Bloggpælingar

Þegar að vinur minn, Gestur Einar Jónasson, bauð mér í morgunspjall til sín og Hrafnhildar á Rás 2 í mars spurði hann mig að því hvers konar bloggari ég væri og vildi vera þekktur fyrir rétt áður en við fórum í loftið. Ég svaraði því einfaldlega til að ég vildi skrifa um þjóðmál og pælingar um það sem er að gerast. Ég hef mikið skrifað alla tíð um stjórnmál. Það er einfaldlega mér í blóð borið að hafa skoðanir á þeim. Ég kem af fólki með mjög heitar skoðanir, úr víðu pólitísku landslagi, fólki sem tjáir sig afgerandi, og hef alla tíð haft gríðarlegan áhuga á stjórnmálum. Það vita svosem allir sem eitthvað hafa kynnst mér.

Það hefur alla tíð verið þannig að ég skrifa lítið um prívatmál á mínu bloggi. Það hefur alla tíð verið skýrt að hér eru pælingar að mestu útfrá þjóðmálum. Ég byrjaði reyndar að blogga í rólegheitum á blogspot fyrir rúmum fimm árum. Það átti upphaflega að vera lítið og sætt blogg fyrir vini og ættingja, sem vildu heyra í mér hljóðið og lesa skoðanir mínar. Eftir að ég fór að taka að ráði þátt í pólitísku starfi efldist þetta allt og ég opnaði vef fyrir fjórum árum sem lengi var flaggskip mitt á netinu. Það var ómetanlegur tími. Það voru viðbrigði fyrir mig þegar að ég ákvað að hætta að uppfæra hann. Ég held þó í hann enn eins og ég skildi við hann.

Bloggpælingarnar hafa sífellt orðið meira áberandi. Ég fann mér farveg á tveim vefsíðum, bloggpælingum og öflugri prívatsíðu, þar sem ég skrifaði langa pistla vikum saman. Að því kom að mér fannst sá vettvangur búinn. Ég vildi breyta til. Á þessum tíma var ég á krossgötum í pólitísku starfi. Ég varð fyrir vonbrigðum með stöðu mína og ekki síður þá sem ég hafði lengi unnið með í pólitísku starfi og hafði áður treyst. Það varð visst uppgjör hjá mér á þeim tímapunkti og ég ákvað að breyta stórlega til. Í kjölfar þess að standa á þeim krossgötum ákvað ég að hætta virku flokksstarfi að mestu. Það var rétt ákvörðun.

Síðasta haust kom ég hingað. Það var nýr og ferskur vettvangur sem gaf mér mikið. Hér hef ég skrifað um það sem mér hefur dottið í hug og langað að tala um. Þar eru fréttir dagsins í dag og málefni annarra tíma efst á baugi. Ég hef alla tíð haft gríðarlega gaman af að stúdera söguna og þess sést merki hér. Það má vel vera að sumum leiðist þetta sögugrúsk mitt og ennfremur hvernig ég skrifa um það sem er að gerast. Það hefur aldrei staðið til að þetta yrði blogg nær alveg um mig heldur um þau málefni sem ég met mest og hef alla tíð spáð mest í. Þessi vefur hefur verið mér mikilvægur og hér hef ég haft mitt pláss.

Stór þáttur þess hversu góður þessi vettvangur er telst auðvitað það að Mogginn opnar á það að við hér getum kommentað á fréttirnar sem eru í gangi. Það hef ég nýtt mér vel. Það má vel vera að sumum hafi alla tíð fundist ég langorður og fara of ítarlega yfir mál, það er mín ákvörðun og ég haga mínum seglum eftir því sem ég vil. Það að fara hingað á Moggabloggið var rétt ákvörðun og ég hef notið þess mjög að skrifa hér. Því held ég áfram svo lengi sem ég hef áhugann. Það að vera ekki lengur eins tengdur einum stjórnmálaflokki er líka ágætt í sjálfu sér. Ég er ófeiminn við að skjóta á þá sem ég hef unnið með ef ég tel það rétt.

Mín bloggtilvera hér skiptir mig máli og það skiptir mig líka máli að aðrir vilji lesa og skilji eftir komment. Það er vonlaust að vera algjörlega sammála öllum, en þess þá mikilvægara að stofna til málefnalegs spjalls við þá og eins hina sem vilja kommenta. Ég hef alla tíð reynt að vera málefnalegur og sleppt stóryrðum í garð fólks. Þannig var ég alinn upp og það er sá grunnur sem ég hef byggt á. Þannig verð ég alla tíð.

Það voru sviptingar á Moggablogginu um helgina. Nokkrir mætir félagar söðluðu um og yfirgáfu okkur. Það er eftirsjá af þeim. En það kemur ávallt fólk í skörðin sem losna. Sjálfur vil ég vera hér, þetta er vettvangur sem ég vil nýta mér og tel mig hafa fundið þann stall sem ég vil sjálfur halda áfram. Þeim sem hafa hætt hér vil ég þakka bloggvináttuna, en henni er nú sjálfhætt eftir að vefir þeirra dóu hér. Ég fylgist með þeim áfram á nýjum blogglendum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Tómasson

Já það er mikil eftirsjá af þeim!!!

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 24.6.2007 kl. 02:47

2 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Haltu þínu striki Stefán, það er gaman að lesa það sem þú skrifar.

Rúnar Birgir Gíslason, 24.6.2007 kl. 08:08

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin, þakka þér sérstaklega fyrir góð orð Rúnar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.6.2007 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband