Kurt Waldheim látinn

Kurt Waldheim Kurt Waldheim, fyrrum forseti Austurríkis og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er látinn, 88 ára að aldri. Hans verður sennilega helst minnst í senn fyrir verk sín sem mjög öflugur diplómat á alþjóðavettvangi og fyrir litríkan forsetaferil sinn í Austurríki sem markaðist af einangrun hans í raun vegna uppljóstrana um fortíð hans í seinni heimsstyrjöldinni og lögðu í raun mannorð hans sem virðulegs "statesman" í rúst.

Waldheim varð ungur diplómat, að því er segja má fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann vann sig sífellt upp og var tilnefndur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna árið 1972 í stað U Thant. Áður hafði hann þó tapað forsetakosningum gegn Franz Jonas, sitjandi forseta, í Austurríki árið 1971. Waldheim sat í forsæti hjá SÞ í New York í áratug, allt til ársloka 1981. Hann hætti þó ekki glaður á brá, enda sóttist hann eftir þriðja kjörtímabilinu. Kína beitti neitunarvaldi gegn tilnefningu hans. Ferlinum lauk því þar með snubbóttum hætti.

Waldheim sóttist aftur eftir forsetaembættinu í Austurríki í kosningum sumarið 1986 þegar að Rudolf Kirchschläger, eftirmaður Franz Jonas, lét af embætti. Þá náði hann kjöri í embættið, orðinn 68 ára gamall. Í aðdraganda kosninganna komu fram uppljóstranir í austurrísku blaði um að Waldheim hefði verið tengdur inn í innstu kjarna nasista í Þýskalandi á stríðsárunum. Leyndarhjúpur hafði alltaf vofað yfir fortíð hans, sérstaklega á stríðsárunum í aðdraganda diplómatsáranna, og var dulúðinni stórlega aflétt með þeirri umfjöllun. Margir töldu að þær uppljóstranir myndu koma í veg fyrir kjör hans. Svo fór ekki. Hann sigraði í kosningunum.

En með forsetakjörinu var staða hans í raun orðin afleit og ímynd hans sem farsæls diplómats á SÞ-árunum skaddaðist nær algjörlega. Á sex ára forsetaferli sínum var Waldheim litinn hornauga og var að mestu einangraður í samskiptum við lykilríki í Evrópu og Bandaríkin sem vildu lítið saman við Waldheim sælda eftir það. Waldheim fór aldrei í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna eða helstu ríkjanna í Evrópu í ljósi þessa og var því nær algjörlega í kuldanum. Samskipti Austurríkis við helstu ríki heimsins voru því í frostmarki þau ár sem hann sat á forsetastóli. Waldheim lét af embætti sumarið 1992 og varð Thomas Klestil eftirmaður hans.

Waldheim ritaði bókina In the Eye of the Storm. Þá bók hef ég lesið. Það er að mörgu leyti merkileg lesning. Mikla athygli vekur þó að hann víkur lítið sem ekkert að snubbóttum forsetaferlinum og einblínir þess þá frekar á sælutímann sinn í New York sem áhrifamaður stórrar alþjóðastofnunar. Síðar ritaði hann frekar um helstu lykilmálin undir lok starfsferilsins og gerði að mestu leyti upp við skuggana.

Waldheim verður fyrst og fremst minnst fyrir að vera einlægur og áberandi diplómat, en um leið fyrir skuggana sem fylgdu honum eftir sem maran mikla eftir að hann náði takmarki ævinnar, að hljóta forsetaembættið í Austurríki. Það valdaskeið var pínleg skelfing fyrir hann og hann naut sín aldrei til fulls í þeirri spennitreyju sem fortíðin varð honum að lokum.

mbl.is Kurt Waldheim látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Er það ekki oft að ef einhver var á lífi á tímum nasista í Austurríki eða Þýskalandi og hafi verið kallaður í herinn. Þá getur hver sem er kastað skít á viðkomandi og sagt að hann hafi verið handbendill nasista og komist upp með það án raka.

Fannar frá Rifi, 14.6.2007 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband