Valgerður kjörin varaformaður í Framsókn

Valgerður SverrisdóttirValgerður Sverrisdóttir hefur verið kjörin varaformaður Framsóknarflokksins. Ég vil óska henni til hamingju með þann merka áfanga í sínu pólitíska starfi eftir langan stjórnmálaferil. Valgerður er kjarnakona, sem hefur aldrei hikað og hefur unnið af krafti í stjórnmálum alla tíð. Hún hefur sýnt það og sannað hér í kjördæminu í tveim síðustu þingkosningum hversu öflug hún er. Í bæði skiptin hefur hún leitt flokkinn til sinna stærstu sigra á landsvísu.

Besti vitnisburðurinn um styrkleika Valgerðar innan Framsóknarflokksins er einmitt það að í þingflokknum koma þrír af sjö þingmönnum á landsvísu héðan úr Norðausturkjördæmi. Mjög var að henni sótt sérstaklega í kosningunum 12. maí sl. Þrátt fyrir afhroð um allt land náði hún áberandi varnarsigri hér. Henni tókst að halda Framsókn stærri en báðum vinstriflokkunum, þrátt fyrir vondar kannanir og að flestir töldu stöðu hennar vondaufa um að ná slíkum árangri aðeins nokkrum vikum fyrir kosningar. Hvernig henni tókst að sigrast sérstaklega á vinstriflokkunum voru stærstu tíðindi kosninganna hér í kjördæminu, utan auðvitað sigurs Sjálfstæðisflokksins.

Staða Valgerðar innan Framsóknarflokksins hefur í ljósi þessa styrkst mjög auðvitað. Það var mjög eðlilegt og auðvitað hið eina rétta að hún myndi sækja fram til æðstu forystu flokksins eftir þessar þingkosningar þegar að Jón Sigurðsson ákvað að draga sig í hlé, verandi í erfiðri stöðu. Er reyndar mjög athyglisvert að henni skyldu ekki falin trúnaðarstörf af þessu kalíberi við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar fyrir ári, en þá hefði verið réttast að láta henni eftir formennsku flokksins að mínu mati. Það hefði verið taktískt öflugt fyrir flokkinn og skapað honum aðra ímynd en ella varð. En hún fær nú þann sess í uppbyggingu Framsóknar.

Valgerði hefur reyndar alla tíð verið treyst fyrir miklum lykilembættum innan Framsóknarflokksins: hún var fyrsta þingkona flokksins í marga áratugi og aðeins sú önnur í sögu hans, síðar þingflokksformaður og loks iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra í tæp átta ár. Hún hefur lengst íslenskra kvenna setið í ríkisstjórn. Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson. Úrslit kosninganna 12. maí sl. eru með þeim hætti að byggja verður flokkinn upp frá landsbyggðinni í raun, enda varð afhroð flokksins mest í Reykjavík.

Valgerður hefur verið þingmaður hér í tvo áratugi, frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt sigraði hún alla slagina. Þó að ég hafi verið pólitískur andstæðingur hennar mjög lengi hef ég alla tíð virt mjög og dáðst af krafti hennar. Hún hefur aldrei sótt fram sem eingöngu kona í stjórnmálum. Hún hefur farið fram sem persóna og lagt sín verk í dóm. Aldrei hefur hún verið kynnt undir merkjum þess eins að vera kona. Enda þarf Valla að ég tel ekki þau merki einvörðungu.

Ég óska henni góðs í forystuverkum þeim sem hún hefur verið kjörin til. Hún hefur unnið fyrir þeim sess með pólitískum verkum sínum í gegnum tíðina, og það meira að segja fyrir löngu.


mbl.is Valgerður kjörin varaformaður Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband