Gordon Brown tekur við af Blair sem flokksleiðtogi

Gordon BrownGordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, hefur tekið formlega við leiðtogahlutverkinu í Verkamannaflokknum af Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra, eftir þrettán ára napra bið á hliðarlínunni eftir fullum völdum og áhrifum. Gordon Brown var á sínum tíma í huga margra hinn eini sanni arftaki læriföður síns, skotans John Smith, er hann varð bráðkvaddur fyrir þrettán árum en þá ákvað hann að leyfa Tony Blair að fá tækifærið gegn samkomulagi um að hann tæki síðar við.

Seint og um síðir, og eftir fræg svik og stingandi kulda í samskiptum þeirra, er nú komið að valdaskiptunum, sem allir hafa í raun beðið eftir frá kjöri Blairs. Það varpar reyndar miklum skugga á þennan sögulega dag fyrir Verkamannaflokkinn er sigursælasti leiðtogi hans kveður flokksforystuna og býr sig undir að flytja úr Downingstræti að leki út upplýsingar um að hann hafi viljað sparka Brown úr fjármálaráðuneytinu, þar sem hann hefur ríkt á ellefta ár, í aðdraganda þingkosninganna 2005, er samskipti þeirra voru við frostmark. Brosin á andlitum Blairs og Browns virkuðu þó sönn áðan.

Gordon Brown er í þessum skrifuðum orðum að lýsa framtíðarsýn sinni fyrir bresku þjóðina og flokkinn sem hann hefur loks fengið tækifærið til að leiða í ræðu í Manchester, þetta er löng ræða og vægast sagt vel undirbúin. Gordon er búinn að bíða lengi og var orðinn úrkula vonar um tíma, taldi að sótt yrði að sér úr herbúðum forsætisráðherrans fráfarandi. Að lokum fór svo ekki, það var ekki lagt í átök og sundrungu í aðdraganda brotthvarfs Blairs. Eflaust réði þar miklu sífellt versnandi staða Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum og tilkoma nýs og sigurstranglegs leiðtoga í Íhaldsflokknum, sem virðist vera að rísa úr öskustónni eftir afhroðið mikla 1997 og töpin skaðlegu 2001 og 2005. Brown var sá eini sem blasti við og átök við hann hefðu getað skaðað kjarna flokksins svo mjög að næstu kosningar væru fyrirfram tapaðar.

Það má búast við miklum breytingum í breskum stjórnmálum á næstu dögum. Endalok stjórnmálaferils Tony Blair, sem hefur ríkt sem risi í pólitísku landslagi Bretlands frá kosningasigrinum sögulega 1997, boðar þáttaskil fyrir flokk og þjóð. Þrátt fyrir að vera flokksfélagar og um margt samherjar í verkum áranna tíu eru þetta tveir gjörólíkir menn. Verklag þeirra og kraftur er ólíkur og það verða miklar breytingar fyrir bæði flokkinn og þjóðina að fylgjast með þessum valdaskiptum. Búast má við að Brown muni sem forsætisráðherra stokka stjórnina upp mjög róttækt, valdamiklum ráðherrum Blair-tímans, sem ekki þegar hafa yfirgefið sviðið, verður sparkað og þeir sem trúastir hafa verið Skotanum fá tækifæri sem þeir fengu aldrei áður.

Gordon Brown mun sækjast eftir því sem flestir hafa talið ómögulegt um nokkuð skeið, að tryggja fjórða kjörtímabil Verkamannaflokksins við völd í Downingstræti og leika eftir sögulegan árangur Íhaldsflokksins sem ríkti í fjögur tímabil, í átján ár, 1979-1997. Gordon Brown er þó allt annar stjórnmálamaður en Sir John Major var. Major var uppfylling þegar að Thatcher missti fótanna og um margt málamiðlun ólíkra hópa. Það er Gordon Brown ekki. Sem forsætisráðherra mun hann njóta þess að hafa gert flokkinn að sínum stig af stigi og haft óskorað traust til að taka við, þó ekki allir dýrki hann út af lífinu. En það reynir nú á Skotann þegar að hann sækist eftir umboði.

Eftir áratugavist sem maður skuggans á bakvið John Smith og Tony Blair er Gordon Brown nú orðinn einn valdamesti maður heims og leiðir nú bresk stjórnmál. Það er verkefni sem hann hefur þjálfað sig fyrir allt frá því að hann var undir leiðsögn Smiths forðum daga. Nú reynir á hvort að hann hefur það sem hann þarf. Beið hann of lengi eftir völdunum. Það er spurning sem allir spyrja sig að. Svarið ætti að fást fljótlega í forsætisráðherratíð hans og öllum er ljóst að kosningarnar 2009 eða 2010 verða spennandi átök um völd og pólitíska framtíð risanna Brown og Cameron. Aðeins annar brosir þær kosningar af sér.


mbl.is Gordon Brown orðinn flokksleiðtogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dunni

Kanski má líkja sambandi Blair og Brown við samband Steingríms og Halldórs.   Steingrímur og Blair voru lengstum vinsælir flokksleiðtogar þó Blair hafi misstigið sig í Íraksfárinu.

Hvorki Hallfór eða Brown notið jafn mikilla vinsælda og leiðtogar þeirra  gerðu. Í þokkabót var Brown svikull og rak hnífinn í bak Blairs oftar en einu sinni.

Ég yrði ekki undrandi þó Brown kláraði Verkamannaflokkinn á sama hátt og Halldór Framsóknarflokkinn.  

Dunni, 24.6.2007 kl. 16:59

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

þetta eru góð tíðindi - þetta er eitt skref í áttina að því að íhaldsflokkurinn vinni næstu kosningar og það gleður mig óskaplega mikið

Óðinn Þórisson, 24.6.2007 kl. 17:51

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir gott komment Dunni. Já, nú reynir á Brown. Annaðhvort er hann snillingurinn sem reddar öllu á síðustu stundu fyrir kratana þegar að Blair er farinn eða verður dæmdur sá sem klúðraði endanlega öllu. Erfitt hlutskipti pottþétt framundan fyrir hann. Ég tel að þetta muni ráðast fljótlega, af því hvernig hann höndlar völdin í flokknum og ólíku hópana innan hans. Þar liggur svarið að því hvort hann getur haldið haus í næstu kosningum. Finnst þó líklegra en ekki að Cameron vinni eftir tvö ár.

Takk fyrir kommentið Óðinn. Já, ætla rétt að vona það. Væri mjög gott að fá Cameron til valda. Öflugur maður nýrra tíma, annað en Brown sem er skuggi liðinna tíma, að mínu mati allavega, þó að hann sé auðvitað klár og duglegur maður.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.6.2007 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband