Sáttasemjarinn Tony Blair hættir þingmennsku

Tony Blair Það er nú ljóst að Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, mun verða skipaður sérlegur sáttasemjari í málum Mið-Austurlanda á morgun og segir af sér þingmennsku í kjölfarið eftir að hafa látið af embætti forsætisráðherra á fundi með drottningu í Buckingham-höll eftir hádegið á morgun. Um leið og þeim fundi lýkur mun hann sem óbreyttur þingmaður fljúga til Sedgefield og tilkynna afsögn sína af þingi á fundi með flokksfólki á svæðinu. Tony Blair hefur setið á breska þinginu í nafni Sedgefield í 24 ár, eða allt frá árinu 1983.

Á þessari stundu mun forsætisráðherrann fráfarandi vera að ljúka við flutninga sína frá Downingstræti á nýtt heimili sitt í Connaught Square í London. Þar voru haldnir fundir síðdegis og undir kvöld þar sem unnið var, bakvið tjöldin, að skipulagi morgundagsins, svo lítið bæri á og Blair sat fundi með lykilmönnum til að undirbúa pólitísk endalok sín. BBC hefur flétt hulunni af þessari strategíu allri í kvöld. Blair mun sitja fyrirspurnartíma forsætisráðherra í þingsal í Westminster í hádeginu á morgun og svara spurningum samkvæmt venju. Þar flytur hann sína síðustu þingræðu og fer þaðan beint til drottningar til að biðjast lausnar.

Fundurinn í Sedgefield var svo fastsettur síðdegis eftir að staðfesting á boði um sáttasemjarahlutverkið barst. Það er öllum ljóst að fundur er ekki boðaður í Sedgefield síðdegis daginn sem Blair lætur af völdum nema af einni ástæðu og það augljósri. Ákvörðun liggur fyrir um vistaskipti hans og öllum er ljóst að Tony Blair verður ekki óbreyttur þingmaður með þessu hlutverki.
Það hefur verið vitað nær alla tíð að Tony Blair myndi hætta í stjórnmálum um leið og hann léti af forsætisráðherraembættinu. Sjálfur hefur hann þó gefið í skyn og gerði það í Sedgefield 10. maí sl. er hann tilkynnti um endalokin í Downingstræti að hann yrði mögulega áfram þingmaður.

Það verður því ekki mikið um frí hjá Tony Blair þó að stjórnmálaferli hans ljúki síðdegis á morgun. Ekki vantar verkefnin fyrir sáttasemjara í Mið-Austurlöndum. Allt tal um frí fyrir nýjan sáttasemjara er enda ekki á dagskrá og væntanlega mun Blair halda strax til verka á nýjum vettvangi. Það verður fróðlegt fyrir þá sem hafa fylgst með breskum stjórnmálum alla pólitíska tíð Tony Blair og vanist honum sem þingmanni og forystumanni í flokki og ríkisstjórn að sjá hann sem diplómatsefni á öðrum vettvangi. En á meðan á því stendur reynir á Brown að halda sæti Blairs í Sedgefield, þar sem verða aukakosningar fljótlega.

Bresk stjórnmál fá væntanlega á sig annan blæ með brotthvarfi Tony Blair sem hefur verið risi á þeim vettvangi í raun allt frá leiðtogakjörinu sumarið 1994, enda þá strax ljóst að hann yrði nær örugglega forsætisráðherra. Ferill hans í Downingstræti 10 var litríkur, en engu að síður var hann sterkur leiðtogi lengst af, hann vildi hafa full völd og naut þeirra mjög lengi vissulega. Hann hefði aldrei unað sér sem óbreyttur þingmaður í liði Gordon Brown og tekur því nýtt tækifæri fegins hendi.

Eflaust mun skipan Blairs í verkefnin í Mið-Austurlöndum verða umdeild með sama hætti og öll hans verk á undanförnum árum. En nú verða vistaskipti og nú reynir á Blair á nýjum vettvangi, fjarri öllum skarkala þess sem gerist í London. Nýtt hlutverk Tony Blair mun verða í miðpunkti allra fjölmiðla, þeim blóma sem hann hefur notið sín alla tíð best í. Fyrir Tony Blair verða vistaskiptin því ekki mikil. Enn mun hann skipta máli... þökk sé George W. Bush, auðvitað.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband