Stjórnleysi og algjör glundroði í Palestínu

Mahmoud Abbas í skugga Yasser Arafat Innan við þremur árum eftir dauða Yasser Arafat er Palestína nær komin á upphafspunkt á baráttuárum hans. Palestínska heimastjórnin er í molum og á svæðinu ríkir algjör glundroði og stjórnleysi. Harðvítugir bardagar á milli meginpólanna á svæðinu: Hamas og Fatah, sem barist hafa um völdin eftir óvæntan kosnignasigur Hamas fyrir einu og hálfu ári, hefur nú lokið með fullnaðarsigri Hamas á Gaza-ströndinni og greinilegt að þeir hafa hertekið megnið af svæðinu.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur leyst upp palestínsku heimastjórnina og lýst yfir neyðarástandi á Gaza-ströndinni. Vald forsetans er stórlega lamað með atburðarás síðustu daga og það er erfitt að sjá hvað er í raun eftir af palestínsku heimastjórninni nema sundurskotin eymdin ein. Staða mála hefur tekið merkilega stefnu og Palestína á mestu krossgötum sínum frá upphafsárum baráttu Arafats. Það hefði fáum órað fyrir því fyrir ellefu árum er Arafat var kjörinn forseti heimastjórnarinnar að svo skömmu síðar yrði allt í bál og brand.

Það er mikil hætta á því að Hamas komi á íslömsku ríki á þessu svæði. Fari svo er útséð með að nokkuð vestrænt ríki vilji ljá máls á að tala máli Palestínu. Þegar hefur Evrópusambandið afturkallað aðstoð við svæðið og Bandaríkjastjórn mun að sjálfsögðu styðja Mahmoud Abbas út í rauðan dauðann. Hamas er fylking af því tagi sem ekki er hægt að styðja og viðbúið að þau ríki sem hafa ljáð máls á að styðja Palestínu hrökklist frá verði þarna íslamskt ríki og ofbeldið grasseri af því tagi sem verið hefur.

Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Það sem eftir er af palestínsku heimastjórninni er þó ekki beysið og vandséð hvernig þar verði komið á stjórntæku ástandi í þessum glundroða öllum. Þarna eru svo sannarlega krossgötur nú. Arafat hlýtur að snúa sér við í gröf sinni á Vesturbakkanum við þessi örlagaskil sem eru að eiga sér stað.

mbl.is Hamas lýsir yfir fullkomnum yfirráðum á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Eru orðinn til tvö ríki Palestínu? Gaza ríki undir stjórn Hamas og Vestur-bakkinn undir stjórn Fatah.

Fannar frá Rifi, 14.6.2007 kl. 23:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það gæti alveg farið svo. Staðan er með þeim hætti að tveir valdapólar hafa markað sér hvort um sig sitt svæði. Sýnist þó að þetta sé upphafið á valdaránstilraun hjá Hamas. Annars verða næstu skrefin þýðingarmikil. Heilt yfir er Palestína sem heild stjórnlaus og engin samstaða um það hver hafi völdin. Abbas setur stjórnina af en Hamas gerir ekkert úr valdi forsetans og Fatah þar með. Mikil harka framundan þarna, þetta er bara rétt að byrja.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.6.2007 kl. 00:09

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér sýnist Ingibjörg ætla að koma þessu í liðinn.

Sigurður Þórðarson, 15.6.2007 kl. 02:32

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

Það verður gaman að sjá við hvora fylkinguna hún talar þegar hún hefur stjórnmála samband við Palestínu.

Fannar frá Rifi, 15.6.2007 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband