Díönu minnst með tónlistarveislu á Wembley

Díana prinsessa af Wales Það eru 46 ár í dag liðin frá fæðingu Díönu, prinsessu af Wales. Hennar er minnst nú á þessu síðdegi með sannkallaðri tónlistarveislu, sem ber heitið Concert for Diana, á Wembley-leikvanginum í London. Það er óhætt að segja að það sé einvalalið söngvara og tónlistarmanna sem heiðrar minningu Díönu á þessum tónleikum. Þeir voru skipulagðir af sonum hennar, Vilhjálmi og Harry, í tilefni þess að í lok næsta mánaðar er áratugur liðinn frá sviplegu andláti hennar í París.

Sir Elton John hóf tónleikana með einu af sínum þekktustu lögum, Your Song, og mun ennfremur ljúka þeim og þá með laginu Candle in the Wind, útgáfunni frá árinu 1997 sem var tileinkuð prinsessunni og helguð minningu hennar. Lagið var sungið við útför hennar í Westminster Abbey í september 1997 og er lagið á mest seldu smáskífu í tónlistarsögunni, sem gefin var út til minningar um Díönu eftir andlát hennar. Elton hafði sagst aðeins myndu syngja lagið opinberlega aftur ef synir Díönu myndu biðja hann um að gera það.

Þetta eru svo sannarlega áhugaverðir tónleikar. Ég hef fylgst með þessu með öðru auganu og það má segja með sanni að þar sé ólík en áhugaverð tónlist úr öllum mögulegum áttum, sannkölluð tónlistarveisla. Það var vel til fundið hjá sonum Díönu að minnast hennar á afmælisdegi hennar. Andlát Díönu hafði mikil áhrif í breskri sögu fyrir áratug og þeir sem upplifðu þá tíma munu ekki gleyma þeim, enda var prinsessan kvödd með virðulegum hætti, en þjóðarsorg Breta þá haustdaga var svo sannarlega sönn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband