Vond helgi á Akureyri - aðgerða er þörf!

AkureyriÉg var að koma heim til Akureyrar eftir rólega helgi í bústað í Aðaldalnum. Það hefur verið undarlegt að fylgjast með fréttum að heiman um helgina. Þar er birt vond ásýnd á bæinn okkar góða. Það sem þar stendur upp úr er frásögn af fylleríi og slagsmálum. Það er mjög leiðinlegt þegar að fámennur hópur setur ljótan blett á heildina æ ofan í æ á hátíðarhöldum í góðu veðri. Það er þó reyndin og úr því verður að vinna. Það er alveg ljóst. Þessi vandi verður ekki umflúinn lengur.

Þetta er þó ekki nýr vandi. Fregnirnar hafa enda hljómað rétt eins og verið hefur á bæjarhátíðinni Einni með öllu um verslunarmannahelgar undanfarin ár. Það er ekki góður stimpill, það er alveg ljóst. Nú þegar að þessi helgi er liðin stöndum við frammi fyrir nokkuð áleitnum spurningum - við verðum að spyrja okkur hvað sé að gerast í raun og veru? Höfum við eitthvað sofnað á verðinum? Höfum við fengið á okkur sukkstimpilinn sem fylgdi Halló Akureyri forðum daga? Erum við að sigla í sömu átt og við reyndum að forðast áður?

Mér finnst fregnir af þessu sukki afleitar en mun meira svíður mér þó allt ofbeldið. Ofbeldið í samfélaginu er alltaf að aukast og við sjáum einhvern anga þeirrar skelfingar á þessari hátíð um helgina. Sérstaklega fór mjög í mig að heyra af því að starfsmenn tjaldsvæðisins á Hömrum hafi verið barðir. Þetta er algjörlega ólíðandi. Það að verði að hafa vakt lögreglumanna við tjaldsvæðin er napur veruleiki og leiðir til þess að setja verður hlutina í nýtt samhengi og leysa úr þeim flækjum sem því fylgir.

Það er alveg ljóst að fylleríið og ofbeldið í bænum náði vondum hápunkti þessa helgina. Það verður að hugsa vel um þau mál öll. Ég vil að Akureyri standi undir nafni sem fjölskyldubær en fái ekki á sig stimpil óreglu og sukks - en alltof mikið var af slíku hér um helgina og því miður það eina sem var fréttnæmt héðan. Þetta gengur ekki lengur!

mbl.is Kallaðir út úr fæðingar- og sumarorlofi til að sinna löggæslu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Veistu Stebbi, ég er svo sorgmædd yfir þessu öllu. Nýkomin að norðan úr þessum fallega bæ, þar sem mannlífið blómstrar og nóg af fólki, afhverju þarf að halda svona helgi sem við vitum að býður ekki upp á neitt annað en skrílslæti og skepnuskap, sorry orðbragðið, en mér finnst þetta bara. Vil bara sjá fallega bæinn ykkar í sínu besta formi, án allra skipulagðra fyllerísdaga.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.6.2007 kl. 20:20

2 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Engir skipulagðir fyllerísdagar. Auðvitað, þegar koma í bæinn um tíu þúsund manns, þá hljóta tíu til fimmtán einstaklingar að vera "óæskilegar hetjur" eins og maður segir.  Helgin gekk samt sem áður furðu vel fyrir sig. 

Sveinn Arnarsson, 17.6.2007 kl. 21:01

3 Smámynd: Norðanmaður

Þarna eru örfáir að skemma fyrir fjöldanum,eins og oft gerist í fjölmenni. Fréttamenn hafa farið offari í þessum fréttaflutningi og það er greinileg gúrkutíð hjá þeim.

Norðanmaður, 17.6.2007 kl. 21:20

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Alltaf gott að vera í Aðaldalnum, en er það ekki eðlilegt að það þurfi aukna löggæslu þegar svona mót standa yfir?

Ester Sveinbjarnardóttir, 17.6.2007 kl. 21:57

5 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Auðvitað þarf mikinn viðbúnað þegar það koma þúsundir gesta í bæinn - ekki spurning. Svo er það nú bara brandari að það hefur ekki verið fjölgað stöðugildum í lögregluni að ég held í 30 ár ( ef ég man rétt ).

Hluti af vandanum var sá að "óæskilegu unglingunum" var vísað upp á fjölskyldutjaldsvæðið á Hömrum. Af hverju ekki að nýta þetta rammgerða tjaldsvæði við Þórunnarstræti ? Auðvelt að vera með gæslu þar.

Rúnar Haukur Ingimarsson, 17.6.2007 kl. 22:03

6 Smámynd: Karl Jónsson

Við fjölskyldan ætluðum að gista við Hrafnagilsskóla og mikil tilhlökkun í hópnum yfir því. Þegar við hins vegar komum þangað um kvöldmat á föstudag, var allt orðið fullt af partýliði og fréttir af ólátum. Við gátum verið á einhverju afmörkuðu fjölskyldusvæði, sem var að vísu ekki nema 30-40 metra frá unglingasvæðinu.

Fórum upp í Hamra og sáum þar blindfulal unglinga í slagsmálum þegar við komum. Tókum samt sénsinn á því að fara á fjölskyldusvæðið og náðum þar fínum stað þar sem ónæði var í lágmarki. Urðum þó vör við flugelda báðar næturnar sem vöktu alla upp en háreystin varð að þægilegu og svæfandi suði þegar leið á kvöldin.

En auðvitað er það leiðinlegt að geta ekki treyst á að geta farið með fjölskylduna í útilegu án þess að eiga það á hættu að lenda inni í miðju unglingafylleríi.

Karl Jónsson, 18.6.2007 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband