John Prescott hættir - hver verður varaleiðtogi?

John Prescott Gamla verkalýðskempan, John Prescott, varaleiðtogi Verkamannaflokksins, mun í dag hverfa úr forystu flokksins og tilkynnt verður á flokksþingi í Manchester um það hver taki við af honum og verði við hlið Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra, í forystusessi. Brown tekur við forystu Verkamannaflokksins af Tony Blair með formlegum hætti eftir hádegið í dag og mun verða forsætisráðherra eftir hádegið á miðvikudag er Elísabet II hefur veitt honum umboð til stjórnarmyndunar.

Það hefur verið ljóst um langt skeið að John Prescott færi ekki fram í næstu þingkosningum og myndi víkja úr forystu breskra stjórnmála á sama tíma og Tony Blair yfirgæfi sviðið. Það kemur fáum á óvart að Prescott hætti í stjórnmálum. Hann hefur átt erfitt síðustu árin og hafa vandræði hans einkennst af skaðlegum hneykslismálum og innri erfiðleikum í hjónabandi hans. Erfiðasta hneykslið sem skók stjórnmálaferil hans og innviði flokksins var þegar að upp komst rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi vorið 2006 að hann hefði átt í ástarsambandi við ritara sinn á árunum 2002-2004.

Um tíma héldu stjórnmálaspekúlantar í Bretlandi að hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull myndi segja af sér vegna málsins. Svo fór þó ekki. Staða hans veiktist þó gríðarlega eftir kosningarnar, enda svipti Blair hann veigamiklum sess sínum sem ráðherra stjórnsýslu- og sveitarstjórnarmála. John Prescott, sem er fæddur árið 1938, hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi í stað John Smith og hefur frá kosningasigrinum fyrir áratug verið aðstoðarforsætisráðherra Bretlands.

Frá vorinu 2006 hefur hann verið semsagt aðstoðarforsætisráðherra án ráðuneytis, hann varð því eiginlega bara táknræn toppfígúra í forystu Verkamannaflokksins og var þar sem hann var eingöngu vegna þess að hann þurfti hlutverk í ljósi stöðu sinnar. Hann var rúinn allri stöðu í raun. Mikil og harðskeytt umræða hófst reyndar eftir ráðherrahrókeringarnar vorið 2006 þar sem Tony Blair lét hnífinn ganga og slátraði bæði Jack Straw og Charles Clarke um það hvort að Prescott væri hyglað sérstaklega til að hafa hann góðan, enda hefur hann lengi skipt miklu fyrir Tony Blair til að halda vissum kjörnum Verkamannaflokksins stilltum.

John Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum. Einkalíf hans hefur lengi verið honum fjötur um fót. Þó að lengi hefði verið í gangi orðrómur um að hann hafi haldið framhjá konu sinni áttu fáir Bretar von á því sem gerðist í fyrravor og hann stóð þá tæpar en nokkru sinni. Í kveðjuræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins í september 2006 í Manchester bað Prescott flokkinn og félaga sína í forystu hans afsökunar á framferði sínu. Þótti ræðan einlæg miðað við hver það var sem flutti hana, enda hann ávallt haft á sér yfirbragð þess að vera hrjúfur og harkalegur. Hann hefur aldrei verið hinn mildi.

Það berjast sex sterkir þingmenn Verkamannaflokksins um varaleiðtogastöðuna. Það er því búist við að mjótt verði á munum. Alan Johnson, Hazel Blears, Harriet Harmann, Hilary Benn, Peter Hain og Jon Cruddas takast á um þetta veigamikla embætti við hlið leiðtogans. Veðbankar spá menntamálaráðherranum Johnson sigri. Hann hlaut flestar tilnefningar innan þingflokksins í aðdraganda kjörsins og þykir sterkur og sækir stuðning í verkalýðskjarnann rétt eins og Prescott. Hefur Prescott reyndar lýst opinberlega yfir stuðningi sínum við hann. Það hefur þó ekki verið útilokað að Hilary Benn og Harriet Harman næðu þessu.

John Prescott hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands í áratugi. Það verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans. Það er vissulega sjónarsviptir af Prescott nú þegar að hann yfirgefur framlínupólitík og tekur sæti á öftustu bekkjunum það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Hann hefur verið umdeildur og litríkur, og pressan hefur dýrkað að birta alla hans skandala. Það er ekki beint við því að búast að Brown og eftirmaðurinn muni halda því merki hans á lofti.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband