Sumarþingi lokið - nýjir pólitískir pólar myndast

Alþingi

Sumarþingi lauk í gær. Þetta var óvenjulangt þing að sumri, enda mörg brýn mál verið sett á dagskrá og uppstokkun gerð á nefndum þingsins og ráðuneytum. Auk þess var farið yfir fjölda hitamála í kjölfar kosninganna. Þetta var auðvitað lærdómsríkt þing í þeim skilningi að þar hafa myndast nýjir pólitískir pólar og mikil uppstokkun orðið með stjórnarskiptum.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er mjög voldugur, 43 þingsæti. Að sama skapi er stjórnarandstaðan mjög veik með aðeins 20 þingsæti. Hún getur ekki stöðvað að stjórnarflokkarnir veiti afbrigði við að taka mál á dagskrá og hagað þinginu að sinni vild. Að auki er það svo að mikil gjá er á milli stærstu stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa tekist harkalega á árum saman og eru að venjast því að vera komin á sama bátinn.

Þetta var stutt en snarpt þing. Nýjir pólar myndast, gamlir fjandvinir eru komin í stjórnarsamstarf og aðrir skipa minnihlutann og sumir eru að venjast því að vera óbreyttir eftir að hafa verið í ríkisstjórn árum saman og sumir að venjast stjórnarandstöðuvist í fyrsta skiptið á löngum þingferli. Þetta hefur verið umbreytingaskeið. Stjórnarandstaðan er vissulega mjög vængbrotin og hún virðist eiga erfitt með að fóta sig á svellinu. Eflaust mun það takast, eins og sést af nýlegum faðmlögum fjandvina á borð við Steingrím J. og Valgerði Sverrisdóttur.

Að sama skapi er athyglisvert að sjá Björn Bjarnason og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem samherja í ríkisstjórn, ekki aðeins hlið við hlið í samstarfi heldur með myndrænum og athyglisverðum hætti sem sessunautar í þingsal og á fundum ríkisstjórnar. Þar verða þau sessunautar meðan að bæði eru saman í ríkisstjórn, enda hún leiðtogi annars stjórnarflokksins og hann sá ráðherra sem lengst hefur setið í ríkisstjórn, rúm ellefu ár. Þetta er samstarf sem verður athyglisvert að fylgjast með svo sannarlega. Auk þessa verður sérstaklega athyglisvert að fylgjast með því hversu vel Geir og Ingibjörgu muni ganga að eiga farsælt samstarf og semja sín á milli um lykilmál.

Þingmeirihlutinn er svo stór að menn geta leyft sér að tala frjálslega og höggva jafnvel að næsta manni, þingmenn geta strítt ráðherrum með áberandi hætti. Hinn orðvitri Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, orðaði þetta svo skemmtilega í gær að þingmenn væru með handsprengjur í vösum og biðu færis að kasta þeim á ráðherrana. Alltaf gaman að Guðna. Reyndar finnst mér Guðni vera einmitt í essinu sínu núna, ég held að stjórnarandstöðuvistin muni gera hann tvíefldan á meðan að Steingrímur J. virðist vera að þorna upp í gremju, enda ekki furða fyrir mann eins og hann sem hefur hokrast í andstöðeymd í sextán ár samfellt. 

Steingrímur J. var reyndar kostulegur í gær þegar að hann talaði um ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála. Gremja Steingríms J. hefur ekki farið framhjá neinum eftir eldmessu hans yfir Samfylkingunni við stefnuræðu forsætisráðherra, sem missti gjörsamlega marks. Hann trompaðist á vondum tíma held ég að flestir séu sammála um. Í stað þess að byggja upp sína framtíðarsýn og tala málefnalega um lykilmál kjörtímabilsins var hann eins og maður sem upplifir makann kominn í fang annars manns og er að bogna af gremju og svekkelsi. Þetta var dapurt móment á ferli þess þaulreynda þingmanns.

Framundan er hitavetur í íslenskum stjórnmálum. Oftast nær er fyrsti þingvetur nýs kjörtímabils rólegheitatímabil, enda engar kosningar þá í augsýn nema mögulega forsetakosningar. Nú stefnir í átakatíma. Stjórnin er svo voldug að hún hefur þingið algjörlega í hendi sér. Best sást það í gær með kosningum í landskjörstjórn og kjörstjórnir í kjördæmum, en af fimm sætum hefur stjórnarmeirihlutinn fjögur til ráðstöfunar. Minnihlutinn er því að vakna upp við hlutskipti sitt. Samt sem áður mun hann bíta vel frá sér þó hann sé í eðli sínu veikur. Ég held að veturinn verði mjög eldfimur og hressandi.

Við öll sem fylgjumst með stjórnmálum vonumst auðvitað eftir því, enda er ekkert gaman að stjórnmálum ef stjórnarandstaðan er veik og máttlaus og hún verður því að stíga vel í lappirnar og sanna sig. Þar þarf að yfirvinna gremju milli aðila og fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Þetta verður spennandi kjörtímabil - áhugavert að sjá nýju pólana myndast betur og vinna saman næsta vetur. Þá fyrst reynir á stöðu mála í raun.


mbl.is Sumarþingi slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband