Listasumar hefst - menningarblær í Lystigarðinum

Listasumar Ég var að koma úr Lystigarðinum þar sem Listasumar 2007 var formlega sett við hátíðlega athöfn. Þar var hlý gola og notalegasta veður, þó að sólin hefði mátt brosa betur til okkar. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður Akureyrarstofu, setti Listasumarið með góðri ræðu og fór yfir tíu vikna menningarveislu sem framundan er hér í bænum.

Listasumar stendur ávallt frá Jónsmessu til ágústloka er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, fer fram. Eftir ræðuna var boðið upp á tónlistaratriði með hinum góða og óborganlega dúett Hundi í óskilum, en þeir fluttu Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson með bravúr. Alltaf voldugt og gott ljóð, en þarna í mjög nýstárlegri útsetningu vægast sagt. Það er alltaf gaman að fylgjast með þeim Eiríki og Hjörleifi flytja lög í nýstárlegum útgáfum og þeim er frekar fátt heilagt.

Í Lystigarðinum hefur nú verið sett upp ljóðasýningin: Jónas í Lystigarðinum. Þar eru ljóð Jónasar kynnt. Það er viðeigandi að helga Jónasi sess á Listasumri hér á Akureyri, en í nóvember verða 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar, dagur íslenskrar tungu er á fæðingardegi hans 16. nóvember og dagurinn því helgaður honum. Vönduð sýning var svo um Jónas á Amtsbókasafninu fyrr á árinu. Ljóðin á sýningunni eru valin af Halldóri Blöndal, formanni afmælisnefndar Jónasar Hallgrímssonar.

Það var notalegt að fara í Lystigarðinn áðan og spjalla við gott fólk og njóta veitinganna, en boðið var upp á hlaðborð ávaxta og grænmetis og ávaxtadrykki. Vel við hæfi á góðum sumardegi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband