Lifir samband Vilhjálms og Kate af sér storminn?

William og Kate Það var mjög áhugavert að sjá á Skjá einum í gærkvöldi nýtt bandarískt viðtal við bræðurna Vilhjálm og Harry, sem tekið var í minningu þess að áratugur er liðinn frá því að móðir þeirra, Díana, prinsessa af Wales, lést í bílslysi, í kastljósi fjölmiðlanna í heimsborginni fögru París. Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það sé orðinn áratugur síðan að Díana dó. Það var svipleg endalok á miklum fjölmiðlahasar á eftir Díönu. Hún dó, rétt eins og hún lifði, í myndavélablossa. Kaldhæðnin verður ekki sorglegri en það tel ég í raun og veru.

Vilhjálmur og Harry voru í erfiðum sporum fyrir áratug. Ekki aðeins þurftu þeir að kveðja móður sína án þess að geta í raun kvatt hana í sjálfu sér áður en hún dó, heldur þurftu þeir að syrgja í kastljósi fjölmiðla. Þar var enginn friður í raun. Dauði Díönu varð svo mikill fjölmiðlahasar í sjálfu sér að sorg í einrúmi, sem flestir telja sjálfsagðan og eðlilegan hlut eftir að nákominn ættingi deyr í skelfilegu slysi, varð ekki valkostur. Þeir náðu þó að bera þessar þungu byrðar aðdáunarlega vel og sérstaklega var Vilhjálmur sterkur þetta sumar. Hann hefur þó þurft að lifa síðan í sama fjölmiðlahasarnum og mamma hans var partur af allt til hinstu stundar.

Það var alltaf viðbúið að fjölmiðlar myndu fylgja Vilhjálmi eftir hvern spöl ævinnar allt frá því að hann yrði átján ára gamall og sérstakt samkomulag Karls, föður hans, við fjölmiðla eftir móðurmissinn rynni út. Það reyndist raunin sérstaklega þegar að hann varð ástfanginn af Kate Middleton og sóttist eftir sambandi við hana og ræktaði það. Það varð kaldhæðnislegt hversu fjölmiðlar hundeltu Kate hvert spor daglega lífsins eftir að sambandið varð opinbert. Kaldhæðnislega var flótti hennar undan ágengnum ljósmyndurum og fréttamönnum áberandi líkt því sem Díana þurfti að lifa við í tilhugalífinu með Karli prins.

Díana kvödd Að því kom að sambandið bognaði og þau gáfust upp. Það var vissulega skiljanlegt. Það er ekki öllum gefið að brosa sig í gegnum þennan ömurlega fylgifisk frægðar og eða þess hlutverks sem fylgir ævihlutverki Vilhjálms. Hann er ekki aðeins prins með skyldur. Hann er framtíðarþjóðhöfðingi Englands og mun fyrr en síðar takast á hendur skyldur þjóðhöfðingjans.

Hvort að það gerist við fráfall ömmu hans eða föður er ómögulegt um að segja í raun á þessari stundu, en það er greinilegt á skoðanakönnunum þó að Bretar hafa alla tíð viljað að hann tæki við af Elísabetu II. Það var ennfremur ósk móður hans sem gerði upp við alla kergjuna í garð Karls í ógleymanlegu viðtali tveim árum áður en hún dó.

Það var mjög ánægjulegt að sjá frétt um það að Vilhjálmur og Kate ætla að reyna aftur. Vonandi tekst þeim að rækta líf í þessum myndavélablossum sem hlýtur að vera þungbær fylgifiskur þess lífs sem fylgir væntanlegum krónprinsi Englands. Það er líf sem enginn getur flúið sama hversu þungt það getur orðið.

Að mínu mati hefur Vilhjálmur eflst við hverja raun. Hann er lifandi eftirmynd Díönu og virðist hafa erft stillingu hennar og tignarlegan þokka, sem faðir hans hefur aldrei haft til að bera. Hann á eftir að verða glæsilegur kóngur, fyrr en síðar.

mbl.is Vilhjálmur og Kate saman á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er heillandi ungur maður sem hefur þurft að reyna allt of mikið a stuttri ævi, ég óska honum alls hins besta og að hann fái sitt persónulega rými til að finna ástina og halda henni.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.6.2007 kl. 19:38

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Sá viðtalið við strákana konunglegu.  Var hrifin af því hversu "venjulegir" og notalegir þeir bræður voru.  Komu skemmtilega á óvart.

Sigríður Sigurðardóttir, 24.6.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband