Ný spútnik-stjarna rís í breskum stjórnmálum

David Miliband Það leikur enginn vafi á því að ný spútnik-stjarna í breskum stjórnmálum er komin til sögunnar með ákvörðun Gordon Brown, forsætisráðherra, að fela David Miliband húsbóndavald í utanríkisráðuneytinu. Miliband er fjórði utanríkisráðherrann í tíu ára valdatíð Verkamannaflokksins. Robin Cook var utanríkisráðherra 1997-2001 og Jack Straw 2001-2006. Báðum var sparkað harkalega með eftirminnilegum hætti af Tony Blair. Margaret Beckett varð utanríkisráðherra fyrir ári, fyrst kvenna í yfir 220 ára sögu ráðuneytisins.

David Miliband er næstyngsti maðurinn sem tekur við völdum í utanríkisráðuneytinu. Aðeins dr. David Owen var yngri. Þegar að David varð utanríkisráðherra í febrúar 1977 í ríkisstjórn Jim Callaghan var hann aðeins 38 ára gamall. Miliband verður 42 ára í næsta mánuði, en lítur reyndar út fyrir að vera miklu yngri. Skipan hans á þennan einn valdamesta póst í breskum stjórnmálum mun efla til muna umræðuna um að hann sé nú orðinn, líkt og Gordon Brown áður, krónprins Verkamannaflokksins og sá sem bíði eftir völdunum síðar meir. Ennfremur mun eflaust verða skrafað mjög áberandi um það að þeir hafi samið um valdaskipti, líkt og Blair og Brown áður.

David Miliband hefur útlit krónprinsins og hann hefur persónutöfra í takt við það sem einkenndi Tony Blair fyrir um þrettán til fimmtán árum. Margir hvöttu hann til að gefa kost á sér til leiðtogahlutverks í flokknum. Þrálátar kjaftasögur eru um að Tony Blair og helstu lykilmenn hans hafi hvatt hann sérstaklega til að fara fram. Þá fyrst er hann útilokaði opinberlega framboð komu Blair og hans lykilmenn fram og lýstu yfir algjörum stuðningi við Gordon Brown. Reynt var að bera á móti kjaftasögunum um að dubba hafi Miliband upp til leiðtogahlutverks, en það hefur ekki beint hljómað sannfærandi í ljósi þeirra öruggu heimilda sem fylgdu fréttum t.d. Guardian af málinu.

Það er eflaust hagur bæði þeirra Browns og Milibands að þeir vinni saman. Brown hefur reynsluna og kraft hins þrautreynda statesman, en Miliand hefur sjarmann og áruna sem einkennir vænlegan krónprins. Saman geta þeir unnið vel, rétt eins og Blair og Brown gerðu saman á sínum tíma í frægu samkomulagi sem í raun tryggði Verkamannaflokkinn sem sterkan valkost og byggði undir veldið mikla sem síðar varð með kosningasigrinum 1997. Hefðu þeir tekið rimmu saman hefði staðan eflaust getað orðið allt önnur og kergjan sem hefði komið með leiðtogaslag þeirra á milli hefði orðið flokknum skaðleg til lengri tíma litið. Samkomulagið tryggði stöðu beggja.

Gordon Brown er auðvitað að eldast. Hann nálgast nú sextugt og er ekki lengur hinn ungi framagjarni maður sem var á tíunda áratugnum er kratarnir komust til valda og honum vantar sárlega ungan og efnilegan arftaka sér við hlið, bæði til að tryggja sína stöðu og eins flokksins á komandi árum. Brown hefur þó náð markmiðum sínum. Hann barðist í þrettán ár fyrir því að hljóta völdin í Downingstræti 10. Hann var líka með leiðtoga og forsætisráðherra fyrir framan sig sem var tveim árum yngri en hann - auk þess varð Tony Blair ekki sammála Brown um hvenær að tími hans væri liðinn.

Í ráðherravali Gordons Browns felast mikil tíðindi að mínu mati. Hann veitir nýju fólki ótrúlega góð tækifæri. Utanríkisráðherratign Milibands markar hann sem alvöru leiðtogakandidat í fyllingu tímans og færir honum gríðarleg völd á alþjóðavettvangi og ennfremur á heimavelli. Það líta allir á hann núna sem krónprinsinn. Samið var um skiptingu valda og því fær hann umbun þess að hafa beðið og öðlast enn meiri reynslu á meðan að sá hinn reyndasti fær loksins að njóta ævimarkmiðsins. Valið á Jacqui Smith sem innanríkisráðherra var ennfremur mjög táknrænt og kom mjög að óvörum.

Þegar að litið er yfir ráðherraval Browns sést best að hann felur yngri mönnum umtalsverð tækifæri. Með öðrum orðum; hann er að byggja upp næstu kynslóð flokksmanna til valda. Þetta gerði Tony Blair ekki. Gott dæmi var þegar að hann sparkaði Jack Straw úr utanríkismálunum. Þá valdi hann hina lífsreyndu Margaret Beckett á póstinn, þrátt fyrir að flestir töldu hennar tíma svo til liðinn. Þá valdi hann ekki Miliband, þrátt fyrir sögusagnir, sem hefði með því getað byggt hann upp sem leiðtogakandidat gegn Gordon Brown. Beckett fékk grimmileg örlög í uppstokkun Browns.

En nú hefur David Miliband fengið tækifærið. Það er samt engin greið og bein leið fyrir hann til valda síðar meir. Utanríkisráðuneytið verður honum mikil eldskírn. Þar mun reyna á hann. Ég held að Gordon Brown ætli honum mikil völd og ég held að hinn ungi utanríkisráðherra verði mun meira áberandi en forverar hans á valdaferli flokksins undanfarin tíu ár, því ég tel að Brown ætli sér að vera leiðtogi innanríkismálanna. En í eldskírn felast tækifæri. Þetta veit hinn ungi og öflugi vel.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband