Blair á útleið - nýjir tímar í breskum stjórnmálum

Tony BlairUm miðja næstu viku mun Tony Blair láta af embætti sem forsætisráðherra Bretlands og halda til annarra verkefna. Á sunnudaginn mun kjöri Gordon Brown sem eftirmanns hans á leiðtogastóli verða lýst formlega og tilkynnt hver verði varaleiðtogi flokksins. Sex þingmenn Verkamannaflokksins berjast um varaleiðtogastöðuna en aðeins Brown sækist eftir leiðtogastöðunni og er því sjálfkjörinn og bíður því aðeins eftir að taka við af Blair á næstu dögum.

Brotthvarf Tony Blair úr breskum stjórnmálum marka krossgötur í pólitíska landslaginu þar. Blair hefur verið einn valdamesti stjórnmálamaður heims í áratug og ríkt yfir flokknum í þrettán ár og eiginlega átt sviðið í breskum stjórnmálum frá kosningasigrinum 1997, er Íhaldsflokkurinn varð fyrir skaðlegum kosningaósigri, þeim mesta í sögu hans. Biðin eftir valdaskiptum í Bretlandi er þrátt fyrir það orðin löng. Frá árinu 2004 hefur verið ljóst að Blair færi ekki fram í fjórða skiptið í forystu flokksins og því hefur staðið langur biðleikur um völdin þar, sem hefur verið flokknum erfiður.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Gordon Brown markar sér völdin í Bretlandi þegar að Blair hefur loksins yfirgefið valdastólana og látið eftirmanninum sviðið eftir. Tony Blair og Gordon Brown hafa alla tíð verið mjög ólíkir stjórnmálamenn, þó þeir hafi lengi unnið saman og verið hið mikla tvíeyki valdanna frá kosningasigrinum 1997. Lengst af hefur samstarf þeirra verið markað af undirliggjandi fjandskap og metingi bakvið tjöldin. Það yfirbragð hefur markað bresk stjórnmál í ein sex til sjö ár hið minnsta og hefur aukist sífellt eftir því sem leið frá og Brown sýndi augljós merki þess að taka við valdataumunum.

Það er að sannast sífellt betur þessa síðustu daga stjórnmálaferils Blairs að Íraksmálið verður hans helsta pólitíska grafskrift, það sem hans verður helst minnst fyrir. Að því var varla stefnt fyrir nokkrum árum. En svo mun fara. Það mál hefur fylgt hefur eftir eins og skugginn í yfir fjögur ár. Flestir töldu reyndar sumarið 2003 og um haustið það ár að það myndi kosta hann embættið, en svo fór ekki. En það dró svo mjög máttinn úr honum að hann breyttist úr sigursælum stjórnmálamanni í mann sem hægt og hljótt þurrkaðist út.

Væntanlega mun Tony Blair nú taka að sér fyrirlestra og ferðalög um heiminn þar sem hann fer yfir stjórnmálaferilinn og verður álitsgjafi um málin í sviðsljósinu. Ekki ósvipað Bill Clinton, sem hefur á nokkrum árum breyst úr stjórnmálamanni í farandfyrirlesara með ákveðið pólitískt hjarta. Ekki kæmi svo að óvörum þó að Blair myndi leggjast bráðlega í það verkefni að skrásetja æviminningar sínar, sem margir hafa eflaust áhuga á.

Gordon Brown hefur mánuðum saman talið dagana og vikurnar þar til að Blair yfirgæfi hið pólitíska svið. Nú eru þáttaskil handan við hornið og hans pólitíska tækifæri blasir við. Hann ætlar sér að vinna í kosningunum 2009. Skoðanakannanir sýna að landsmenn líta á hann sem slitinn fulltrúa liðins valdatíma. Verkefni hans verður ærið frá og með þeirri stund er hann fær umboð drottningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband