Ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um Hafró

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Greinilegur ágreiningur er innan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um Hafrannsóknastofnun. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, tjáir þá skoðun á vefsíðu sinni að skilja eigi Hafrannsóknastofnun frá sjávarútvegsráðuneytinu. Varla er við því að búast að t.d. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrrum sjávarútvegsráðherra, og fleiri ráðherrar Sjálfstæðisflokksins taki undir þá skoðun.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki beint parhrifin í fréttum Stöðvar 2 rétt í þessu. Fróðlegt væri að heyra skoðun Einars Kristins Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, en hann hefur varla undan því að svara því sem fulltrúar stjórnarflokkanna segja opinberlega um málaflokk hans, en mikla athygli vöktu um daginn nærgætin svör hans við hinni frægu þjóðhátíðarræðu Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, sem yfirskyggðu ræðu forsætisráðherrans sem þó var flutt í kastljósi fjölmiðla í beinni útsendingu.

Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður og Vestfjarðajaxl með meiru, er eflaust glaður yfir þessum skrifum Össurar. Mikla athygli vakti rimma Árna M. Mathiesen og Einars Odds í vikunni, þar sem Árni skaut föstum skotum vestur til Einars Odds. Var það með hvassari átökum þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ég man eftir að hafi átt sér stað eftir formannskjör Davíðs Oddssonar fyrir einum og hálfum áratug, en flokkurinn logaði oft í skotum kjörinna fulltrúa á áttunda og níunda áratugnum, er hann klofnaði með áberandi hætti, t.d. með myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, þáverandi varaformanns, í trássi við flokksstofnanir.

Það verður fróðlegt að sjá hvor skoðunin verður ofan á innan ríkisstjórnarinnar, en skýr ágreiningur um aðferðir í málefnum Hafrannsóknastofnunar og hverjum hún muni tilheyra er til staðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Heldurður að við stjórnarsinnar þurfum nokkuð að hafa áhyggjur.??

Ásdís Sigurðardóttir, 22.6.2007 kl. 20:17

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Nei, ég held að þetta muni allt fara vel. Það verður hægt að ná lendingu í þessu með einum hætti eða öðrum vona ég, og við bæði auðvitað. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.6.2007 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband