Tony Blair hylltur að pólitískum leiðarlokum

Tony Blair Ég hef aldrei farið leynt með það að ég var mjög hrifinn af Tony Blair sem stjórnmálamanni, sérstaklega í upphafi. Hann kom auðvitað til valda á ótrúlegri bylgju stuðnings og var sem risi á vettvangi breskra stjórnmála mjög lengi. Honum entist ótrúlega vel á pólitísku lífunum níu og átti jafnvel til staðar fleiri en bara þau. Hann kom sem ferskur vindblær vorið 1997 og gerði stöðuna að sinni. Hann varð táknmynd nýrra tíma og persónugerði þreytuna í garð Íhaldsflokksins að sinni og var augljóst mótvægi nýrra tíma við þá eldri. Íhaldsflokkurinn átti aldrei séns þetta vor breytinganna. Það var bara þannig.

Ég dáðist mjög að hlutverki hans í kjölfar dauða Díönu. Hann lét gamlar hefðir og venjur lönd og leið og lagði til verka við að minnast hennar, þó að greinileg kergja væri bakvið tjöldin. Ég fer aldrei ofan af því að glæstasta stund Tonys var þegar að hann ávarpaði bresku þjóðina í Sedgefield að morgni 31. ágúst 1997. Sú ræða súmmaði algjörlega upp stöðuna. Hún var örlagavaldur. Hún kom af stað bylgjunni miklu sem síðar var nærri búin að taka með sér Elísabetu II og granda lykilstöðu hennar, í ljósi þess að hún lét ekki segjast og hélt til London til að halda utan um þjóð í sorg. Hún áttaði sig seint og um síðir. Ég er þess fullviss að ef Blair hefði ekki leiðbeint hinni lífsreyndu drottningu þessa haustdaga hefðu gullnu dagar hennar liðið undir lok.

Margir hafa spurt sig hvort að Tony Blair hafi verið að reyna að leika Margaret Thatcher allan sinn stjórnmálaferil. Að vissu marki má segja það. Hann auðvitað gjörbreytti Verkamannaflokknum. Hann á þó ekki heiðurinn af því einn. Þar átti John Smith lykilþátt ennfremur en honum entust ekki lífsins dagar til að koma því í framkvæmd. Blair gerði stefnuna að sinni og fullkomnaði hana. New Labour var skothelt plagg í kosningunum 1997 og það var grunnur nýrra tíma. Þó gengið hafi svona og svona er öllum ljóst hvaða áhrif breytingarnar vorið 1997 höfðu. Blair var auðvitað aldrei verkalýðskrati eða kommi. Hann var hægrikrati sem hélt flokknum á miðju og gat höfðað til hægrimanna. Þar lá stærsta farsæld flokksins.

Tony Blair ríkti lengi. Sama hversu molnaði undan honum var komið í veg fyrir hrapið á þeim stað sem hættulegastur var og hann náði alltaf að bjarga sér. Undir lokin varð staðan vissulega mjög erfið en það er auðvitað aðdáunarvert hversu vel honum tókst að halda lykilstöðu. Meira að segja tókst honum, þvert á flestar spár, að bjarga sér frá nöprum endalokum eftir sjálfsmorð dr. Davids Kelly, sem var auðvitað hreinn harmleikur pólitískt og persónulega, Cash-for-honours fíaskóið og síðast en ekki síst tapið auðmýkjandi í þinginu í nóvember 2005. Í síðastnefnda tilfellinu stóð hann sennilega tæpast, enda var naumur þingmeirihluti honum skaðlegur enda höfðu andstæðingarnir í flokknum hann í spennitreyju.

Tony Blair fer þreyttur frá völdunum. Það blasir við öllum. Það var samt ótrúlega öflug stund í breska þinginu í gær þegar að hann var hylltur af nær öllum þingmönnum, meira að segja af þeim sem harðast hafa barist við hann. Þetta eru auðvitað tímamót, enda var Blair forsætisráðherra í áratug og hafði barist við fimm leiðtoga Íhaldsflokksins á tíu árum sínum sem forsætisráðherra. Í því kristallast sterk staða Blairs sem og auðvitað skelfileg staða Íhaldsflokksins sem nú fyrst er að ná vopnum sínum. Mér fannst Blair eiga skilið hyllingu við leiðarlok. Þar var ekki spurt að pólitískum línum. Sérstaklega var kveðja Ian Paisley til Blairs mikil tímamót og vakti athygli. Ennfremur talaði David Cameron virðulega um Blair.
 
