The Last Hurrah in Brussels

Tony BlairTony Blair, forsætisráðherra Bretlands, er nú staddur í Brussel á leiðtogafundi ESB sem verður síðasta stóra embættisverk hans á stjórnmálaferlinum, en hann lætur af völdum á miðvikudaginn. Það sem átti eflaust að verða afslöppuð kveðjustund hans í framlínupólitík sem myndi sýna styrk hans sem stjórnmálamanns varð að hinu gagnstæða. Fundurinn hefur markast af átökum um hvert skuli stefna í málefnum Evrópusambandsins og ekkert víst enn í þeim efnum.

Fyrirfram var ljóst að tekist yrði á um framtíðina í Brussel og að þar yrðu Bretar og Pólverjar erfiðastir við að eiga. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur stýrt fundinum eins og herforingi en sérstaklega átt erfitt með að eiga við Pólverjana, sérstaklega eftir ummæli Lech Kaczynski um skarðan hlut Pólverja í samstarfinu í ljósi þess að þeir væru mun fleiri ef Þjóðverjar hefðu ekki stefnt til seinni heimsstyrjaldarinnar. Það varð sem olía á eldinn.

Blair virðist hafa gefið eftir fyrir kröfum Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í Brussel og sagt er að til hvassra orðaskipta hafi komið milli Blairs og Browns í síma síðdegis þar sem þeir fóru yfir stöðu mála. Tony Blair er að mörgu leyti orðinn stórlega skaddaður sem stjórnmálamaður, vald hans og kraftur hefur veikst mjög í gegnum orrahríðir undanfarinna mánaða. Sérstaklega hafa innri væringar innan Verkamannaflokksins veikt hann, en þar er að mestu um að kenna átökum um hversu lengi hann myndi vera við völd.

Svo virðist sem að Tony Blair sé eiginlega dauðfeginn að losna brátt við skyldur stjórnmálaforystunnar. Hann og fjölskyldan munu halda beint í frí á ónefndum stað við Miðjarðarhafið í næstu viku eftir að hann hefur látið af embætti eftir hádegi á miðvikudag. Í Brussel fer lokarimma hans í stjórnmálum þó fram. Á meðan að hann nýtur þar lokaglampans síns á löngum stjórnmálaferli er Gordon Brown þegar byrjaður að setja saman ráðuneyti sitt í London og hefur boðið mönnum utan þings og Verkamannaflokksins ráðherrasæti. Fræg rimma hefur verið vegna þeirra mála milli Browns og forystumanna frjálslyndra.

Tony Blair hefur verið í stjórnmálum í yfir tvo áratugi og í rúman áratug verið maður sem hefur mikil alþjóðleg völd og áhrif. Þeim lýkur senn og stjórnmálaferlinum líka. Það er þó varla við því að búast að hann hverfi úr blossa alþjóðastjórnmálanna, enda er Bandaríkjamönnum sýnilega mikilvægt að halda honum í sviðsljósinu áfram, enda vita þeir hvað þeir höfðu með Tony Blair en ekki hvað þeir fá með Gordon Brown sem á miðvikudag stígur úr skugganum og tekur sæti á hástallinum mikla.


mbl.is Samkomulag milli Þjóðverja og Pólverja um atkvæðavægi innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband