sviðum. Það blasir við af ræðunni á Grand Hótel hvert er stefnt. Fyrirmynd Guðna í uppbyggingunni er hinn gamli lærifaðir hans innan flokksins í fjölda ára, Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra. Það má búast við miklum vinstriblæ á Framsókn á komandi árum. Þar verður Framsóknarflokkur Steingríms sá sem rís upp úr öskustó kosningaafhroðsins.

Þar verður nú horft til nýrrar framtíðar, sagt skilið við hægrihliðar formannstíðar Halldórs sem sótti fram á höfuðborgarsvæðinu. Nýir tímar kristallast af uppbyggingu frá landsbyggðinni, með formann og varaformann sem héraðshöfðingja flokksins í sterkum landsbyggðarkjördæmum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Guðna takist að byggja flokkinn til verkanna. Þar reynir á hann. Ella gæti næsta flokksþing orðið vettvangur harðvítugs uppgjörs gamalla arma.


mbl.is Innri samstaða framsóknarmanna brast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ef Vinstri grænir veikjast nú á sama tíma vegna innri sundrungar í þeirra hópi eftir afleiki í kringum kosnngarnar þá mun Framsókn tímbundið njóta lausafylgis á landsbyggðinni, jafnvel alveg fram yfir næstu kosningar, en án SÍS og kaupfélaganna þá skortir Framsókn enn grunn til að standa á. Með stórum sveiflum frá vinstri til hægri og aftur til vinstri sýnir hann fyrst og fremst að hann á ekki raunverulegt hugsjónakerfi til að byggja á. Hollusta og tryggð til hans kom í gegnum samvinnuhreyfinguna og þegar hún er ekki lengur til staðar er hryggjarstykkið farið og hann rís hugmyndalega ekki undir sjálfum sér.  Það  hefur losnað um tryggðarbönd við Framsókn því þau spruttu úr jarðvegi kaupfélaganna og ekkert er til að rækta ný tryggðarbönd.

Ef hann nær aftur fylgi næstu ár þá er það ótraust lausafygli sem getur horfið jafn hratt og það kom ef VG eða aðrir höfða til þess.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.6.2007 kl. 17:52

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Helgi

Góðar pælingar. Nú reynir á Framsókn. Ef þeir eflast ekki í stjórnarandstöðu og í frjálsu rými til að leika frjáls um hagana mun þeim ekki takast að endurreisa sig. Það er bara svo einfalt. Þetta verður áhugavert að fylgjast með.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.6.2007 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband