Boðar Gordon Brown fljótlega til kosninga?

Gordon Brown Það yrði mjög klókt hjá Gordon Brown, leiðtoga Verkamannaflokksins og verðandi forsætisráðherra Bretlands, að efna til kosninga í Bretlandi fyrr en síðar. Það hlýtur að vera nýjum forsætisráðherra ofarlega í huga að reyna að sækjast eftir eigin umboði til valda. Það kemur ekki að óvörum að þessi orðrómur hefur kviknað strax eftir að Brown tók við leiðtogahlutverki flokksins af Tony Blair og bíður eftir forsætisráðherratigninni. Það er fyrirsjáanlegt bragð fjölmiðla til að spinna atburðarás.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, var reyndar skotfljótur og taktískur við að hugsa þennan leik til enda og gaf út sérstaka yfirlýsingu svo til um leið og Sky og BBC hófu fréttaflutning um þennan orðróm um kosningar fljótlega til að fagna sérstaklega því að Brown hugsaði um að sækjast eftir eigin umboði og benti á að Gordon Brown yrði forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins án þess að hljóta eitt einasta atkvæði, hafa fengið embættin því sem næst á silfurfati í raun, þrátt fyrir áralanga plottvinnu vissulega á bakvið tjöldin. Með því sló hann vopnin úr höndum Brown, hafi hann þ.e.a.s. lekið þessu sem er ekki víst reyndar.

Það eru aðeins tvö ár frá síðustu þingkosningum í Bretlandi. Í aðdraganda kosninganna 2005 hét Tony Blair því að gegna embætti forsætisráðherra út þriðja kjörtímabilið, sem hann var kjörinn til að gegna leiðtogahlutverki í. Hann gat ekki staðið við þau orð vegna innri ólgu innan Verkamannaflokksins og allt að því uppreisn Brown-manna og lykilaðila tengdum þeim gegn honum á bakvið tjöldin. Flauelsbylting var í raun gerð gegn Blair í september 2006 og hann gaf upp tímaramma endalokanna sér mjög á móti skapi. Stór þáttur þessa var auðvitað veikur þingmeirihluti en Blair missti ægivald sitt um leið og kosningaúrslitin lágu fyrir í maí 2005. Þau þýddu að tími hans sem hins sterka væri í raun lokið. Það fór enda svo.

Það er reyndar að mínu mati nokkur fjarstæða að telja Gordon Brown með öllu umboðslausan stjórnmálamann er hann tekur við forsætisráðherraembættinu af Tony Blair. Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari kosninganna vorið 2005 merkilegt nokk, en ekki Tony Blair, eins og í hinum tveim kosningasigrum flokksins. Blair leiddi vissulega flokkinn áfram til valda í hið sögufræga þriðja kjörtímabil en hann var ekki sá sem varð aðalstjarnan í raun, eins merkilegt og það hljómar. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Hann fylgdi Blair eftir hvert fótmál og var sá sem mesta athyglin snerist um.

Segja má að Gordon Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu, einkum var hann þakinn nöprum skuggum Íraksstríðsins, og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum. Þetta var merkileg þróun í ljósi þess hvernig Blair var alla tíð fram að því aðalsegull flokksins á kjósendur. Nú varð hann hinsvegar eins og aðskotahlutur. Flokkurinn vissi varla hvernig ætti að auglýsa hann upp og beindu því miðpunktinum að mestu annað og fengu Brown fram í sviðsljósið með Blair.

Eitt merkilegasta slagorð kosningabaráttunnar 2005 í huga gárunganna varð enda; Vote Blair – Get Brown. Svo fór að lokum. Blair gat ekki setið til enda vegna óvinsælda sinna og veikrar stöðu á öllum vígstöðvum. Svo fór að kjósendur fengu Brown. En þrátt fyrir það tekur Gordon við embættinu í krafti kosningasigurs sem verður alla tíð tengdur Tony Blair með einum hætti eða öðrum. Það gæti þó orðið tvíeggjað sverð að boða til kosninga, svo skömmu eftir vond úrslit í byggðakosningum, þó kannanir sýni einhverja bylgju með Brown sem skiljanlegt er með Blair á útleið.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Skotinn gerir. Gordon Brown hefur alla tíð reynt að sjá fyrir marga leiki í einu í refskák stjórnmálanna. Þar er hann snillingur. Hann mun eflaust ekki ana að neinu, þó það kitli hann eflaust að leita eftir umboði og reyna með því að snúa hlutunum æ meir sér í hag. Á meðan reynir Davíð Cameron að fella skoska golíatinn. Þetta verða spennandi tímar sem taka við með brotthvarfi Blair og allra augu verða á því hvenær þingkosningar verða í raun. Þar liggur stóra spurningamerkið í upphafi forsætisráðherraferils Gordons Brown.

Ready to serve - skemmtileg klippa

mbl.is Cameron hvetur Brown til að boða til kosninga strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband