Hvöss skot ganga á milli Gunnars og Reynis

Gunnar I. Birgisson Það er óhætt að fullyrða að skotin gangi hvöss nú á milli Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, og Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs, í kjölfar þess að Gunnar ákvað að kæra Ísafold og Mannlíf vegna umfjöllunar um sig. Reynir íhugar nú að kæra Gunnar vegna ummæla sinna á vísir.is í dag þar sem hann sagði blöðin gefin út undir verndarvæng auðhrings og að blaðamenn þeirra fengju óáreittir að taka menn af lífi á síðum blaðsins.

Ef marka má það sem Reynir sagði í dag er stefnt að frekari umfjöllun um Gunnar á síðum blaðanna. Er þar t.d. greinilega í pípunum að birta fleiri myndir af Gunnari á nektardansstaðnum Goldfinger í Kópavogi og fara yfir pólitísk verk hans á bæjarstjórastóli og tengsl hans við verktakabransann. Reynir stendur við alla umfjöllunina og svarar kærutali Gunnars með því að segjast ætla að gjalda líku líkt.

Ég veit eiginlega varla hvað skal halda um þetta mál. Mér finnst þó alveg ljóst að ekki er viðeigandi að bæjarstjóri heimsæki skemmtistað af þessu tagi og get ekki ímyndað mér annað en að efasemdir hafi vaknað um pólitíska stöðu hans vegna málsins. En sé ekkert að fela í málinu er eðlilegast að opna það allt og fara með þessi efni fyrir dómstóla. Reyndar er mjög athyglisvert að bæjarstjórinn svari ekki gagnrýni fjölmiðla efnislega.

Telji hann umfjöllunina aðför að sér er eina rétta leiðin að fara dómstólaleiðina með allar hliðar þess. Það er nauðsynlegt til að taka það fyrir með afgerandi hætti og kanna stöðu umfjöllunarinnar. Þó finnst mér ummæli Gunnars sem Reynir bendir á ganga frekar langt og úr gæti orðið heljarinnar darraðardans.

mbl.is Gunnar í mál við Mannlíf og Ísafold
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Sæll Stefán

Ég verð að segja að mér finnst alveg í lagi þótt bæjarstjóri heimsækji svona stað, hann er þá í betri aðstöðu til að meta umfjöllun um þessa staði, ekki satt :)  mér finnst að fólk eigi ekki að þurfa að skammast sín fyrir að fara á neina staði sem reknir eru á löglegum grunni, hvaða atvinnu sem það stundar. Ef Gunnari Finnst gaman á þessum stað og fer þangað ótilneyddur, hvað er þá vandamálið?

Anton Þór Harðarson, 14.6.2007 kl. 18:53

2 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Flottur Stebbi, sammála þér.

Páll Ingi Kvaran, 14.6.2007 kl. 18:58

3 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Geiri er Kópavogsbúi, alinn þar upp og bærinn var ekki stór á þeim tíma. Hann þekkir mikinn fjölda manna, ekki síst í þessum bæ. Gunnar Birgisson er einn þeirra. Mér finnst ekki skrýtið að Gunnar rækti kunningsskap sinn við Geira enda er Geiri með skemmtilegri mönnum; einstakur húmoristi og mjög gaman að vera í félagskap með honum. Stað sinn rekur hann með sóma og hefur öll tilskilin leyfi. Hvers vegna Gunnar Birgisson getur ekki látið sjá sig á stað sem löglegt er að reka í bænum er mér fyrirmunað að skilja. Bæjarstjórar eiga sitt einkalíf og það kemur engum það við hvort hann heimsækir kunningja sinn á Goldfinger til að létta sér lífið með því að hlæja góða stund í félagskap Geira á meðan hann stendur sig í starfi sínu.

Ef hann stæði sig ekki og Goldfinger væri ólöglegur staður horfði málið allt öðruvísi við. En að kíkja við hjá Geira stöku sinnum, hlæja hraustlega en það gera allir sem umgangast Ásgeir Þór, er ekkert nema eðlilegt.

En hræsni manna og skynhelgi er svo mikil að þeir halda að það sé eitthvað fínt að þykjast hafa óbeit á súlustöðum. En það þykir engum það neitt tiltökumál að sækja slíka staði í öðrum löndum. Látið ekki femínistana snúa ykkur margfalt í hringi drengir; málflutningur þeirra er hreint ofstæki og það er engin ástæða til að skammast sín fyrir að skemmta sér á Goldfinger frekar en á hverjum örðum skemmtistað borgarinnar. Það koma þangað margir til að spjalla yfir glasi og eru ekkert sérstaklega að velta fyrir sér stúlkum og súlum þó að það sé til staðar. Hefur þú Stefána aldrei komið inn á svona stað? Og ef ekki, hvaða forsendur hefur þú þá til að dæma Gunnar Birgisson eða aðra sem líta við á næturklúbbi?

Forvitna blaðakonan, 16.6.2007 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband