Mesta óánægjan við ráðherravalið er í Norðaustrinu

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Það er athyglisvert að fara yfir könnun Gallups á ráðherravali í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mesta athygli mína vekur að innan við helmingur aðspurðra er ánægður með valið og að minnsta ánægjan með valið er hér í Norðausturkjördæmi. Það er orðinn rúmur mánuður frá því að stjórnin tók við völdum og mælist hún vinsælasta ríkisstjórn stjórnmálasögu landsins skv. könnunum. Því er þetta enn meira áberandi staða.

Í sjálfu sér kemur mér ekki mjög að óvörum að óánægja sé til staðar hér í Norðausturkjördæmi. Enn eigum við bara einn ráðherrastól í stjórninni; sem nú er samgönguráðherrann Kristján L. Möller. Það vakti auðvitað mjög mikla athygli að fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, hafði ekki stuðning eða stöðu til að hljóta sæti í ríkisstjórn. Það blandast engum hugur um að kurr er í sjálfstæðismönnum hér í kjördæminu með að við fengum ekki ráðherrastól, en þetta er eina kjördæmi landsins þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á ekki ráðherrastól.

Eftir sögulegan kosningasigur hér í kjördæminu hlaut flokkurinn ekki ráðherrastól. Hinsvegar er Arnbjörg Sveinsdóttir áfram þingflokksformaður og hún hlaut formennsku í þingnefnd. Það er auðvitað mjög áberandi að Kristján Þór hlaut hvorki ráðherrastól né nefndaformennsku eftir að hafa unnið stóran sigur í prófkjöri í nóvember 2006 og hafa leitt flokkinn til góðs árangurs. Það vekur miklar vangaveltur. Staða Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri er reyndar líka mikið umhugsunarefni, en við munum ekki hafa embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið og ekki verður leiðtogi listans, sem var bæjarstjóri hér í tæpan áratug, ráðherra á tímabilinu, að óbreyttu.

Í sjálfu sér má Samfylkingin hér í kjördæminu mjög vel við una. Að óbreyttu munu þeir hafa bæði embætti bæjarstjóra á Akureyri og ráðherrastól í næstu sveitarstjórnarkosningum. Þeirra staða er mjög sterk þó að nú reyni auðvitað á öll hin fögru kosningaloforð sem Kristján L. Möller færði okkur á fagurlega myndskreyttum matseðli samgönguframkvæmda með fallegu orðskrúði. Á efndir þeirra orða verður kallað. Það er mjög einfalt mál. Nú reynir á hann sem eina ráðherrann í kjördæminu, eina stjórnmálamanninn sem nýtur trausts á þessum tímapunkti til ráðherrasetu.
 
Svo virðist vera sem að ráðherravalið sé heilt yfir umdeildara innan Sjálfstæðisflokksins, þar segjast aðeins 41% vera heilt yfir ánægðir en nákvæmlega helmingur Samfylkingarfólks. Það má vel vera að fólk sé ósátt við að ekki séu fleiri konur ráðherrar í nafni Sjálfstæðisflokksins. Það er eflaust margt sem veldur að meiri óánægja er þar við stöðu mála að mínu mati. Þar ræður sennilega ekkert eitt í heildina.

Heilt yfir er þetta merkileg könnun og gefur góðar vísbendingar og vangaveltur um hug landsmanna til þeirra sem sitja í ríkisstjórninni.

mbl.is Innan við helmingur landsmanna sáttur við ráðherraval
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband