Þórunn vill ekki að álver rísi við Húsavík

Þórunn SveinbjarnardóttirÞórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, lýsti því yfir í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að hún vildi ekki að álver myndi rísa á Bakka við Húsavík, né heldur í raun og veru í Helguvík og Þorlákshöfn. Þessi skoðun er ekki að tóna beint við ummæli Kristjáns L. Möllers, samgönguráðherra, og Samfylkingarinnar hér í Norðausturkjördæmi. Greinilega er ekki sama skoðun ríkjandi innan Samfylkingarinnar um álverið við Húsavík.

Ummæli ráðherrans eru að mínu mati mjög afdráttarlaus gegn álveri og vekja vissulega mikla athygli. Það hefur reyndar blasað við öllum að Þórunn tilheyrir þeim hópum sem vill vissulega hægja á í stóriðjumálum. Hún var önnur tveggja þingmanna Samfylkingarinnar sem lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri við Reyðarfjörð á sínum tíma og hefur verið áberandi talsmaður gegn þeirri framkvæmd alla tíð.

Ég hélt að það væri þegjandi samkomulag um að láta á þessa álversframkvæmd reyna. Það sagði allavega Kristján Möller í kosningabaráttunni hér. Enda blasir við öllum að yrði þetta álver að veruleika gengi það fyrir endurnýjanlegri orku. Það væri reyndar fróðlegt að heyra hvernig Samfylkingarfólki í Þingeyjarsýslu líði með þessa afstöðu umhverfisráðherrans. Trúnaðarmenn Samfylkingarinnar þar hafa meira að segja staðið fyrir álgöngu til stuðnings við álver þar. Það fólk er varla mjög glatt yfir þessu tali.

Ég held að allir alvöru fjölmiðlamenn myndu nú fara og spyrja Kristján L. Möller út í afstöðu ráðherrans. Þetta er mál sem væri gott að fá skoðun hans á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gizmo

Þetta er ekki alveg rétt með farið hjá þér Stefán, ef þú hlustar á viðtalið og hlustar þar eftir því hvað Þórunn segir nákvæmlega:

Fréttamaður: "Viltu þú sjá álver í Helguvík, Þorlákshöfn og Húsavík?"

Þórunn: "Nei, ég held líka að það sé engin ástæða fyrir Íslendinga til þess að byggja öll þessi álver, ég held við höfum mörg önnur tækifæri."

Spurningin er s.s. sú hvort ráðherra vill sjá öll þessi álver, ekki hvort hún vilji hugsanlega sjá eitthvað af þeim.

Ef svar ráðherrans er skoðað tekur hún skýrt fram "til þess að byggja öll þessi álver"

s.s. ráðherra útilokar bara byggingu allra þessara álvera, en er ekki að útiloka t.d. að byggt verði eitt álver, í Helguvík eða Þorlákshöfn svo dæmi sé tekið.

Hlusta má á viðtalið hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4304548/3 

Umrædd ummæli lætur ráðherra falla undir lok þáttar. 

Gizmo, 3.7.2007 kl. 23:01

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er alveg ljóst að umhverfisráðherrann er ekki hlynnt stóriðju. Hún tók afstöðu gegn Kárahnjúkavirkjun með afgerandi hætti. RÚV túlkar þetta í frétt sinni þannig að hún vilji ekki álver rísa á þessum stöðum (Helguvík, Þorlákshöfn og Húsavík). Ég tek því líka þannig. Hún hefur alla tíð verið hörð á móti stóriðju og vill ekki uppbyggingu af því tagi. Það sést vel í viðtalinu.

Það er óþarfi að birta tengil aftur á viðtalið, enda er hann hér í skrifum mínum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.7.2007 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband