25.6.2007 | 02:17
Nýtt upphaf fyrir vinstriflokk á krossgötum
Ný forysta hefur tekið við völdum í breska Verkamannaflokknum. Það verður þó seint sagt um Gordon Brown og Harriet Harman að þau séu ferskustu andlitin í breskum stjórnmálum, en kjör þeirra markar þrátt fyrir það algjöra uppstokkun í forystusveit flokks sem hefur verið við völd í áratug og þarf svo sannarlega að stokka sig rækilega upp til að eygja möguleika á að halda völdum fjórða kjörtímabilið í röð, eftir ýmis vandamál og skandala sem hefur fylgt honum á vegferð síðustu ára.
Þrátt fyrir það leikur auðvitað enginn vafi á því að það eru þáttaskil sem fylgja brotthvarfi Tony Blair og John Prescott úr forystusveit breskra stjórnmála. Þeir hafa báðir helgað sig pólitísku starfi áratugum saman og verið lykilmenn valdaskeiðs flokksins og leiddu hann til valda, vissulega með hjálp annarra. Þeir voru ólíkt teymi í forystu en höfðu sinn hvorn kjarnann sem máli skipti til að halda jafnvægi innan flokksins. Engu að síður má segja með sanni að þeir hafi báðir verið búnir að upplifa sitt besta pólitískt fyrir löngu og verið orðnir mjög þreyttir. Hneykslismál hafa fylgt lengi Prescott og Blair er orðinn mæddur eftir hæðótta gleðiferð valdanna.
Nafn Tony Blair mun verða áberandi í breskri sögu, þó að hann hafi verið umdeildur stóran hluta valdaferilsins. Líkt og Margaret Thatcher afrekaði hann að ríkja í rúman áratug, sigra í þrennum þingkosningum og hafa níu líf kattarins, en missa þó fótanna illa þegar að þeim sleppti. Blair mun ennfremur fá þann sess að hafa verið sigursælasti leiðtogi flokksins. John Prescott var lykilmaður úr verkalýðskjarnanum í Hull og vann sig ötullega áfram í eyðimerkurtíðinni nöpru í leiðtogatíð Neil Kinnock og síðar í undirbúningi gullaldaráranna eftir tapið auðmýkjandi 1992 við hlið John Smith, Tony Blair og Gordon Brown. Þegar að Smith dó komst Prescott til forystu.
Gordon Brown hefur beðið lengi eftir tækifærinu til að leiða flokkinn sinn. Nú þegar að Blair hverfur af sviðinu reynir á hann og hvernig honum gangi. Hann tekur við veiku búi, þrátt fyrir að hann taki við starfhæfum þingmeirihluta og rótgrónum valdaflokki. Hann horfir fram á að Tony Blair hefur skilið eftir sig svo sviðna pólitíska jörð eftir tíu ára valdaferil að varla stendur steinn yfir steini. Hann tekur í arf óvinsælar ákvarðanir, vonsvikna þjóð, skaðleg hneykslismál og klofinn flokk sem hefur mjög lengi horft í fylkingamyndum til framtíðar. Enn eru þeir til sem telja að Brown geti ekki unnið kosningar - hann sé ekki sterkur leiðtogi. Nú reynir á hvað hann getur gert.
Gordon Brown er vissulega vandi á höndum þegar að hann flytur í Downingstræti 10 á miðvikudag og losnar loksins við Tony Blair úr pólitísku lífi sínu, eftir að hafa beðið árum saman eftir að ná að byggja sig upp til valda án hans. Hann mun eflaust velja nýtt fólk til áhrifa og stokka hlutina upp með mjög áberandi hætti. Ég held að það sé óhætt að búa sig undir gjörbreytta ríkisstjórn Verkamannaflokksins síðar í vikunni þar sem mörg traustustu Blair-nöfnin fjúka til hliðar eða hafa hætt og þeir sem helst hafa fylkt Skotanum fá umbun erfiðisins, sæti við skör meistara síns. Það er viðbúið að Verkamannaflokkurinn fari aftur í ræturnar sínar, horfi meira til vinstri og stokki sig upp til að eygja von á að vinna í næstu kosningum. Þar er stærsta verkefni Browns.
Harriet Harman vann varaleiðtogastöðuna mörgum að óvörum. Hún er sjóaður pólitíkus sem hefur bæði upplifað gullna og dimma daga pólitískt. Hún var í fyrsta ráðuneyti Tony Blair vorið 1997 en var látin gossa ári síðar, féll í ónáð og var sparkað út í horn eins og hverju öðru rusli sem ekki þóknaðist forsætisráðherranum. Hún beið þó af sér vondu tímana en hefur síðan verið algjör hliðarkarakter í raun að margra mati. Framboð hennar í varaleiðtogastöðuna vakti athygli í ljósi alls sem á undan er gengið. Það að henni tækist að sigra Alan Johnson vekur mikla athygli og það mátti sjá undrunarsvip á flestum á staðnum. Naumur var þó sigurinn og Johnson átti erfitt með að brosa í gegnum tárin. Pólitísk upprisa kjarnakonunnar Harman eru mikil tíðindi svo sannarlega.
Gordon Brown og Harriet Harman virka sterkt tvíeyki sem vegur hvort annað upp. Hann hefur skosku ræturnar og hefur sterkt umboð úr þeim kjörnum sem eru mikilvægir þar og víðar um lönd. Hún er þingmaður á Londonsvæðinu og er frá suðurhluta landsins. Þau falla því vel saman og virka sterk blanda, þó að bæði hafi verið á pólitísku landakorti um langt skeið og komi varla mjög að óvörum sem stjórnmálamenn í framlínu. En kannski geta þau skilað árangri saman. Það er greinilegt að Brown lagði drögin að því að Harman yrði við hlið hans og öðrum fremur getur Harriet Harman þakkað Skotanum tækifærið. En ætlar Brown henni öflugt ráðuneyti og veigamikinn sess eða bara að vera verkamaður innra starfsins bakvið tjöldin. Það ræðst á miðvikudag.
Það eru spennandi tímar í breskum stjórnmálum. Þrátt fyrir að Gordon Brown hafi brosað breitt og notið sín í botn í Manchester um helgina hlýtur hann samt að vera hugsi yfir því að hann varð leiðtogi flokksins án kosningar. Það hafði enginn afl til að leggja í hann og enginn gat látið reyna á stöðu sína gegn honum. Blokkirnar sömdu einfaldlega frið til að eygja von á að halda völdunum í næstu kosningum. Það er vissulega merkilegt að Gordon Brown verður forsætisráðherra á fundi hennar hátignar drottningar á miðvikudag án þess að hafa hlotið kjör flokksmanna sem flokksleiðtogi né þjóðarinnar sem forsætisráðherra, þó vissulega hafi hann verið lykilspilari í kosningasigrinum 2005.
Gordon Brown hefur loksins fengið það sem hann vildi. Gangan að völdunum varð auðveld er á reyndi. Blair-armurinn lagði niður skottið og sætti sig við ægivald hins snjalla plottmeistara pólitískrar refskákar. Nú sitja helstu andstæðingar hans á valdaferli Tony Blair innan Verkamannaflokksins við fótskör hins nýja húsbónda og bíða eftir því að sjá hver örlög þeirra verða. Brown fékk krýninguna sem hann vildi. Sir John Major varð þrátt fyrir allt þó forsætisráðherra árið 1990 eftir flokkskjör um leiðtogastöðuna, hann varð að leggja tvo keppinauta á vegferð sinni til að taka við af Margaret Thatcher, þótt honum tækist aldrei að leiða bresk stjórnmál án hjálpardekkja.
Brown gengur rauða dregilinn að Downingstræti 10 eins og konungur á leið í krýninguna sína. Engin keppni né átök þurfti til, þó að pústað hafi bakvið tjöldin oftar en tölu verði á komandi á síðustu fjórum árum. En nú reynir á hann, ella verður að honum sótt. Hann veit sem er að tap eftir tvö ár gengur frá ferli hans. Hann mun reyna allt til að halda völdum. Að mörgu leyti minnir hann marga, þar á meðal mig, á Francis Urquhart í frægum sjónvarpsþáttum í túlkun Sir Ian Richardson. Ekki er hann allavega síðri plottari. En mun allt plottið skila árangri er á hólminn kemur?
Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við þegar að Tony Blair keyrir út í hið pólitíska sólarlag frá drottningunni á miðvikudag og Gordon Brown losnar við þann sem hélt honum á hliðarlínunni lengur en hann vildi. En mun skuggi Blair fylgja áfram? Verður hann sem vofa á alþjóðavettvangi í nýju hlutverki prómóteraður af Bush-stjórninni? Það verður fróðlegt að fylgjast með forsætisráðherratíð Gordon Brown og öllu því sem gerist í aðdraganda þingkosninganna þegar að Davíð Cameron reynir að fella hinn skoska golíat.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:35 | Facebook
Athugasemdir
Bjart framundan í Bretlandi. Sagnfræðingur orðinn forsætisráðherra!!!
Snorri Bergz, 25.6.2007 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.