Hvað svo sem segja má um Tony Blair má þó fullyrða að hann var aldrei mikill maður þingsins. Hann þoldi ekki gamlar hefðir breska þingsins og reyndi að forðast sem mest umræður þar og starfið þar, meira að segja á meðan að hann var í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins fram til 1997. Þetta var ekki besti vettvangur hans. Það kemur því varla að óvörum að hann kveðji þingið um leið. Ég held að hann hefði fúnkerað illa við hlið vinstrisinnuðustu þingmannanna á öftustu bekkjunum sem gerðu honum lífið hvað mest leitt undir lokin. Það hefur reyndar ekki gerst frá dögum Sir Anthony Eden að forsætisráðherra fari um leið af þingi. Það er lítil sem engin hefð fyrir því að slík vistaskipti verði um leið.

Í ósigri eða endalokum getur mesti sigurinn falist. Þetta kom vel fram þegar að Margaret Thatcher var í raun sett af sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru nöpur endalok. Daginn sem hún sagði af sér leiftraði hún af fjöri og orðfimi sem aldrei fyrr í þingumræðum. Flestir sem upplifðu að sjá þann dag muna eftir henni berjast af fimi við Neil Kinnock, í bláu dragtinni sinni og sennilega með flottustu hárgreiðsluna. Þrátt fyrir niðurlægjandi endalok gat hún gert stund endalokanna að sínum og náði að bægja frá mestu gagnrýni. Þetta tókst líka Tony Blair á stund endaloka. Hann stjórnaði þeim og var klappaður upp eins og leikari eftir sinn glæsilegasta leiksigur.

Gordon Brown er enginn Tony Blair. Þeir eru gjörólíkir eins og dagur og nótt. Það á eftir að sjást enn betur þegar að nýji húsbóndinn í Downingstræti sýnir á spil sín, betur en nú þegar hefur gerst. Tony Blair var pólitískt sjarmatröll sem heillaði jafnvel andstæðinga sína með ótrúlegum hætti fyrir áratug, að vissu marki með því að kasta streng yfir til þeirra og eigna sér hluta fylgis þeirra til að komast sjálfur til valda. Brown er maður af öðru tagi.

Þrátt fyrir óvinsældir síðasta kastið fer kannski svo að menn sakni bráðum sjarmatröllsins Tony Blair. Hver veit. Allavega var hylling hans að leiðarlokum sönn, bæði í tilliti eftirsjár og gleði.

Tengdir pistlar SFS
Áratugur frá kosningasigri Verkamannaflokksins
Þáttaskil framundan í Verkamannaflokknum
Martröð í Downingstræti
Fjarar undan Tony Blair
Líður að lokum hjá Tony Blair

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik !

Hvernig, í ósköpunum dettur þér í hug, að lofa og prísa þetta erkifífl, og margafaldann hræsnara, jah..... eru nú Eyfirzkir orðnir meyrir; eða hvað ?

Ef einhver stjórnmálamaður, á Vesturlöndum; ætti skilinn titilinn kjölturakki bandarískrar heimsvaldastefnu, þá er það þessi háloflegi fyrrum kanslari (forsætisráðherra) Breta.

Bezt hefði þó verið, af öllu; að heimsbyggðin losnaði; sem allra fyrst, við brjálæðing þann, hver nú situr að völdum, í Washington; af valdastóli, áður hann gjöri enn meiri óskunda en þó er orðinn.

Svona,, Stefán minn, farðu nú að ná almenni legu jarðsambandi. Himnarnir hrynja nú ekkert, þótt sjaldnar bregði glotti Tony´s Blair fyrir, á sjónvarps- og tölvuskjám heimsins.

Með beztu kveðjum, norður yfir heiðar / Óskar Helgi Helgason    

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 15:25

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Tony Blair var auðvitað pólitískur snillingur. Það ríkir enginn samfellt í landi á við Bretland í áratug nema hafa kjarnorkukraft og snilli til að bera. Þá snilld hafði Thatcher. Ætla þó ekki að líka þeim saman, en Blair var ótrúlega öflugur. Það hvernig honum tókst að halda óþægu örmunum í Verkamannaflokknum niðri og þetta lengi er pólitískt afrek. Hann var orðinn þreyttur stjórnmálamaður og hættir þrátt fyrir allar lægðirnar með glæsilegum hætti. Það sást og sannaðist af klappinu í breska þinginu í gær. Ekki einu sinni Thatcher fékk svona kveðjustund. Blair er alls ekki algjörlega mér að skapi, en það var erfitt að vera á móti honum sumarið 1997. Það sást vel af könnunum er yfir 80% þjóðarinnar fylktu liði með honum. Hann vann líka hug og hjörtu fólks við dauða Díönu. Það var margt sem festi hann í sessi. Þetta var þrátt fyrir allt stórmerkilegur tími og hann verður metinn þannig.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.6.2007 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband