Ársafmæli bæjarstjórnarmeirihlutans á Akureyri

Sigrún Björk og Kristján ÞórÁr er í dag liðið frá því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum í bæjarstjórn Akureyrar. Samstarfið er sögulegt, enda í fyrsta skipti sem flokkarnir tóku upp samstarf. Aðeins ríkisstjórnarsamstarf flokkanna frá 24. maí 2007 er að auki til staðar á milli flokkanna. Miklar sviptingar urðu á Akureyri í bæjarstjórnarkosningum 27. maí 2006 - meirihlutinn féll og fylkingar riðluðust - það blasti við allt frá kosninganótt að um væri að ræða eina sterka samstarfshæfa mynstrið.

Miklar sviptingar hafa líka orðið á þessu fyrsta ári meirihlutasamstarfsins. Kristján Þór Júlíusson lét af embætti bæjarstjóra 9. janúar sl. Hann hafði þá verið bæjarstjóri á Akureyri síðan í júní 1998, lengst allra frá því að Helgi M. Bergs var bæjarstjóri í áratug 1976-1986. Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við embætti bæjarstjóra og leiðtogahlutverki Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Hún hafði komið ný inn í bæjarstjórn í kosningunum 2002 og varð forseti bæjarstjórnar fyrir ári. Kristján Þór var mjög afgerandi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, leiddi flokkinn í þrem kosningum og hafði afgerandi umboð úr prófkjöri skömmu fyrir kosningarnar. Brotthvarf hans markaði aðra ásýnd á bæjarmálin.

Brotthvarf Kristjáns Þórs af bæjarstjórastóli eru hiklaust stærstu pólitísku tíðindi kjörtímabilsins það sem af er. Hann yfirgaf þó ekki bæjarmálin, heldur varð forseti bæjarstjórnar og hefur nýlega verið endurkjörinn forseti til næsta árs. Hann er þó á útleið úr bæjarmálunum og mun ekki gefa kost á sér í næstu kosningum, enda orðinn alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það varð strax ljóst við úrslit kosninganna í fyrra og samninga meirihlutaflokkanna að Kristján Þór væri á útleið. Fylgi flokksins féll um nokkur prósentustig í kosningunum í fyrra og fjórði maðurinn, Hjalti Jón Sveinsson, var mjög tæpur í sessi. 

Samningar meirihlutaflokkanna gerðu ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embætti bæjarstjóra fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins en Samfylkingin fjórða og síðasta ár kjörtímabilsins. Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, verður því bæjarstjóri eftir tvö ár, í júní 2009. Það var öllum ljóst að Kristján Þór Júlíusson yrði varla formaður bæjarráðs í bæjarstjóratíð Hermanns Jóns, svo að örlög hans voru mjög ráðin strax þá að mínu mati. Ég gerði strax ráð fyrir því að Kristján Þór færi fram í leiðtogastól í kjördæminu við þennan samning og varð því ekki hissa á ákvörðun hans að fara fram þegar að ljóst var að Halldór Blöndal myndi hætta.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut ekki afgerandi umboð til að leiða bæjarmálin til fjögurra ára að mínu mati. Það voru að mínu mati fjöldamargar ástæður sem ollu því að flokkurinn hlaut ekki betra brautargengi og hann var að mínu mati stórlega lamaður að mörgu leyti eftir kosningar þó að hann héldi naumlega haus, enda mjög tæpt með fjórða mann og skammt á milli feigs og ófeigs í meirihlutaviðræðum. Vistaskipti Kristjáns Þórs eftir kosningarnar var eðlilegt skref að mínu mati. Það var bæði honum og Sjálfstæðisflokknum hér á Akureyri hollt að stokka upp stöðuna. Ég tel að það sé okkur mikilvægt að Akureyringur leiði kjördæmastarfið. Þar reynir nú á hann. 

Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við bæjarstjóraembættinu í merkilegri stöðu. Hún var fyrsti kvenkyns bæjarstjórinn hér og markaði skref í þeim efnum, sem skipta máli fyrir okkur í flokknum. Hinsvegar er öllum ljóst að hún er ekki að taka við fastsettu bæjarstjóraembætti. Hún hefur tímamæli fyrir framan sig og horfist í augu við það að missa bæjarstjórastólinn eftir tvö ár, sama hversu vel hún stendur sig. Samfylkingin fær stólinn á tilsettum tíma og hún verður aftur óbreyttur bæjarfulltrúi og gegnir með því formennsku í bæjarráði væntanlega síðasta árið. Það reynir mjög á hana og flokkinn í þeirri stöðu á þessu ári, eftir að hafa haft bæjarstjórastólinn í ellefu ár. 

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að þessi meirihluti hafi verið bragðdaufur og hægvirkur. Þar skiptir sköpum að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans höfðu reynslu af því að vera aðalmenn í bæjarstjórn áður; bæjarstjórarnir Kristján og Sigrún. Hin hafa slípast misvel til og hafa verið að læra að synda úti í straumþungum sjónum. Það tekur oft á, jafnvel fyrir duglegt fólk. Það getur tekið mismikinn tíma. Sumir í þessum hópi eru misvel syntir eftir árið, sumir enn að læra tökin og enn efasemdir um hvernig að þeim takist upp. Það reynir á þetta fólk næstu þrjú árin, enda ætlast bæjarbúar til þess að þessi sterki meirihluti skili afgerandi verkum af sér.

Það er merkilegt að fylgjast með bæjarstjórnarfundum á N4. Mér finnst þeir oft mjög þunnur þrettándi og litlausir. Það er mjög hrópandi staðreynd að enginn einstaklingur undir 35 ára aldri á fast sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Það var mjög dapurlegt að sjá í aðdraganda kosninganna fyrir ári að flokkarnir feiluðu gjörsamlega á hinum gullna séns að veita ungu fólki brautargengi til þess að fá öruggt sæti í bæjarstjórn. Sumir flokkar fólu ungu fólki hliðarsæti sem varabæjarfulltrúar, sem lítið reynir á í sviðsljósi þess sem gerist í bæjarstjórn, þar sem kastljós fjölmiðlanna er oftast til staðar. Það er afleitt að ungt fólk eigi ekki sterkari aðkomu að fronti stjórnmála hér.

Staða Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er athyglisverð nú á þessari stundu. Bæjarstjórinn Sigrún Björk Jakobsdóttir og kjördæmaleiðtoginn Kristján Þór Júlíusson hafa sterka stöðu hér í bænum að því er virðist. Þrátt fyrir það er bæjarstjórinn að klára þriggja ára bæjarstjórnarferil sem fyrst var eyrnamerktur Kristjáni Þór og kjördæmaleiðtoginn varð hvorki ráðherra né nefndaformaður í kapal flokksins í maímánuði. Það er því ljóst að í júní 2009 hefur flokkurinn hér hvorki lykilembætti sem fylgja setu í ríkisstjórn eða því að stjórna bænum úr Ráðhúsinu, að óbreyttu.

Það eru eflaust margir hugsi yfir því, sérstaklega þeir sjálfstæðismenn sem lengst hafa unnið hér á Akureyri í flokksstarfinu og þekkja innviðina þar mest og best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband